03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4536 í B-deild Alþingistíðinda. (4308)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég sagði það þegar hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson mælti fyrir þessari till., að ég teldi þetta einhverja gagnmerkustu till. sem fram hefði komið á þinginu í vetur. Ég stend við það enn þá, og af því tilefni vil ég segja það, að mér þykir afleitt ef hv. atvmn. hefur ekki gefið sér tíma til að athuga þessa till., sem ekki er eingöngu þáltill. um innlendan lífefnaiðnað, heldur gæti falið í sér að stórefla allar háskólarannsóknir í landinu, sem er mjög tímabært mál og nauðsynlegt. Ég verð í raun að harma ef á að afgreiða þessa till. í einhverjum hvelli. Hafi hv. atvmn.-menn ekki gefið sér tíma til að kanna það mál, sem hér er á ferðinni, er það afleit afgreiðsluaðferð. Hér liggur að nokkru leyti tímamótamál fyrir þinginu. Það er verið að leggja til að efldur verði lífefnaiðnaður, einhver dýrmætasti iðnaður sem um getur og jafnframt sá sem framleiðir einhver dýrmætustu og dýrustu efni sem um getur, og nefndin gefur sér ekki tíma til að athuga þessa tillögu. Það er vonandi að þetta sé ekki dæmigert fyrir störf þingsins.

Þá vil ég líka harma það, að mér finnst að nefndin hafi í starfi sínu unnið nánast óhæfuverk á till. með því að taka raunverulega allan broddinn úr tillgr., með því að stytta tillgr., eins og hér er gert ráð fyrir, því að þar með er tekinn broddurinn úr tillgr. Tillgr. segir mjög ákveðið hvað hv. flm. vilja að sé athugað og vilja að sé rannsakað, en nefndinni hefur tekist að koma því svo fyrir að tillgr. verður næsta marklaus.

Ég vil eindregið beina þeim tilmætum til þeirra, sem um þetta mál hafa fjallað, að gera nánari grein fyrir því, hvers konar afgreiðslu till. hefur fengið í nefndinni. Ég tel það bæði nauðsynlegt og eðlilegt.