10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

320. mál, myndvarp

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hinn 8. maí 1979 skipaði þáv. dómsmrh. starfshóp til þess m. a. að gera till. um skipan bifreiðaeftirlits hér á landi í næstu framtíð. Í starfshópnum áttu sæti Eiður Guðnason alþm., Guðni Karlsson forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins, Jón E. Böðvarsson skrifstofustjóri í fjárlaga- og hagsýslustofnun, Þórir Jónsson forstjóri og Eiríkur Tómasson aðstoðarmaður ráðh., sem var formaður nefndarinnar.

Starfshópurinn skilaði skýrslu um verkefni sitt 25. okt. 1979. Í skýrslunni er gerð grein fyrir hlutverki Bifreiðaeftirlitsins og starfsemi. Meginverkefni þess er samkv. umferðarlögum skoðun og eftirlit með ökutækjum. Auk þess eru bifreiðaeftirlitsmenn prófdómendur við almenn bifreiðastjórapróf. Í tengslum við Bifreiðaeftirlitið eru haldin námskeið fyrir atvinnubifreiðastjóra, meiraprófsnámskeið og próf fyrir ökumenn stórra fólksbifreiða og ökukennara. Þá hefur Bifreiðaeftirlitið eftirlit með ísetningu ökumæla vegna innheimtu þungaskatts af dísilbifreiðum og álestur af þeim. Loks heldur Bifreiðaeftirlitið skrá yfir allar bifreiðar í landinu og sér í aðalatriðum um skráningu bifreiða og annarra ökutækja, þótt lögreglustjórar séu skráningaraðilar að lögum. Fjallaði starfshópurinn um þessa verkþætti alla en niðurstöður hans voru þessar helstar:

1. Hópurinn lagði til að áfram yrði haldið reglubundinni árlegri skoðun bifreiða. Lagði meiri hlutinn til að Bifreiðaeftirlitið eitt framkvæmi þessa skoðun á 4. og 8. ári hverrar bifreiðar og síðan, en að öðru leyti fari þessi skoðun fram annaðhvort hjá Bifreiðaeftirlitinu eða á löggiltu bifreiðaverkstæði. Minni hlutinn, forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins, taldi hins vegar rétt að halda í aðalatriðum núverandi kerfi um árlega skoðun á vegum Bifreiðaeftirlitsins. Jafnframt var hópurinn sammála um að leggja bæri aukna áherslu á skyndiskoðun bifreiða úti í umferðinni og í því sambandi þyrfti að huga að samvinnu bifreiðaeftirlitsmanna og lögreglu. Þá taldi hópurinn nauðsynlegt að komið yrði á fullkominni skoðunarstöð fyrir Bifreiðaeftirlitið í Reykjavík og sköpuð inniaðstaða á stærstu stöðum úti á landi.

2. Hópurinn taldi æskilegt að tekið yrði upp nýtt fyrirkomulag á skráningu bifreiða, tekið upp fast númerakerfi fyrir allt landið, en umskráningum vegna flutnings milli umdæma hætt svo og skoðun í tengslum við það. Jafnframt yrði breytt reglum um þinglýsingu.

3. Lagt var til að tekin yrðu upp til einföldunar svonefnd krossapróf í stað munnlegra prófa í fræðilegum hluta ökuprófs.

4. Breytt verði fyrirkomulagi á innheimtu skoðunargjalds og gjalds fyrir ökumannatryggingu.

Tillögur þær, sem starfshópurinn skilaði, hafa að sjálfsögðu verið til skoðunar í rn.

Eins og fram hefur komið varð starfshópurinn ekki sammála um breytingar á fyrirkomulagi bifreiðaskoðunarinnar, sem er einn veigamesti þáttur í tillögum hópsins og umsvifamest verkefna Bifreiðaeftirlitsins. Bifreiðaskoðunin er veigamikill þáttur í umferðaröryggi og erlendis, t. d. í Danmörku, þar sem árleg bifreiðaskoðun hefur ekki verið tíðkuð, er unnið að athugun á því, hvernig koma megi á tíðari skoðun. Er augljóst að hér má ekki rasa um ráð fram og stofna umferðaröryggi í hættu. Rn. hefur ekki treyst sér til að taka upp tillögur starfshópsins um breytt fyrirkomutag bifreiðaskoðunar. Hins vegar telur það koma til athugunar að fækka nokkuð skoðun nýrra og nýlegra bifreiða, þó ekki atvinnubifreiða, svo og skoðun bifreiða við umskráningu. Tillögur um þetta efni verða undirbúnar í samráði við umferðarlaganefnd, sem nú vinnur að heildarendurskoðun umferðarlaga og reglugerða samkv. þeim lögum.

Þá er þess að vænta, að lagðar verði fram að nýju í lagafrv. tillögur um einföldum bifreiðaskráningarkerfisins, byggðar á þeim hugmyndum sem áður hafa legið fyrir Alþingi en ekki hlutu náð fyrir augum þm., þ. e. um fast númerakerfi fyrir allt landið. Loks mun verða gerður reki að því að ljúka vinnu við endurskoðun reglna um bifreiðastjóraprófin með það í huga, að tekin verið þar upp svokölluð krossapróf til einföldunar.

Eins og áður segir vinnur umferðarlaganefnd að heildarendurskoðun umferðarlaga og reglugerða. Þótt einhver dráttur kunni að verða á því, að sú nefnd skili heildartillögum, mun ég leggja á það áherslu, að þessi atriði verði tekin til sérstakrar meðferðar nú á næstunni svo að nýmæli þau, sem kalla á lagabreytingar, geti komið til meðferðar yfirstandandi Alþingis eða komið til framkvæmda á þessum vetri.

Atriði þau, sem hér hafa verið nefnd, ættu að geta leitt til samdráttar í starfsemi Bifreiðaeftirlitsins án þess að umferðaröryggi verði stefnt í hættu. Hins vegar er að öðru leyti brýnt að bæta aðstöðu Bifreiðaeftirlitsins til skoðunar og koma upp skoðunaraðstöðu innanhúss, hvort sem einhverjum hluta bifreiðaskoðunar verður beint til bifreiðaverkstæða eða ekki.

Fyrir nokkrum árum var bætt verulega aðstaða Bifreiðaeftirlitsins í Reykjavík, að því er varðar skrifstofuþáttinn, er tekið var á leigu húsnæði fyrir Bifreiðaeftirlitið á Ártúnshöfða. Hefur þar fengist þokkaleg aðstaða og nýmæti tekin í notkun, svo sem að bifreiðaskráin hefur verið færð í tölvu. Eru nýjar upplýsingar nú færðar jafnóðum í tölvuna frá Bifreiðaeftirlitinu í Reykjavík. Hins vegar berast upplýsingar utan af landi enn bréflega og er skráin því ekki jafnan rétt að því leyti. Er nú unnið að því að tengja starfsstöðvar Bifreiðaeftirlitsins á Akureyri, í Hafnarfirði og Keflavík við tölvuna og verður þá unnt að færa í tölvuna allar breytingar sem framkvæmdar eru á þessum starfsstöðvum. Einnig mun borgarfógetaembættið í Reykjavík tengjast bifreiðaskránni nú á næstunni og einfaldast þá þinglýsing veðbanda og umskráningar. Með aðstoð tölvunnar skapast og sá möguleiki að skipuleggja skoðun, þ. e. að bifreiðaeigendur geti pantað sér tíma fyrir fram, og að fylgjast betur með því en áður hvort bifreið hefur verið færð til skoðunar. En þótt skrifstofuaðstaðan hafi batnað hjá Bifreiðaeftirlitinu hefur enn ekki tekist að bæta skoðunaraðstöðuna og fer hún enn fram utan dyra. Er mjög brýnt að úr þessu verði bætt hið fyrsta. sótt hefur verið um heimild fyrir viðbótarhúsnæði í þessu skyni og að stofnuninni verði veitt nægilegt fjármagn til að bæta starfsaðstöðuna.

Rétt er að hafa það í huga, að Bifreiðaeftirlitið er ekki baggi á ríkisrekstrinum, þar sem tekjur ríkisins vegna þeirra verka sem tengjast starfsemi Bifreiðaeftirlitsins, þ. e. skoðunargjöld, skráningargjöld og prófgjöld bifreiðastjóra, skila í ríkissjóð verulega hærri fjárhæð er nemur kostnaði við Bifreiðaeftirlitið, og hefur svo verið undanfarin ár.