03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4540 í B-deild Alþingistíðinda. (4313)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. 11. landsk. þm. og fleiri, að við stöndum ekki nógu vel að þessum málum. Þáltill., sem bornar eru fram, missa marks við meðferð eins og hér er viðhöfð. Ég verð að segja að það er tilgangslítið að vanda tillögugerð, leggja eins mikla vinnu í tillögugerð og var gert í þessu tilfelli, eins og hv. þm. geta séð með því að lesa till. yfir. Og ég verð að segja að brtt. frá hv. atvmn. er dálítið losaraleg með tilliti til þess, að þegar till. sjálf er lesin kemur í ljós að hún er mjög ákveðin og gefur á einfaldan og skýran hátt tóninn um hvað um sé að ræða. Ég skal lesa till.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að komið verði á fót öflugum innlendum lífefnaiðnaði. Í því sambandi beiti ríkisstj. sér fyrir eftirfarandi atriðum:

1. Með markvissri rannsóknaáætlun verði leitað svara við því, hvaða lyf, lyfjahráefni, hormóna og lífhvata geti verið hagkvæmt að vinna úr innyflum fiska, hvala og sláturdýra, sem til falla hérlendis.

2. Framleiðsla þeirra lyfja, lyfjahráefna, hormóna og lífhvata, sem rannsóknir sýna að hagkvæm sé, verði hafin jafnóðum og niðurstöður liggja fyrir.“

Ég vil í þessu sambandi einnig benda á það sem kemur fram í grg., að það hefur verið áður starfandi nefnd í sambandi við þetta mál. Árið 1973 skipaði iðnrh. nefnd til að kanna grundvöll fyrir framleiðslu lyfjaefna hérlendis úr innlendu hráefni. Það er tekið fram í grg. þessarar till., hvaða niðurstöðum nefndin komst að. Þær eru vissulega þess virði að skoða þær nánar. Í greinargerðinni eru ýmsar niðurstöður af vísindalegum rannsóknum um þessi efni tilgreindar á skilmerkilegan hátt og gífurlega mikil vinna lögð í greinargerðina til þess að hv. alþm. áttuðu sig á málinu í heild. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér niðurstöðu af greinargerðinni.

Þessi niðurstaða heitir „Stefnumörkun — markviss vinnubrögð“ og hljóðar svo:

„Ljóst er af þeim rannsóknum, sem þegar hafa farið fram, að Íslendingar ættu að geta haslað sér völl á sviði lífefnaiðnaðar.

Nauðsynlegt er að gera markvissa rannsóknaáætlun og vinna að framgangi málsins með föstum, ákveðnum skrefum.

Í okkar þjóðlífi er nú mikið rætt um orkufrekan iðnað. Verulegum fjármunum er varið í hagkvæmniathuganir á ýmsum kostum stóriðju. Hér er í flestum tilvikum um að ræða iðnað þar sem hráefni er flutt til landsins og fullunna varan út.

Mikil nauðsyn er að auka framleiðslu landsmanna með orkufrekum iðnaði. En við megum ekki láta okkur sjást yfir nærtækan möguleika eins og lífefnaiðnað úr innlendu hráefni. Innyflum fisks og sláturdýra er að mestu hent. Við erum fiskframleiðendur á heimsmælikvarða.

Þessi verðlitlu hráefni eru grundvöllur að öflugum lífefnaiðnaði.

Það sem vantar er stefnumörkun á þessu sviði og markviss vinnubrögð, þá mun árangurinn ekki láta á sér standa.“

Ég tel að með þessari þáltill. hafi verið gefinn tónninn að því að taka undir með þessum tillöguflutningi þannig að hæstv. ríkisstj. átti sig á því, að hér er um verðugt verkefni að ræða sem mun verða til að efla íslenskt atvinnulíf, íslenskt hugvit og íslenskar rannsóknir.