10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

320. mál, myndvarp

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 25 leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„Er tilagna að vænta frá dómsmrh. um breytta skipan bifreiðaeftirlits hér á landi, með tilliti til tillagna frá stjórnskipaðri nefnd er fram voru lagðar í okt. 1979?“

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að það var þáv. dómsmrh., Steingrímur Hermannsson, sem skipaði nefnd — eða starfshóp eins og hann kallar hér — til þess að gera tillögur um skipan bifreiðaeftirlits hér á landi í næstu framtíð. Í þessari nefnd áttu m. a. sæti forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins, fulltrúi fjvn., fulltrúi fjárlaga- og hagsýslustofnunar, Þórir Jónsson fulltrúi Bílgreinasambandsins og aðstoðarmaður dómsmrh. Eiríkur Tómasson, sem var jafnframt skipaður formaður starfshópsins.

Skemmst er frá því að segja, að þessi starfshópur skilaði niðurstöðum, ítarlegum tillögum, 25. okt. 1979 og gerði þar margháttaðar brtt. við núverandi fyrirkomulag bifreiðaeftirlits og bifreiðaskoðunar. Það er sammerkt með þessu till. að þær horfa allar í þá átt að spara kostnað við þessa starfsemi og gera þetta allt einfaldara og léttara í vöfum en verið hefur fram til þessa. Hér er um hagræðingarmál að ræða, ekki aðeins fyrir ríkið heldur og fyrir þá einstaklinga sem eiga erindi við þessa ríkisstofnun, sem eru býsna margir.

Því er þessi fsp. hér fram borin, að það er fróðlegt að fá að vita hvort dómsmrh. hyggst fara að tillögum þessarar nefndar eða hvort þær eiga áfram að rykfalla einhvers staðar í hillu.