10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

323. mál, ellilífeyrir sjómanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það er mjög brýnt að bæta flugsamgöngur við Vestfirði. Enginn landshluti er meira einangraður að öðru leyti frá öðrum hluta landsins en Vestfirðir, t. d. hvað varðar vetrarsamgöngur á landi, og í raun og veru er einnig flugið stopult vegna aðstæðna þar, eins og fjölmargir hér inni þekkja. Þess vegna hefur jafnt og þétt verið unnið að því að bæta þessar flugsamgöngur.

Ég skipaði nefnd í samgöngumál Vestfjarða 25. sept. 1980 að ósk Fjórðungssambands Vestfirðinga og fól þeirri nefnd m. a. að taka umrædda þáltill. til meðferðar. Nefndin hefur ekki lokið störfum, en hins vegar hefur hún rætt einmitt þessi mál töluvert. Án þess að ég geti nú skýrt frá niðurstöðum nefndarinnar að þessu leyti vil ég þó upplýsa að svo virðist sem nefndin sé sammála um að leggja til að Þingeyrarflugvöllur verði varaflugvöllur fyrir F-27 flugvélar, en flugvöllurinn á Holti verði lengdur úr 800 metrum í 1000 metra og nýttur þá sem varaflugvöllur fyrir minni flugvélar. Hins vegar er á það bent, og er reyndar óþarfi fyrir þá sem þekkja, að þetta er ákaflega mikið háð því hvernig samgöngur á landi verða síðan á milli Ísafjarðar og flugvallanna vestan eða sunnan Ísatjarðar þ. e. flugvallarins á Holti og Þingeyrarflugvallar, og kemur þar að því sérverkefni, sem er á dagskrá á Vestfjörðum, að bæta samgöngurnar yfir Breiðdalsheiðina og fyrir Dýrafjörðinn.

Þá virðist nefndin vilja leggja áherslu á að bæta nokkra sjúkraflugvelli, m. a. í Bolungarvík og einnig í Ögri. Sjúkraflugvöll vantar á Barðaströndina. Þá er lögð áhersla á það í þessum fundargerðum nefndarinnar, að flugleiðsöguþjónusta við Vestfirði verði bætt með því að koma upp fjölstefnuvita. Ekki hefur verið rætt enn þá um nákvæma staðsetningu, en Þverfjall nefnt. Jafnframt hefur verið talað um nauðsyn þess að koma sem fyrst upp radíó- og markvita við Gjögur.

Eins og þetta ber með sér er um ýmislegt að ræða, reyndar fleira en beinlínis fólst í fyrrnefndri þáltill.

Ég hef jafnframt beðið flugráð og flugmálastjórn að vinna áætlun fyrir árin 1982–1985, þ. e. framkvæmdaáætlun, og það var gert og ítarlega um hana fjallað s. l. vetur. Þar er lagt til grundvallar að bæta öryggismál flugsins, ekki bara við Vestfirði, heldur við landið allt. Þessi áætlun, sem nær til allra þeirra þátta, sem hv. þm. nefndi, og ýmissa fleiri í flugsamgöngum við Vestfirði, er nú til endurskoðunar á grundvelli þeirrar upphæðar sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 36% aukningu til flugmála á milli ára, en hins vegar er í öðrum framkvæmdaliðum grunntalan 28%. neina í vegamálum, þar sem að sjálfsögðu er stuðst við þá vegáætlun sem hér var samþykkt í fyrra.

Flugmálin fá sem sagt sérstaka meðferð. Ég held að menn hljóti að fagna því. Þetta var ákveðið í ríkisstj. með tilliti til þess, að oft hefur verið talið að öryggisþáttur flugsins væri ekki nægilega góður og þyrfti úr að bæta. Þetta er þó nokkru minni hækkun en við gerðum ráð fyrir í þessari fjögurra ára áætlun. Því er nú verið að endurskoða þessa áætlun með tilliti til þess sem gera má ráð fyrir næsta ár. Ég vil jafnframt geta þess, að ég stefni að því að slík áætlun verði sýnd hér á Alþingi fyrir næstu árin. Eins og nú er komið tel ég mikilvægt að sú áætlun sé samræmd því sem fram kemur í fjárl. Þannig verður að þessum málum unnið. Síðan verður lögð fram áætlun fyrir næstu fjögur ár. Ég hygg að menn geti verið sammála um að þannig verður að vinna að þessu máli.

Um einstaka þætti, sem hv. þm. benti á, vil ég segja: Nú er verið að koma upp lýsingu á Ísafjarðarflugvöll, komin lýsing á Patreksfjarðarflugvöll. Í þeirri áætlun, sem flugmálastjórn hefur lagt fram, er gert ráð fyrir að lýsing komi á Þingeyrarflugvöll 1984. Það stafar af því, að aðrir flugvellir þarna eru af öryggisástæðum taldir það varasamir að þeir verði að koma á undan. Fyrst og fremst er um að ræða flugvöllinn á Suðureyri, sem er að mati flugmálastjórnar við neðri mörk þess sem verður að gera kröfu til. Að mati flugmálastjórnar verður að leggja mikið fjármagn í að bæta hann á næsta ári. Það er því tekið sem eins konar forgangsverkefni eftir að flugvallargerð í Arnarfirðinum er lokið. Þar er einnig flugvöllur sem var langt undir lágmarksmörkum. Þann flugvöll er verið að lengja. Það verður mjög kostnaðarsamt verk. Lýsing eins og ég nefndi er hins vegar komin á Patreksfjörð. Þannig eru allir þeir þættir, sem hv. þm. hefur nefnt í sinni þáltill., komnir inn á framkvæmdaáætlun og sumum er þegar lokið, eins og þetta sem ég hef nefnt.

Ég vil hins vegar geta þess, að sem betur fer hafa orðið verulegar framfarir í öryggismálum flugsins á Vestfjörðum, t. d. með uppsetningu miðlínusendis í Djúpinu, sem gjörbreytir aðflugi að Ísafjarðarflugvelli og er kannske meira virði en ýmislegt annað sem hefur verið nefnt. Menn gera sér kannske ekki fyllilega grein fyrir því. Einnig er unnið að uppsetningu markvita, t. d. á Gjögri og við Patreksfjörð og reyndar Göltinn, sem eru allir mjög mikilvægir í þessu sambandi. Í þessari athugun og áætlunargerð hefur vitanlega verið tekið margt fleira en minnst er á í umræddri þáltill.

Ég vil svo að lokum taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það er ákaflega mikilvægt að koma öryggismálum flugsins um land allt í betra lag en nú er. Ég vil jafnframt lýsa þeirri skoðun minni, að Vestfirðirnir búa þar við erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að hraða framkvæmdum þar.

Samkv. upplýsingum frá flugmálastjórn hefur fjárveiting til flugmála á Vestfjörðum aukist þannig á undanförnum árum: Árið 1979 var varið til fjárfestingar í flugmálum samkv. fjárl. 8 millj. nýkr., þar af til Vestfjarða 1 millj. 59 þús. Árið 1980 var heildarfjárfesting í flugmálum samkv. fjárl. 14.5 millj., en til Vestfjarða 2 millj. 553 þús. og þá var aukning á milli ára til Vestfjarða, frá 1979 til 1980, 141%. Á árinu 1981 er heildarfjárfesting til flugmála 22 millj. 850 þús., til Vestfjarða 5 millj. 28 þús., þannig að aukning á milli ára frá 1980 til 1981 er 97% til Vestfjarða. Það hefur því verið brugðist vel við því að bæta ástand flugsins til Vestfjarða, eins og þessar tölur bera með sér.