04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4575 í B-deild Alþingistíðinda. (4340)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það kom fram í umr. í dag um Framkvæmdastofnun ríkisins, að þetta væri hið mesta vandræðabarn og mikil spilling hefði þrifist innan veggja þeirrar stofnunar. Sá sem talaði er gamalreyndur siðvæðingarmaður þó ungur sé að árum. Hins vegar hefur hann látið lítið til sín heyra í vetur þangað til nú undir lok þingsins að hann gefur nú aftur siðvæðingaráhuga sínum lausan tauminn.

Þessi hv. þm. talaði mikið um umr. þegar frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins var flutt og varð að lögum, og hann taldi að forstjóri stofnunarinnar hefði í inngangi að ársskýrslu Framkvæmdastofnunar sérstaklega ráðist að einum fyrrv. þm. og forustumanni Sjálfstfl., Magnúsi Jónssyni frá Mel. Ég efast ekki um að hv. þm.-það er 9. þm. Reykv. sem ég á hér við, hafi að vísu verið kominn úr stuttbuxunum þá því að hann var liðlega fermdur og vel það að árum, en hins vegar tæplega þroska.

Þessi hv. þm. gat þess ekki í leiðinni, að það voru fleiri sem gagnrýndu þetta frv. og þessi áform þeirrar ríkisstj. sem þá sat. Ég var einn þeirra og tók ekkert minna upp í mig þá en Magnús Jónsson, svo að Sverrir Hermannsson hefur þá verið einnig í leiðinni að ráðast að mér ef hann hefur verið að ráðast að Magnúsi Jónssyni. En fyrir þá, sem voru þá ungir og lítt farnir að fylgjast með stjórnmálum, er best að rifja upp atriði í málefnasamningi þeirrar ríkisstj. sem beitti sér fyrir stofnun Framkvæmdastofnunar ríkisins, en þar segir:

Ríkisstj. einsetur sér að efla undirstöðuatvinnuvegina á grundvelli áætlunargerðar undir forustu ríkisvaldsins. Koma skal á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hafi á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum. Stofnunin skal gera áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma, þar sem greindar eru þær fjárfestingarframkvæmdir, sem forgang skulu hafa. Stofnunin fari með stjórn Framkvæmdasjóðs ríkisins og annarra þeirra fjárfestingarsjóða sem eðlilegt verður talið að falli undir hana. Stofnunin skal hafa náið samstarf við aðila atvinnulífsins um það, hvað unnt sé að geta til að búa í haginn fyrir hverja atvinnugrein í því skyni að lækka rekstrarkostnað og gera m.a. mögulegt að bæta kjör starfsmanna án þess að hækkun verðlags fylgi.

Þær stofnanir og nefndir, sem fyrir eru og gegna skyldum verkefnum og þessi nýja stofnun, verði sameinaðar henni eftir því sem ástæða þykir til.

Í tengslum við Framkvæmdastofnun ríkisins skal starfa sjóður undir sérstakri stjórn sem veitir fjárstuðning til þess að treysta sem best eðlilega þróun í byggð landsins.

Tekjur Atvinnujöfnunarsjóðs gangi til þessa sjóðs og aðrar tekjur eftir því sem ákveðið verður síðar.“

Þessi stefnuskráryfirlýsing þeirrar ríkisstj. boðaði það, að með stofnun Framkvæmdastofnunar ríkisins ætti að koma á einu allsherjarfjárfestingarráði, — ráði sem átti að hafa með höndum alla stjórn fjárfestingarmála og vera í raun og veru allsráðandi í efnahagslífi þjóðarinnar. Þegar frv. var lagt fram um Framkvæmdastofnun ríkisins af þessari sömu ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sem mynduð var 14. júlí 1971, þá kemur þar fram að þrjár stofnanir, sem áður störfuðu sjálfstætt, eru sameinaðar undir eina stjórn. Þar eru sameinaðir Framkvæmdasjóður Íslands, en Framkvæmdabanki Íslands var forveri þess sjóðs, Atvinnujöfnunarsjóður og hagrannsóknadeild. Þessar stofnanir eru sameinaðar undir eina stjórn. Við sjálfstæðismenn höfðum ekki á móti því, að það ætti að setja á eina heildarstjórn og yfirstjórn allra fjárfestingarmála. Þetta gagnrýndum við mjög harðlega á sínum tíma.

Við gagnrýndum einnig að hagrannsóknadeild yrði sett undir þingkjörna stjórn sem hefði þar með áhrif á hana að meira eða minna leyti. Við töldum að þessi stofnun ætti að vera frjáls og óháð, en heyra undir ríkisstj. eða forsrh., en allir stjórnmálaflokkar og þingflokkar ættu að eiga greiðan aðgang að þessari stofnun. Við gagnrýndum einnig að settir væru yfir stofnunina þrír „kommissarar“ eða þrír framkvæmdastjórar sem voru pólitískir varðmenn ríkisstj. á þeim tíma. Við gagnrýndum einnig að þetta framkvæmdaráð eða þessi framkvæmdastjórn undirbjó öll mál, hún gerði sínar tillögur án þess að hafa neitt samráð við aðra í stjórninni. Ég get getið þess hér, af því að ég er sá eini sem hefur átt sæti í þessari stjórn frá byrjun þó að ég hafi ekki starfað þar í fjögur ár, þau ár sem ég gegndi ráðherraembætti, að það var ólíku saman að jafna að vinna undir stjórn þriggja framkvæmdastjóra eða framkvæmdastjórnar sem lagði ött mál fyrir stjórnina með þeim hætti sem síðar varð og ég kem að því nánar.

Það leið ekki nema rúmt ár þar til þáv. ríkisstj. eða þáv. forsrh. Ólafur Jóhannesson hvarf frá því að hafa hagrannsóknadeildina undir Framkvæmdastofnun ríkisins. Þar með kom hann til móts við skoðun okkar sjálfstæðismanna og var þá flutt frv. um Þjóðhagsstofnun, sem er sjálfstæð stofnun. Þar með var byrjað að veikja Framkvæmdastofnunina eða minnka áhrifavald hennar.

Hinu er svo ekki að leyna, að þessi heildarstjórn fjárfestingarmála varð að engu í raun. Ótti okkar við hana var ástæðulaus þegar kom til framkvæmda vegna þess að ráðherrar í þeirri ríkisstj. vildu ekki standa að því að koma á slíku fjárfestingarbákni. Ég skal t.d. setja það hér, að ráðherrar Alþb. í ríkisstj. 1971 vildu ekki þetta bákn. Það var þá helst að Framsfl. vildi standa að því, og þess vegna fór sem fór, að þetta varð aldrei það fjárfestingareftirlit sem höfundar þessa máls ætluðu sér í upphafi. Þess vegna varð þessi ótti ekki að veruleika. Síðan hefur þessi stofnun starfað, og hún er eina lánastofnunin af meiri háttar lánastofnunum sem árlega skilar til Alþingis ársskýrslu um hvert einasta útlán.

Þá komum við að því sem siðvæðingarpostulinn sagði áðan, að þessi stofnun er undir stjórn 7 alþm. og þar eiga sæti fulltrúar allra þingflokka. Við erum ekki alltaf á eitt sáttir í sambandi við hverja einustu afgreiðslu mála sem ekki er von. En við erum a.m.k. í 90 tilfettum af 100 í fyllsta mála sáttir um afgreiðslu mála. Innan þessarar stofnunar hefur ríkt ákaflega gott andrúmsloft á milli stjórnarmanna.

Okkur er ljóst að ríkisstj. á hverjum tíma á töluvert innhlaup í slíka stofnun, og þó að við sem eigum þarna sæti, séum ýmist með eða móti ríkisstj., þá tökum við tillit eins og frekast er hægt til óska ríkisstj. á hverjum tíma til þess að taka fyrir ákveðin mál og reyna að leysa úr þeim. Við reynum eðlilega eins og við getum að gæta þess, að ekki sé gengið nærri stofnuninni sjálfri þannig að hún bíði skaða af.

Út af því, sem hv. þm. sagði varðandi vaxtamál þessarar stofnunar, þá var samþykkt á árinu 1981 eða nánar sagt 12. maí að hækka vexti af lánum Byggðasjóðs úr 22% í 28%. Forstjóri stofnunarinnar hafði lagt til fyrir áramót að hækka þessa vexti í 32%. Ég hafði tekið upp till. þar sem málamiðlun, að vaxtahækkun færi í 30%, til þess að reyna að ná samkomulagi, en þá kom ríkisstj. inn í spilið og vildi ekki að vextir yrðu hækkaðir því að það væri í ósamræmi við vaxtastefnu ríkisstj. að hækka vexti. Og það leið og beið fram á þennan tíma, að þessi ákvörðun var tekin. Ég frábið mér því gagnrýni hv. þm. hvað þetta snertir. En hinu er ég á, að vextir Byggðasjóðs séu enn of lágir miðað við vexti í þjóðfélaginu almennt. Og ég vil minna á það, að vextir af lánum Byggðasjóðs þau 10 ár, sem hann hefur starfað undir núv. heiti, hafa verið þessir: Árið 1972 til 1. ágúst 1974 aðeins 6%, þá voru þeir hækkaðir í 8%, 1. ágúst 1975 í 10%, 1. ágúst 1976 í 12%,1. ágúst 1977 í 14% og 1. ágúst 1979 í 22%, eins og ég sagði áðan. Vaxtabreytingar þessar, sem gerðar hafa verið, ná jafnframt til eldri lána sjóðsins. Á árinu 1980 samþykkti stjórn stofnunarinnar að taka upp flokk verðtryggðra lána í Byggðasjóði og skyldu lán í þessum flokki bera 2% ársvexti og vera bundin lánskjaravísitölu. Nokkur lán voru veitt með þessum kjörum á árinu 1981 og af einstökum flokkum lána, sem veitast munu með þessum kjörum á árinu 1981 og af einstökum flokkum lána, sem veitast munu með þessum kjörum, má nefna lán til gatnagerðar í þéttbýli og lán til kaupa á notuðum fiskiskipum.

Þá held ég að líka sé rétt að geta þess, að lán til smíði fiskiskipa eru að hálfu gengistryggð og bera nú 11% vexti miðað við að lánin séu bundin gengi vestur-þýska marksins. Um Framkvæmdasjóð gegnir öðru máli. Þar fylgja vextir yfirleitt lánskjaravísitölu að fullu og öllu svo að það fjármagn, sem fer í gegnum Byggðasjóðinn, verður sífellt minna og minna sem er lánað með þessum kjörum.

Ég kann því mjög illa þegar hv. þm. segir að þeir, sem sitji í stjórn þessarar stofnunar, séu að lána vinum sínum með slíkum kjörum sem þessum. Hér er verið í þingsölum að bera okkur, sem sitjum í þessari stofnun, á brýn að við séum hlutdrægir og við brjótum allar velsæmisreglur í þjóðfélaginu. Ég skora á þennan hv. þm. að koma hér fram og spyrja og segja Alþingi frá því, hvaða vildarvinir stjórnarmanna hafa fengið lán fyrir vináttusakir. Ég tel að áburður sem þessi sé ekki viðeigandi frá hendi alþm. og ef þessi hv. þm. á einhverja sæmilega sómatilfinningu á hann að biðjast afsökunar á slíkum kjaftavaðli eins og kom fram í hans máli í dag.

Hann talaði mikið um að „kommissarar“ væru æviráðnir með 12 mánaða uppsagnarfresti. Þetta er nú atriði sem ég skil ekki, æviráðning með 12 mánaða uppsagnarfresti. Það væri nákvæmlega sama og segja, að ráðherrar væru með æviráðningu með 6 mánaða uppsagnarfresti, því að ráðh. fá raun í 6 mánuði eftir að þeir láti af störfum. Það á þá að heita æviráðning á máli þessa siðvæðingarpostula.

Um það má deila eflaust hvort þm. eigi að vera forstjórar eða framkvæmdastjórar í slíkri stofnun sem þessari. Þessi hv. þm. hefur fullt leyfi til að hafa sínar skoðanir á því eins og við aðrir. En um hitt held ég að sé alveg ástæðulaust að deila, að þm. eru fyllilega gjaldgengir í stjórn þessarar stofnunar, alveg eins og þeir eru víða í öðrum stjórnum í bankakerfi. Það eru þm. í bankaráðum allra ríkisbankanna. Því geta ekki verið þm. í stjórn þessarar stofnunar? Þar sér hver um annan. Ef einhver einn þm. eða fleiri, fulltrúar eins flokks eða fleiri, ætla að vera eitthvað djarfir í lánveitingum, þá er þó aðhald frá hinum. Árásir þessa hv. þm. á stjórn þessarar stofnunar falla því um sjálfar sig.

Ég tel að samkv. hlutverki þessarar stofnunar eigi hún að reyna eftir fremsta megni að koma til móts við þá staði, þar sem erfiðleikar eru í sambandi við atvinnulíf. Hún á einnig að gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði. Eitt af því virðingarverðasta; sem þessi stofnun hefur gert nú á seinni árum og allra síðustu árum, er frumkvæði hennar að láni til vegagerðar. Þessi stofnun lánaði á s.l. ári til vegagerðar 14.5 millj. kr. Það er sundurliðað á bls. 110 í skýrslunni. Það eru sennilega lán til sérstakra vinstristjórnarmanna. Það er bundið slitlag á Vesturlandsveg, það eru vinirnir þar, Akranesveg, Laxárdalsveg um Búðardal, Vestfjarðaveg, Djúpveg, Hólmavíkurveg, Norðurlandsveg, Sauðárkróksveg, Ólafsfjarðarveg, Norðausturveg, Eyjafjarðarbraut, Austurlandsveg, Norðfjarðarveg, Hafnarveg, Suðurlandsveg, Gaulverjabæjarveg, Eyrarbakkaveg, Þorlákshafnarveg, Þrengslaveg, Þingvallagöng við Rauðavatn. Þetta eru nú vinir okkar í stofnuninni, sem við höfum verið að lána til. Það eru m.ö.o. eru lán til vega í öllum kjördæmum landsins og líka hérna í þéttbýlissvæðinu, m.a. göng við Rauðavatn sem sagt er að séu aðallega til að byrja með fyrir hestamenn eða nokkurs konar reiðgöng. Einnig var lánað til malarvega, t.d. Snæfellsnesvegar um Grundarfjörð, vegar norðar Bjarnarfjarðar í Strandasýslu, m.ö.o. í Arneshreppi á Ströndum sem er nyrsta byggð á landinu. Það hefur verið lánað í Laxárdalsveg í Skagafjarðarsýslu, hafísveg í Norður-Þingeyjarsýslu, hafísveg í Norður-Múlasýslu, Jökuldalsveg í sömu sýslu, Borgarjörð eystra og svo Bláfjallahringinn sem er aðallega fyrir fólk í kjördæmi hv. þm. Þetta er nú þessi vonda stofnun. Hún hefur í auknum mæli verið að fara yfir á samgöngumálaþáttinn.

Hver er að tala um það, að þessi stofnun sé að taka völd af Alþingi? Ef það leifði af í fjárveitingum Alþingis til vegamála eða annarra samgöngumála, þá mætti kannske tala um að hér væri bruðl. Og hv. þm. breiddi sig út yfir það, að þessi stofnun bauð 3 millj. kr. til vegagerðar við Ölfusá, við Óseyrarnes. Þar er vandi fjárveitingavalds og ríkisstj. að þiggja eða hafna. Hverjir gerðu þetta? Jú, það var reynt að láta liggja að því, að það væri hv. 6. þm. Suðurl., formaður stjórnarinnar. En það voru fleiri sem greiddu þessari till. atkv. Það voru einnig Þórarinn Sigurjónsson, Steinþór Gestsson, Matthías Bjarnason og Karl Steinar Guðnason, og hann er nú í Alþfl., úr fjöldahreyfingunni sem hv. þm. hefur kallað þá flokksbræður sína. Hann greiddi atkv. með þessu. Ég trúi því ekki, að hv. þm. sé að væna þann ágæta mann um að hann sé að hygla vinum sínum með því. Þetta er fyrst og fremst viðurkenning á þörf á þessum samgöngubótum, og það eru þá til menn í þessari stofnun sem sjá út fyrir kjördæmi sitt og sjá að það eru þarfir víðar en í því. Við getum aldrei náð neinum árangri í baráttu fyrir okkar kjördæmi ef við ætlum aldrei að líta á vandamál annarra, og ég tel, að það sé ekkert athugavert við þetta. Þó að reynt hafi verið að þyrla upp moldviðri í blöðum út af þessum 3 millj., þá þori ég óhikað að standa uppréttur eftir sem áður þó að þessi ákvörðun hafi verið tekin. Þetta er til þess að flýta fyrir, en þetta dugir skammt í sambandi við þá framkvæmd sem hér er um að ræða. Í langtímaáætlun um vegagerð, sem á að taka yfir 12 ár, er ætlað nokkurt fjármagn til þessara framkvæmda, og það er vafalaust mikill hugur í þm. þessa kjördæmis að ljúka sem allra fyrst þessari framkvæmd sem fleirum.

En ef við hverfum aftur aðeins frá vegamálunum, þá skulum við einnig líta á, hvert þetta fjármagn fari sem Framkvæmdastofnun eða Byggðasjóður er aðallega að lána? Langstærsti hlutinn af þessu fjármagni fer til að smíða fiskaskip. Tiltölulega lítið fer til fiskvinnslustöðva. Það mun láta nærri að um 3/4 af heildarráðstöfunarfé þessa sjóðs fari til sjávarútvegsins að kallað er. En nú vil ég vekja athygli á því, að sjávarútvegurinn óskar ekki eftir þessu fjármagni öllu. Samtök útgerðarinnar hafa varað við að auka fiskiskipaflotann, svo það má segja að í reynd sé hér röng skýrsla um skiptingu á lánsfé, því segja má að þetta sé miklu frekar iðnaðarverkefni og þá til þeirra staða þar sem skipin eru smíðuð. Þarna er fjármagninu varið fyrst og fremst til þess að halda gangandi skipasmíði, aðallega á þremur stöðum á landinu: Akureyri, Akranesi og hér í Garðabæ, auk nokkurra smærri stöðva. Segja má að langstærsti hluti þessa fjármagns fari í þetta verkefni. Og þá spyrjum við: Er það álit 9. þm. Reykv., að hér eigi að stöðva algerlega þannig að þessum stöðvum verði lokað og þessu fólki verði sagt upp? Það er margt fólk, sem á heima hér í Reykjavík, sem vinnur við þessa starfsemi. Stórkostlegt atvinnuvandamál mundi skapast ef þetta væri stöðvað.

Ég tel því að óhætt sé að segja að þessi stofnun hafi unnið mjög mikilvægt og gott starf. Þessi stofnun hefur varið verulegu fjármagni til jaðarbyggða, til uppbyggingar í jaðarbyggðum, á Norðurlandi og víðar, og þar væri ástandið annað í dag, þó að það sé engan veginn gott, ef þessi stofnun hefði ekki komið þar til hjálpar. Hún hefur sinnt hlutverki sínu, starfað samkv. þeim lögum sem Alþingi hefur sett henni. Og það er undarlegt með suma menn, að ef flokksbræður þeirra eru í forustu er allt í lagi, þá er aldrei sagt orð. Ég heyrði aldrei neitt sagt meðan núv. hæstv. fjmrh. var formaður. En formaður þingflokks Alþb. var svo hrifinn af ræðu Vilmundar Gylfasonar í dag að ég hef ekki séð hann ljóma annað eins, ekki hér á landi.

Formaður þingflokks Alþfl. var stjórnarformaður í Framkvæmdastofnuninni. Þá heyrðist hvorki stuna né hósti frá siðvæðingarpostula Alþfl. eða nokkrum manni úr fjöldahreyfingunni. Þá var þetta allt í lagi. En þegar komið er að því að þeirra flokkur á ekki formann eða forstjóra, þá er farið að hamast, og það er ekki fyrr en þau skipti urðu sem þm. hefur flutt sömu ræðuna nú þrjú ár í röð. Við á Vestfjörðum höfum ekki farið varhluta af fyrirgreiðslu þessarar stofnunar frekar en önnur kjördæmi þó að alltaf sé verið að tala um annað. Mér skildist á þm. að hann væri að brýna ríkisstj. á því að reka nú forstjórann, manna sig upp í að reka forstjórann því að hann væri andstæðingur ríkisstj., nú ætti að reka hann, nú ætti að nota tækifærið. Ef þessi hv. þm. telur eitthvað þarna að, eitthvað verulega að, þá á hann að vinna að því með lagabreytingu. Formaður þingflokks Alþb. er búinn að vera í marga mánuði í nefnd við að endurskoða lög um þessa stofnun. Mér finnst að hann þurfi ekkert að skýla sér á bak við Vilmund litla í því. Hann hlýtur að geta haft einhverjar sjálfstæðar skoðanir sjálfur á málinu, að hann þurfi ekki að segja bara: Bravó Vilmundur, þetta er gott hjá þér. — Loksins kunnu þeir að meta hvor annan. Það var ekki vonum fyrr. Þeir hafa gert það líka í Tyrklandsmálum. Það er Hundtyrkinn og niðurrifsstefnan gagnvart íslensku atvinnulífi sem færir þessa tvo dánumenn saman, þá sjaldan þeir hittast. (Gripið fram í: þetta er nú ekki góð sagnfræði.) Nei, ég er ekki sagnfræðingur, Eiður Guðnason. En hins vegar var léleg sagnfræði sagnfræðingsins hér í dag.

Hvernig ætli ástandið væri í sambandi við atvinnurekstur víða um landið ef hér hefði ekki verið komið til móts við í þessum efnum? Ríkisstj. hefur falíð þessari stofnun tiltekin verkefni sem hún á að vinna að, eins og úthlutun á svokölluðum kreppulánum til sjávarútvegsins á s.l. ári. Það voru almennir erfiðleikar sem áttu sér stað. Ríkisstj. óskaði eftir að þessi stofnun færi með þessi mál, og það hefur auðvitað komið á daginn að stórkostlegt fjármagn vantar til þess að geta innt það verk sæmilega af hendi.

Ég ætla ekki í önnum þings og lok þingsins að hafa þessi orð miklu fleiri, en vildi aðeins minna á það, um hvað var deilt í byrjun í sambandi við þessa stofnun og hvaða breytingar urðu. Hins vegar er ég mjög opinn fyrir ýmsum breytingum, sem nauðsynlegt er að gera þarna, því að þessi stofnun er ekki fullkomin frekar en aðrar og það þarf margt að gera til þess að gera þessa stofnun betri en hún er. Það þarf víða að bæta aðstæður í þjóðfélaginu. En ég gat ekki látið ómótmælt þegar ráðist er með þessum hætti, eins og þessi hv. þm. gerði í dag, á þessa stofnun, með þeim svigurmælum, að menn notuðu aðstöðu sína til þess að hygla vinum sínum.