09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

69. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Gert er ráð fyrir að lánsupphæðin verði allt að 42 millj. kr. Það fer að vísu eftir því hvað aflamagnið verður mikið. Jafnframt, eins og fram kemur í athugasemdum, er gert ráð fyrir að það verði ekki endurgreitt af Verðjöfnunarsjóði neina staða hans batni svo, þ. e. loðnudeildarinnar, að hún geti greitt þetta lán. Það þýðir vitanlega að afurðir hækki það mikið að menn komi sér saman um að unnt sé að láta vissa upphæð renna í sjóðinn.

Gert var ráð fyrir að lánið yrði til tveggja ára. Ég hef ekki upplýsingar um það, með hvaða kjörum þetta lán muni verða, en ég tel mjög líklegt að það verði með gengistryggingu og þeim vöxtum sem slíkum lánum fylgja, m. a. vegna þess að lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins gera ráð fyrir að inneign í sjóðnum skuli vera þannig tryggð, þ. e. gengistryggð, og með þeim vöxtum sem gjaldeyrisvarasjóðnum fylgja. Þetta tel ég eðlilegt vegna þess að Verðjöfnunarsjóðurinn á töluverða upphæð, líklega um 80 millj., í Seðlabankanum. Það er innistæða hans. Lög heimila að því fjármagni sé ráðstafað enda liggi ríkisábyrgð fyrir og það sé gengistryggt eins og þessi lög gera ráð fyrir. Nærtækast er því að deildin taki lán af þessari innistæðu. Þá verður vitanlega að fullnægja þeim ákvæðum sem verðjöfnunarsjóðslögin gera ráð fyrir um ávöxtun þessa fjármagns.