04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4569 í B-deild Alþingistíðinda. (4337)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins segir svo: „Ríkisstj. skal gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins.“

Sú hefð hefur skapast, að forstjórar og embættismenn Framkvæmdastofnunar ríkisins taki saman ár hvert ítarlega skýrslu um störf stofnunarinnar á liðnu ári. Ársskýrsla fyrir árið 1981 hefur verið lögð fram og henni dreift meðal hv. þm. Þessi skýrsla er sú 10. í röðinni.

Efni skýrslunnar er auk almenns inngangs forstjóra skýrslur framkvæmdastjóra hinna þriggja deilda stofnunarinnar um störf deildanna á liðnu ári. Að auki er í skýrslunni að finna yfirlit yfir fjármögnun og lánveitingar fjárfestingarlánasjóða, reikninga stofnunarinnar, ýmsar tölulegar upplýsingar og að tökum yfirlit yfir lán og styrki Byggðasjóðs á liðnu ári.

Um starfsemi stofnunarinnar á síðasta ári vit ég vísa til ítarlegra skýrslna frá einstökum deildum hennar, til töfluviðauka og til lista um allar lánveitingar og styrki stofnunarinnar, en sú hefð hefur skapast að gera á þennan hátt grein fyrir öllum lánveitingum þessarar stofnunar.