04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4574 í B-deild Alþingistíðinda. (4339)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er rétt, að árlega er gefin skýrsla hér á hinu háa Alþingi um störf Framkvæmdastofnunar ríkisins. Í kjölfar hennar æfir hv. 9. þm. Reykv. sig á sömu ræðunni ár eftir ár og er farinn að kunna hana allsæmilega. Hann lætur svo sem, eins og hann segir, stjórn þessarar stofnunar ögri hæstv. ríkisstj. æ ofan í æ. Ég geri ráð fyrir að hann hafi lesið innganginn að skýrslu stofnunarinnar eins og hann birtist í nýútkominni skýrslu, en hann hefur kannske sleppt setningu sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Raunar hefur háværustu gagnrýninni verið haldið á lofti af þeim, sem sannanlega hafa aldrei kynnt sér starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins.“ Þetta á alveg sérstaklega við um hann. Og ég neita því ekki, að hann var mér í huga þegar ég skrifáði þessa setningu, enda kemur það í ljós þegar hlustað er á þessa ræðu hans. Og dálítið er merkilegt, eins og þeir eru nú elskir að krötum á Norðurlöndum og í Bretlandi, að þeir skuli ekki einu sinni hafa fyrir því að kynna sér stefnu þeirra flokka þar í þessum málum, sem leggja miklu stærra undir í byggðamálum en við Íslendingar.

Það fé, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur til ráðstöfunar, er ákveðið samkv. fjárlögum og lánsfjáráætlun hér á hinu háa Alþingi. Ekki ber þessi hv. þm. ábyrgð á þeim fjárveitingum, það er að vísu rétt. Ef eitthvað er umfram það sem þar er ákveðið, þá er það gert með sérstöku leyfi hæstv. ríkisstj. og ekki öðruvísi. Allt tal um að þessi stofnun fari til hliðar við þær reglur, sem gilda, er út í bláinn.

Hann heldur því fram, hv. 9. þm. Reykv., að þessi inngangur sé ósannindi, eins og hann orðaði það, lygi frá upphafi til enda. Hvað stóð í lögunum um Framkvæmdastofnun á sínum tíma, ákvæðið sem harðast var gagnrýnt af m.a. Magnúsi Jónssyni og þeim sem snerust gegn þessari stofnun? Það var þetta ákvæði, að stofnunin ætti að annast hagrannsóknir, áætlanagerð og hafa með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála í landinu. Þetta var það sem menn álitu að væri ný skömmtunarskrifstofa og fjárhagsráð. Ætlar einhver að halda því fram, að þessu hlutverki hafi stofnunin gegnt, að hún hafi haft með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála í landinu? Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi.

Ég vil hér og nú nota tækifærið til að bjóða þessum hv. þm. í sérstaka heimsókn, kynnisför til Framkvæmdastofnunarinnar. (Gripið fram í: Kom hann ekki 1. apríl?) Hann kom ekki 1. apríl, það var beðið eftir honum. En hann kom ekki. — Hann þarf að kynna sér grundvallaratriðin í starfsemi þessarar stofnunar. Hann hefði líka getað fengið upplýsingar um málið hjá hv. 3. þm. Vestf. Hann gegndi um hríð formannsstöðu í þessari stofnun,

og sá hv. þm. hlýtur að geta borið vitni um það, hvort hv. 9. þm. Reykv. hafi komið á framfæri við hann tillögum sínum um gagngerar breytingar á störfum stofnunarinnar. En hafi svo verið, þá hefur a.m.k. þáv. formaður, hv. 3. þm. Vestf., ekki haldið á þeim alla leið inn á Rauðarárstíg.

Hv. þm. gagnrýnir hér ávöxtunarkjör Byggðasjóðs. Þetta hefur stórbreyst til batnaðar. Þetta veit hann ekkert um af því að hann hefur aldrei fyrir því að kynna sér eitt né neitt í störfum þessarar stofnunar, af því að hann vill ekki vita betur, af því að hann vill geta haldið þessa utangarnaræðu hér ár eftir ár, af því að það eru einhverjir hér innan Hringbrautar sem nenna að hlusta á þetta. Ávöxtunarkjör byggðasjóðsfjár nálgast víxilvexti. Lagt var að vísu til að þeir yrðu jafnháir, en það náði ekki fram að ganga. Hver voru ávöxtunarkjörin á sinni tíð, þegar ýtt var úr vör með þessa stofnun? Það getur hæstv. fjmrh. borið vitni um nú, hann var formaður stofnunarinnar þá. Og þá áttu Magnús Jónsson frá Mel og Matthías Bjarnason sæti í stjórninni, þeir sem gagnrýndu þessa stofnun. Þeir réðu því auðvitað ekki, Matthías Bjarnason og Magnús Jónsson, að ákveðin voru 6% lánakjör þá. Þeir voru horfnir — annar þeirra, Magnús frá Mel, fyrir löngu — úr stjórninni þegar togið hófst um að ná upp ávöxtunarkjörunum. Fyrir þremur árum var stofnuð verðtryggingardeild sem æ fleiri þættir útlánanna úr þessari stofnun hverfa inn á.

Ég skil ekkert í því, að hv. 9. þm. Reykv. skuli ekki ná hlustum hv. 3. landsk., þm. Karls Steinars hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, til þess að spyrja hann og leita upplýsinga um þetta. Þetta mundi hv. þm. gera ef hann kærði sig um að vita betur. En það mundi auðvitað slokkna á honum, og maður mundi sjá eftir því ef hann fengi allar réttar upplýsingar. Hann var kominn í þær stellingar hérna að halda uppi vörnum fyrir „kommissarakerfið“ og taldi það illskárra en þetta, sem við tók, og talar um æviráðna menn í 12 mánuði æ ofan í æ. (Forseti: Það hefur verið óskað eftir þingflokksfundum núna korter yfir fjögur þannig að ég þyrfti að biðja ræðumann að gera hlé á ræðu sinni, ef hann er ekki rétt að ljúka henni.) Ég skal ljúka þessu, en á auðvitað eftir að drepa á mörg atriði. — [Fundarhlé.].