03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4558 í B-deild Alþingistíðinda. (4324)

289. mál, söluerfiðleikar búvara

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og þessar umr. bera með sér er næsta fátt um svör þegar hæstv. landbrh. eða helsti hjálparkokkur hans, hv. 2. þm. Austurl., eru spurðir um ýmis helstu atriði landbúnaðarins og hvernig á því standi að svo illa skuli að honum búið sem raun ber vitni. Auðvitað fer það ekki fram hjá mönnum, að víða í sveitum horfir nú til landauðnar og svo er komið í þessari atvinnugrein að það er næsta borin von að ungur bóndi geti af eigin rammleik hafið búskap, sem þó var fært duglegum manni fyrir ekki mörgum árum. Þetta er auðvitað gjörbylting og raunar afleiðing af þeirri peningastefnu sem upp hefur verið tekin hér á landi.

Hæstv. landbrh. spurði eins og ekki væri hægt að svara þeirri spurningu, hvort við sjálfstæðismenn vildum auka fjárfestingu í landbúnaði. Auðvitað viljum við auka rétta fjárfestingu í landbúnaði sem auðveldar bændum að komast yfir þá erfiðleika sem þeir eru nú í, m.a. með því að efla nýgreinar í landbúnaði. En þar verður auðvitað líka að fara með gát því að ekki dugir að ota of mörgum mönnum út í það, kannske mönnum sem illa hefur gengið að rekabú sín með hefðbundnum hætti og eru af þeim sökum enn verr færir um að ráðast í nýjar búgreinar sem kannske krefjast meiri aðgæslu, aðhlynningar og aðgátar, kannske líka vegna þess að þar er um framandi verk að ræða, Ég held því að þau spor, sem stiga verður nú, verði að vera mjög yfirveguð og menn verði að gæta sín að misstíga sig ekki og vinna ekki tjón með því að stíga fyrstu skrefin í nýgreinunum með fyrirhyggjuleysi. Annars skal ég ekki gera þessi mál svo mjög að umræðuefni, heldur víkja að öðrum þætti í stefnumörkun í landbúnaði, eins og hæstv. landbrh. hefur lagt hér fram.

Með leyfi hæstv. forseta segir hann orðrétt: „Áhersla verði lögð á að bæta og auka það hráefni, sem landbúnaðurinn getur lagt innlendum iðnaði til á hagkvæman hátt, og iðnaðurinn hafi forgang að því, svo sem verið hefur, en greiði fyrir það sanngjarnt verð. Sérstaklega verði hlúð að ullar- og skinnaiðnaði og leitað annarra möguleika á framleiðslu séríslenskrar vöru, er styrki framleiðslugrundvöll landbúnaðarins. Kappkostað verði að leita nýjunga í framleiðslu til útflutnings, er komi í stað óhagkvæmrar útflutningsframleiðslu.“

Nú hefði náttúrlega verið skemmtilegt ef hæstv. landbrh. hefði látið fylgja í hinni ítarlegu grg. hvernig búið hefur verið að þessum iðnaði, sem hér er talað um, síðan hann settist í ríkisstj., síðan þessi ríkisstj. var mynduð sem svo mjög leggur upp úr því að hlúa að þessum greinum. Ég veit að hæstv. landbrh. er kunnugur því eins og ég að prjóna- og saumastofur víðs vegar í sveitum landsins hafa stöðvað framleiðslu sína vegna þess að afurðirnar seljast ekki á kostnaðarverði Það er hægt að benda á þá miklu erfiðleika sem t.d. Álafoss á við að stríða núna og ýmis önnur fyrirtæki. Að vísu hefur það verið svo um verksmiðjurnar á Akureyri að þar hefur ekki komið til beinna uppsagna, en ég held að ástandið sé allt öðruvísi og miklu verra hér í Reykjavík.

Ég vil aðeins minna á að fyrir fjórum árum eða svo, kannske er styttra síðan, en fyrir 4–5 árum vorum við að vinna mikilvæga markaði í okkar helstu nágranna- og viðskiptalöndum. Við vorum komnir inn á góðan markað í Frakklandi, ef ég man rétt, einnig á Niðurlöndum, og okkar vörur setdust þar við hærra verði en samsvarandi vörur frá Írlandi eða Norðurlöndum. Skýringin var sú, að gæran íslenska hefur ýmsa þá eiginleika sem gera hana eftirsóknarverða í fatnað. En hvernig stendur á því, að við týndum þessum mörkuðum sem við eyddum miklu fé til að vinna og hefur kostað mikla fyrirhöfn? Skýringin er sú, að útflutningsiðnaðinum hafa ekki verið sköpuð eðlileg og heilbrigð rekstrarskilyrði. Afleiðingin er svo sú, að æ meira af ullar- og skinnavörum er flutt óunnið úr landi. Skýringin á þessu er auðvitað sú, að gjaldeyríspólitíkin hefur verið röng, það hefur verið fylgt rangri stefnu í gjaldeyrismálum sem hefur grafið undan ekki aðeins þeim úrvinnslugreinum landbúnaðarins, sem ég hef hér nefnt, ullar- og skinnaiðnaði, heldur hefur líka þrengt stöðu okkar í kjöt- og mjólkurframleiðslunni. Þessi ranga gjaldeyrispólitík veldur því, að kjöt- og mjólkurvörur setjast við miklu lægra verði en ella mundi í íslenskum krónum vegna þess að innlendi kostnaðurinn hefur hlaðist upp hjá bóndanum og hjá iðnfyrirtækjunum, en hins vegar hefur hækkunin t.d. á norsku krónunni og franska frankanum hvergi nærri fylgt þessum kostnaðarhækkunum.

Það væri fróðlegt fyrir hæstv. landbrh. að meta síðasta ár með hliðsjón af þessu og taka síðan inn í myndina hver væri staða landbúnaðarins gagnvart útflutningi í dag ef mið hefði verið tekið t.d. af frystingunni og okkar gjaldmiðill verið miðaður við að frystingin gæti nokkurn veginn staðið undir sér, sem ekki er óeðlileg viðmiðun, eins og oft kemur upp í viðræðum manna á milli, og hefur auðvitað þann kost líka að safnað hefði verið í varasjóði í saltfisk- og skreiðarverkuninni. Mér sýnist raunar varðandi skreiðarverkunina að ekki hefði veitt af að eiga nú eitthvað í verðjöfnunarsjóðnum þar til að grípa til. Það er líka margt sem bendir til að þetta ár ætli ekki að verða okkur jafngjöfult og þau síðustu í sjávarútvegi, fiskafli verði minni, og af þeim sökum hefði komið sér vel að við hefðum lagt eitthvað til hliðar.

Ég veit raunar að hæstv. landbrh. meinar það, þegar hann segir að hann vilji hlúa að ullar- og skinnaiðnaðinum. Hann hefur einmitt lagt áherslu á þetta í sambandi við stefnumótun í landbúnaðarmálum svo árum skiptir, og þess vegna veit ég að þetta er honum hjartans mál. En hann á hins vegar við þann ramma reit að draga sem er núv. ríkisstj. og sú afturhaldssama og þrönga stefna sem hún hefur haft í atvinnumálum.

Ég skal ekki endurtaka hér þær staðreyndir sem ég dró fram hér í eldhúsdagsumræðum fyrir skömmu, en þar drap ég einmitt sérstaklega á afkomu ullar- og skinnaiðnaðarins og þau ummæli sem í skýrslu Þjóðhagsstofnunar eru höfð um þau kröppu kjör sem þessi iðnaður á nú við að stríða. Ég veit að a.m.k. þm. Norðlendinga muna vel eftir þeim fundi sem haldinn var í verksmiðjum SÍS á Akureyri á s.l. hausti, þar sem var neyðaróp ekki aðeins verkafólksins, heldur líka stjórnenda þessara verksmiðja. Það er að vísu rétt, að gengið var fellt duglega nú í janúar og það hefur sigið síðan. Ég reyndi að afla mér upplýsinga um hvernig staðan hjá þessum iðnaði væri núna, en þriggja mánaða yfirlitið yfir fyrstu þrjá mánuði þessa árs var ekki komið þannig að ég fékk ekki um það að vita. Þeir töldu auðvitað að rekstrargrundvöllurinn hefði eitthvað batnað, stæði kannske nokkurn veginn undir sér á núllpunkti, eins og kallað er, miðað við tíðandi stund. En þá var ekki tekið tillit til þess, að standa þyrfti undir kreppulánunum sem tekin hafa verið á undanförnum tveim til þrem árum. Sá grundvöllur, sem kann að hafa verið í febrúar um stuttan tíma fyrir þessum iðnaði, var aðeins rekstrarlegs eðlis, hann bætti ekki efnahag fyrirtækjanna, hann er jafnbágur og hann hefur verið. Þetta er auðvitað alvarlegt mál.

Nú spyrja bæði hv. 2. þm. Austurl. og hæstv. landbrh. hvað við viljum gera til að rétta við hag landbúnaðar. Við viljum náttúrlega byrja á að koma ekki aðeins landbúnaði, heldur öllum öðrum atvinnurekstri hér á viðunandi grundvöll, og ekki aðeins atvinnurekstrinum, heldur líka mikilsverðum þjónustustofnunum, eins og raforkuverum og hítaveitum, þessum helstu fyrirtækjum sem halda hér uppi atvinnu og gera okkur mögulegt að lifa hér menningarlífi. Ef svo heldur fram sem horfir, ef áfram verður étið innan úr þessum fyrirtækjum, ef áfram verður étið innan úr landbúnaðinum, ef áfram verður étið innan úr sjávarútveginum, ef áfram verður étið innan úr hinum almenna iðnaði, þá verður þess líka skammt að bíða, að kjörin verði verri, ekki aðeins hjá bændum, heldur líka hjá öllum almenningi. Þetta er sá mikli kjarni þessa máls sem víð verðum að íhuga. Landbúnaðurinn er ekki eitthvað sem hægt er að setja út í skúr í einhverja sérstaka skúffu og loka hann af fyrir umhverfinu.

Þegar í málefnasamningi þessarar ríkisstj. var um það talað að hæstv. ríkisstj. mundi gera mikið átak í því að vinna markaði fyrir landbúnaðarvörur hefði maður náttúrlega getað búist við að í því fælist a.m.k. að tryggja landbúnaðinum nokkurn veginn sömu tekjur og kostnaðarhækkunum nam, skráning gengisins yrði með þeim hætti. En það er nú ekki því að heilsa. Þessi gengisstefna verður líka fjötur um fót hinum nýju búgreinum sem byggja einvörðungu á útflutningi, kemur illa við skinnaiðnaðinn meðan hann er á brauðfótum, bitnar á útflutningi á eldislaxi, bitnar á hverju einu sem víð tökum okkur fyrir hendur ef við ættum að efna til útflutnings: ég veit að hv. þm. víta þetta, skilja þetta, en þeir eru haldnir þeirri þráhyggju, eða miklu fremur sú ríkisstj. sem þeir fylgja, að þeir fást ekki til að haga sér í samræmi við það sem þeir telja skynsamlegt.

Ef hæstv. sjútvrh. væri staddur hér í salnum hefði verið fróðlegt að rifja upp nokkur orð sem birtust í áramótagrein hans og voru skynsamleg og eiga við einnig í dag. Á hinn bóginn hefur hann skort festu og einurð til að fylgja þeirri stefnu fram sem hann þar boðaði í atvinnumálum. Niðurstaða hans eða úttekt á s.l. ári var sem sagt þessi: Við höfum náð verðbólgunni niður að vísu, en það hefur orðið á kostnað útflutningsframleiðslunnar. Það getur engin ríkisstjórn horft aðgerðalaus á þá þróun sem varð á s.l. ári. Þetta var niðurstaða sjútvrh.

Í málefnasamningnum er talað um að bæta bændum óverðtryggðan útflutning landbúnaðarvara frá síðasta verðlagsári og skuli útvegaðar 3000 millj. kr. í því skyni. Þetta er auðvitað engin bót nema í eitt sinn, síðan heldur vandinn áfram. Því miður hefur verið haldið þannig á þessum málum að þessi vandi hefur verið magnaður.

Nú vil ég aðeins segja það að lokum, að sú till., sem hv. 11. landsk. þm. hefur lagt hér fram, er svo sjálfsögð að óþarfi á að vera að flytja slíka till., heldur ætti sú athugun, sem þar er lögð til, þegar að fara fram. Og ég vil þá vænta þess, ef hæstv. landbrh. lætur af því verða, að hann geri þá líka nokkra athugun á því, hvernig sú pólitík, sem rekin hefur verið í gjaldeyrismálum, hefur leikið landbúnaðinn. Ég held að það væri mjög fróðlegt að fá slíka úttekt. Við sjáum það, ef við ferðumst með skipum eða flugvélum, að það eru gjarnan keyptar erlendar landbúnaðarvörur þó um íslensk farartæki sé að ræða. Það er gjarnan erlendur ostur í millilandaferðum hér innanlands í þeim pakka sem seldur er, skipin birgja sig upp með kjötvörum erlendis og fleira mætti rekja. Allt er þetta auðvitað afleiðing af því, að við skráum gjaldmiðil okkar rangt og hann gefur ekki rétta mynd af þeirri miklu dýrtíð sem er í landinu.