04.05.1982
Sameinað þing: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4563 í B-deild Alþingistíðinda. (4327)

251. mál, hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjöldum ÍSALs

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Vegna síðustu ummæla hv. fyrirspyrjanda, að þessi fsp. hafi legið hér í um það bil mánuð, vil ég taka það fram, að fyrir viku, s.l. þriðjudag, var þetta mál hér á dagskrá og ég tilbúinn, eins og ég tjáði forseta Sþ., að svara fsp. En hv. fyrirspyrjandi var þá ekki á þingi, hann var í útlöndum, og ekki talin ástæða til að neinn annar af fyrirspyrjendunum, sem eru víst allir þm. Reykjaneskjördæmis, fylgdi fsp. úr hlaði. Af þeirri ástæðu hefur það dregist þessa viku að svara, en svarið var tilbúið þá.

Með lögum um Atvinnujöfnunarsjóð frá 1966 og síðan með lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins var ákveðið að 25% af framleiðslugjaldi ÍSALs skyldu renna til Hafnarfjarðarbæjar. Í framhaldi af staðfestingu annars viðauka álsamnings var gert samkomulag í maí 1976 milli iðnrn. og Hafnarfjarðarbæjar um nýja skiptingu tekna af framleiðslugjaldi ÍSALs. Samkomulag þetta fól í sér að til Hafnarfjarðarkaupstaðar rynni andvirði 240 þús. dollara, án tillits til skiptingar gjaldsins að öðru leyti, og auk þess 18% af árlegri heildarfjárhæð gjaldsins. Jafnframt þessu var sett svohljóðandi endurskoðunarákvæði í samninginn: „Upphæð þá, er renna skal til Hafnarfjarðarkaupstaðar samkv. lið 1, má endurskoða með hliðsjón af þróun fasteignaskatta á tveggja ára fresti, í fyrsta skipti 1. jan. 1979, með samningum milli ríkisstj. og Hafnarfjarðarkaupstaðar, og getur hvor aðili um sig óskað endurskoðunarinnar.“

Í bréfi iðnrn. til Hafnarfjarðarkaupstaðar 10. maí 1976 segir að ákvæðið um endurskoðun sé sett vegna þess, að hin tiltekna fjárhæð, 240 þús. dollarar, hefði verið ákveðin með hliðsjón af fasteignasköttum. Ákvæðinu sé ætlað að gera kleift að halda eðlilegri samsvörun milli þeirra skatta og fjárhæðarinnar, eftir því sem atvik liggja til á hverjum tíma.

Með bréfi 20. nóv. 1978 var iðnrn. tilkynnt sú ósk bæjarráðs Hafnarfjarðar að endurskoðun færi fram á hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldinu. Þessi ósk var ítrekuð 14. mars 1980 og jafnframt óskað eftir tilnefningu iðnrn. á mönnum til samningaviðræðna við Hafnarfjarðarbæ. Í framhaldi af þessu tilnefndu iðnrn. og fjmrn. sinn manninn hvort til viðræðna við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði. Viðræður hófust um mitt ár 1980. Samkomulag um breytingu á hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldinu hefur ekki tekist enn sem komið er. Hafnarfjarðarbær hefur krafist hækkunar á sínum hluta af framleiðslugjaldi ÍSALs og byggir þá kröfu sína á því, að fasteignaskattar hafa hækkað verulega umfram hækkun á verðgildi dollars.

Fulltrúar fjmrn. og iðnrn. hafa hins vegar haldið því fram, að ekki sé rétt að skýra samkomulagið á þann hátt, að hlutur Hafnarfjarðarkaupstaðar skuli fylgja nákvæmlega breytingum á fasteignasköttum, heldur skuli einungis hafa hliðsjón af þeirri þróun, eftir því sem atvik liggja til á hverjum tíma. Því miður hefur langur tími liðið án þess að samkomulag tækist milli ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar um endurskoðun á ráðstöfun framleiðslugjalds ÍSALs.

Mál þetta hefur verið til meðferðar í iðnrn. og fjmrn., en viðræður við Hafnarfjarðarbæ munu hafa legið niðri um hríð. Fullur vilji er hins vegar til þess af hálfu ríkisstj. að taka upp þráðinn á ný með viðræðum sem leitt gætu til samkomulags.

Þá er spurt hvenær megi vænta lagafrv. um þetta efni í samræmi við ákvæði samnings milli iðnrn. og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá maímánuði 1976. Frá því að samkomulag var gert við Hafnarfjarðarbæ á árinu 1976 hefur hlutdeild bæjarins í framleiðslugjaldi ÍSALs verið greidd bænum í fullu samræmi við samkomulagið, án þess að til lagasetningar hafi komið. Spurning þykir hvort það telst tímabært að lögfesta þessar greiðslur á meðan endurskoðun þeirra stendur yfir.