04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4587 í B-deild Alþingistíðinda. (4343)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 877, sem við hv. 3. þm. Vestf. flytjum. Það er brtt við brtt. atvmn. á þskj. 845.

Umræðan um orkumálin í dag fjallar um það stefnumið, að gert verði nú stórátak til hagnýtingar orkulinda landsins. Allir stjórnmálaflokkar landsins virðast sammála um mikilvægi þessa. Till. ríkisstj. til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu á þskj. 176, sem hér er á dagskrá, tekur mið af þessari stefnu. Till. gerir ráð fyrir tvöföldun á uppsettu afli í vatnsvirkjunum landsins . Til þess að slíkar fyrirætlanir verði meira en orðin tóm þarf að viðhafa vinnubrögð og fullnægja skilyrðum svo að framkvæmdir geti orðið að raunveruleika. Brtt. mín og hv. 3. þm. Vestf. fjallar um þetta efni. Till. okkar er ekki um að virkjanaröð verði breytt, heldur um að gefa till. ríkisstj. um þessi efni raunhæft gildi.

Brtt. á þskj. 877 gerir ráð fyrir að það markmið verði sett, að virkjanaframkvæmdum þeim, sem hér um ræðir, verði lokið á einum áratug. Til þess að svo megi verða þarf sannarlega að taka til hendi. Þess vegna er tekið fram í brtt. okkar að undirbúningi að byggingu orkuveranna svo og framkvæmdum öllum skuli hraðað sem kostur er. Skipuleg og markviss vinnubrögð þarf að viðhafa til þess að framkvæmdum verði lokið á áætlunartímanum. Þess vegna er mælt fyrir um heildaráætlun um byggingu allra virkjananna.

Þetta stórátak í virkjunarmálunum hefur enga stoð í veruleikanum nema séð sé fyrir orkunýtingunni. Við virkjum ekki nema þörf sé fyrir orkuna. Þess vegna mælir brtt. okkar svo fyrir, að ríkisstj. skuli gera ráðstafanir til þess að komið verði í fót stóriðju til nýtingar þeirrar orku sem unnin verður í orkuverunum umfram þörf hins almenna markaðar. Aðgerðum þessum skal hraðað svo sem verða má og þess gætt, að fullt samræmi verði á milli markaðsöflunar fyrir orku og virkjunarframkvæmda. Þetta þýðir að ekki verði ráðist í virkjanir nema séð sé fyrir orkunýtingunni.

Herra forseti. Brtt. sú, sem ég hef nú lýst, felur í sér almenna stefnumörkun um stórátak til hagnýtingar orkulinda landsins. Það eru ýmis deiluatriði í framkvæmd þessara mála, svo sem um virkjanir, stærð þeirra og röðun. Menn deila um stóriðju, staðsetningu hennar og eignaraðild. Brtt. fjallar ekki um þetta. Hún á ekki að fjatla um nein ágreiningsmál, ef mönnum er alvara með það sem þeim leikur á tungu um hagnýtingu orkulinda landsins til að bæta lífskjör og atvinnuöryggi landsmanna. Hún fjatlar um hröð handtök jafnframt aðgát. Brtt. leggur áherslu á stórhuga og djarfa framfarasókn jafnframt því að þjóðin sjái fótum sínum forráð á þeirri vegferð.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt, vænti ég þess, að allir hv. þm. geti sameinast um að greiða brtt. atkv. Það væri vottur þeirrar þjóðareiningar sem er nauðsynleg slíku Grettistaki sem hér um ræðir.