04.05.1982
Sameinað þing: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4561 í B-deild Alþingistíðinda. (4326)

251. mál, hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjöldum ÍSALs

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er greiðir ÍSAL framleiðslugjald í stað allra skatta til ríkis og sveitarfélaga. Þá er auðvitað mikilvægt að hlutur sveitarfélagsins sé sanngjarnlega ákveðinn. Framleiðslugjaldið kemur sem sagt í stað útsvars, fasteignaskatts, aðstöðugjalds — og reyndar á sínum tíma tekjuskatta til sveitarfélaga. Í 3. gr. laga nr. 69/1966 var hlutfall Hafnarfjarðarbæjar í þessu framleiðslugjaldi ákveðið, og með viðaukasamningi 1969 var það hlutfall, sem var þá 25%, framlengt óbreytt þótt framleiðslugjaldið væri þá lækkað. Síðan gerðist það að enn voru endurskoðaðir samningar við ÍSAL varðandi framleiðslugjald og rafmagnsverð. Þá var á ný, í maí 1976, gert samkomulag um nýja skiptingu framleiðslugjaldsteknanna. Til kaupstaðarins skyldi renna árlega fastagjald upp á 240 þús. dollara og jafnframt 18% af árlegri heildarfjárhæð framleiðslugjaldsins. Jafnframt var tekið fram í því samkomulagi, sem gert var á þessum tíma milli Hafnarfjarðarbæjar og iðnrn., að upphæð þá, sem renna skyldi til Hafnarfjarðarkaupstaðar samkv. því sem ég hef hér rakið, mætti endurskoða með hliðsjón af þróun fasteignaskatta á tveggja ára fresti, í fyrsta skipti 1. jan. 1979, og þá með samningum milli ríkisstj. og Hafnarfjarðarkaupstaðar. Og eins og segir í þessu samkomulagi getur hvor aðili um sig óskað endurskoðunarinnar. Samkomulagið var gert við þáv. hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen og staðfest með bréfi frá iðnrn. til Hafnarfjarðarbæjar. Það var vitaskuld gert ráð fyrir að ríkisstj. aflaði lagalegrar staðfestingar á þessu samkomulagi. Það hefur hins vegar ekki verið gert, en nú um nokkurn tíma eða frá því að heimild til endurskoðunar tók gildi, hefur Hafnarfjarðarbær óskað eftir endurskoðun á hlut sínum í framleiðslugjaldinu.

Það hefur verið vitnað til þess, að breytingar á gengi og í verðlagsþróun gefi tilefni til að breyta þessu hlutfalli, vegna þess að Hafnarfjarðarbær ber skarðan hlut frá borði. Taka má til viðmiðunar að ef sömu reglur hefðu verið látnar gilda um ÍSAL og um önnur fyrirtæki, þá hefði þetta fyrirtæki árið 1979 átt að greiða fasteignaskatt upp á 165 millj. gkr. og aðstöðugjald upp á 210 millj. gkr. Þessir tveir gjaldstofnar hefðu þá gefið sveitarfélaginu 375 millj. kr. Hlutur Hafnarfjarðar í framleiðslugjaldinu var hins vegar einungis 179.7 millj. kr. Það er skemmst frá að segja að þrátt fyrir það, að samningsbundið sé milli iðnm. og Hafnarfjarðarkaupstaðar að réttur sé til endurskoðunar á hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldinu hafa tilraunir forsvarsmanna bæjarins til að fá fram slíka endurskoðun ekki borið árangur.

Á árinu 1980 tilnefndi ríkisvaldið fulltrúa til samningaviðræðna við Hafnafjarðarbæ um þessi mál. Samningamenn bæjarins og iðnrn. urðu ásáttir um hvernig rétt væri að reikna hlutfallið, en síðan kom í ljós að fulltrúar ríkisins töldu sig ekki hafa umboð til að taka afstöðu til kröfu Hafnarfjarðarbæjar. Nú er nokkuð langur tími liðinn án þess að hin samningsbundna endurskoðun hafi fengist fram og forráðamenn bæjarins eru vítaskuld mjög óánægðir með það. Í októbermánuði s.l., nánar tiltekið hinn 27. okt., sneri bæjarstjórn Hafnarfjarðar sér því til hæstv. forsrh. — sem var, eins og ég hef áður getið um, iðnrh. þegar þetta samkomulag var gert á sínum tíma. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ítrekaði þar óskir sínar um, að endurskoðunin færi fram, og beindi því jafnframt til forsrh., að hann beitti sér fyrir því og jafnframt að leitað yrði lagalegrar staðfestingar á því samkomulagi sem gert var við hann þegar hann var iðnrh. í maímánuði 1976.

Vegna þess dráttar, sem á hefur orðið, og vegna þess, að ekkert hefur enn gerst í málinu, ber ég ásamt öðrum þm. Reykjaneskjördæmis fram fsp. sem hér hefur reyndar legið fyrir í u.þ.b. mánuð. Fsp. er í tveimur liðum og hljóðar þannig:

„Hvað líður afgreiðslu ríkisstj. á ósk Hafnarfjarðarbæjar um endurskoðun á hlutdeild bæjarins í framleiðslugjaldstekjum af ÍSAL, samkv. samningsbundinni kröfu bæjaryfirvalda?“

Í annan stað er spurt: „Hvenær má vænta lagafrv. um þetta efni í samræmi við ákvæði samnings milli iðnrn. og bæjarstjórnarfrá því í maímánuði 1976, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur óskað atbeina forsrh. við?“

Þessum fsp. beinum við þm. Reykjaneskjördæmis til hæstv. forsrh.