04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4594 í B-deild Alþingistíðinda. (4350)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel að atvmn. hafi borið gæfu til að hafa samstöðu í þessu máli, þó að utanaðkomandi aðilar hafi spillt fyrir undir það síðasta þannig að allir skrifuðu ekki undir sameiginlega bókun.

Það hefur nokkuð komið til umr. hér, að frsm. væri ekki stjórnarsinni. Reglan er sú, að við stjórnarsinnar þurfum að berjast fyrir því að koma málum áfram og gengur misvel. Stundum gerist það, að ríkisstj. ber fram svo góð mál að það verður nánast samkeppni um að mega mæla fyrir þeim og stjórnarandstæðingar gerast mjög fúsir til að vera fylgjendur málsins. Ég tel fráleitt að afþakka slíkan stuðning þegar hann gefst, og væri nánast hlægilegt ef við höfnuðum því að fá meiri breidd í mál sem við fáum náttúrlega með því móti að þiggja þann stuðning. Ég geri ekkert úr því þó að nokkurt málskrúð hafi verið í ræðu frsm. Það er sjálfsögðu góðra gjalda vert að menn tali hér á nokkuð krassandi íslensku, og honum er það lagið og ástæðulaust að nokkur láti sér bregða.

Annað atriði vildi ég aftur á móti gera hér að umræðuefni og tel að þar hafi þm. hlaupið á sig. Það var samstaða um að afgreiða úr atvmn. till. iðnaðarstefnu og búið að leggja mikla vinnu í það mál. Ég tel að með þeirri samstöðu og afgreiðslu þingsins á því máli hafi verið ástæðulaust hjá tveimur hv. þm., hv. 3. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Vestf., að fara að flytja hér brtt. við þá till. sem hér liggur fyrir. Ég vænti þess, að þeir hugsi sig um, hvort þeir telji það sjálfum sér og málinu til framdráttar að ætla að fara að ýfa upp orðalag um iðnaðarmál sem áður hafði náðst mjög góð samstaða um. E. t. v. er hluti af þessu vandamáli það sama og var hér rætt í gærkvöld, að það er misjafnt hvað menn hafa verið hér í sölum þingsins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en þakka samnm. mínum fyrir samveruna í þessari nefnd í vetur.