04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4592 í B-deild Alþingistíðinda. (4349)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Frsm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég er að vísu dálítið undrandi á því, hversu ókvæða hv. stjórnarsinnar verða við þó að maður segi nokkur orð — sem sjaldan gerist að vísu eins og hæstv. iðnrh. tök fram — í fullri meiningu við hv. stjórnarliða. Að vera svona typpilsinna er með ólíkindum. Ég sagði hæstv. forsrh. frá því, að ég mundi veitast að ríkisstj. og gagnrýna ýmislegt í störfum hennar vegna þessa máls. Hann hló við og taldi ekki ástæðu vera til að ætla að það yrði tekið sem skoðanir stjórnarliða í atvmn. Svo koma þeir hér upp hver á fætur öðrum og sverja af sér að þeir beri ábyrgð á orðum mínum, þeim sem ég mælti í fullri meiningu til hæstv. ríkisstj. Ég vil rifja upp, að í sveitinni minni fyrir vestan var einu sinni maður sem tók að sverja af sér barn sem honum hafði ekki verið kennt. Þetta þótti grunsamlegt, enda sannaðist barnsfaðernið á hann síðar.

Ég vil nú upplýsa, að atvmn. hefur orðið sammála um að undirrita bókun þá sem ég las upp í framsöguræðu minni og sex hafa skrifað undir í fundargerðabók. Hinn sjöundi talaði áðan, hv. 5. þm. Suðurl., og lýsti yfir að hann væri ekki andvígur þessari bókun, en flokkur hans teldi að þar væri ekki orðalag sem hann gæti að fullu sætt sig við. Ég vil þó minna á að þær aths., sem Alþfl. hafði við þetta að gera, voru fólgnar í því, að hann vildi leggja meiri áherslu á mat Landsvirkjunar, virkjunaraðila hverju sinni, sem ég og tók upp í mína framsögu og tók skýrlega fram að nefndin sætti sig við. Og þannig hljóðar þá þessi bókun:

„Eins og nú standa sakir er nægjanlegt að vatnsmiðlun Blönduvirkjunar nemi 220 gígalítrum. Verði þörf fyrir aukna vatnsmiðlun í 400 gígalítra síðar skal Alþingi úrskurða í málinu, ef ekki næst fullt samkomulag við hagsmunaaðila. Eðlilegt virðist að fela Landsvirkjun að meta þörfina fyrir hina auknu vatnsmiðlun, en lagt er til að samið verði við Landsvirkjun um framkvæmdir.

Atvmn. leggur áherslu á að öll stíflumannvirki verði byggð með sem mesta hagkvæmni fyrir augum, þegar allra þátta virkjunarframkvæmda er gætt. Skal frá upphafi búa í haginn fyrir aukið miðlunarrými í 400 gígalítra, ef nauðsyn krefur aukinnar vatnsmiðlunar að mati virkjunaraðila. Er einnig eðlilegt að fela virkjunaraðila, Landsvirkjun, að ráða mannvirkjagerð miðað við framangreindar forsendur.“

Þannig hljóðar þetta, nákvæmlega eins og það hafði áður verið lesið upp. En ég vil gefa þá skýringu á fyrri atburðum í þessu sambandi, að fyrir lá í nefndinni þegar við slitum fundi um hádegisbil að nm. allir mundu undirrita ef enginn gengi úr skaftinu. Tekið var fram að ef þeir, sem áður höfðu bókað, og þeir, sem tilkynnt höfðu bókanir, drægju þær ekki til baka mundi ekki verða samkomulag. Því var það, að þegar ég fékk tilkynningu um það rétt áður en ég gekk í þennan ræðustól, korter fyrir fjögur, að Alþfl. mundi ekki geta fellt sig við að hv. 5. þm. Suðurl. drægi bókun sína til baka, þá taldi ég að útilokað væri þaðan í frá að ná um þetta allsherjarsamkomulagi. Þetta hefur samt sem áður tekist.

Ég vil svo að endingu, vegna þess að ég ætla ekki að eiga fleiri orð hér um, þakka samnm. mínum sérstaklega vel fyrir samvinnulipurð og fyrir skilning þeirra á mikilvægi þess að ná saman höndum um þetta mál.

Það er dálítið einkennileg uppákoma orðin í Húnaþingi, þar sem menn hugsa bara og tala nú orðið um vatn. Hvað ætti Björn gamli Eysteinsson hefði sagt um það á sinni tíð? Ætli honum hefði ekki þótt ættlerasvipur á þeim afkomendum sem þannig haga sér nú í dag? Þessu þarf auðvitað að breyta og því vill atvmn. leggja lið.