14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal verða stuttorður. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf hér. Í þeim kom m. a. fram að ástandið í frystingunni er enn þá verra en ráða má af þeim tölum sem hæstv. ráðherrar hafa þó látið hafa eftir sér um það efni hingað til. En þó að ég áliti að svo væri, þá taldi ég ekki rétt að hafa um þetta mál aðrar tölur en þær sem komið höfðu fram af hálfu hæstv. ráðherra og talsmanna ríkisstj. á opinberum vettvangi áður. Hitt verður þó að segjast, að þótt málin hafi uplýstst nokkuð að því er stöðuna varðar, þá eru menn litlu nær um hver stefnan verður við úrlausn þessara mála. Ég fann hvergi í ræðunni svör við. því, hvernig eða hvenær yrði úr þessu leyst.

Frýjunarorð og útúrsnúninga hæstv. sjútvrh. — og væntanlega hæstv. félmrh. líka því að hann tók hér til máls meðan ég var í burtu, en hefur væntanlega snúið út úr, eins og hans er von og vísa, varðandi ræðu mína-læt ég mér í léttu rúmi liggja. Það hjálpar ekki til við að leysa málin, upplýsir þau á engan hátt. Þó get ég ekki látið hjá líða að mótmæla einu atriði. Það var talað í þá veru að ég hefði verið að heimta gengisfellingu. Þetta er rangt. Ég spurði hæstv. sjútvrh. hvort þær aðgerðir, sem hann hefði í huga, hvort sú stefna, sem ríkisstj. ætlaði að fylgja í þessu máli, þær aðgerðir, sem hún ætlaði að grípa til, ættu að þýða frestun á gengisfellingu, ávísun á framtíðina sem yrði síðan leyst út með gengisfellingu síðar. Þessu atriði svaraði hæstv. sjútvrh. ekki beint, en ég verð þó að vekja athygli á því, að hann afneitaði þessu ekki.

Ég vil svo endurtaka þakkir mínar fyrir þessa umræðu. Það hafa verið fluttar hér ýmsar ágætar ræður og margt komið fram til að upplýsa þessi mál, þó að ekki hafi verið svarað öllum þeim spurningum sem fram voru bornar, spurningum sem brenna á allra vörum og skapa mikla óvissu í þjóðfélaginu. En ákvörðun verðum við að fá, og ég skora á hæstv. sjútvrh. að beita sér af afli fyrir því, að úrlausn fáist í þessu máli og þessu óvissuástandi linni.