04.05.1982
Neðri deild: 79. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4602 í B-deild Alþingistíðinda. (4373)

303. mál, ábyrgð á lánum til kaupa á ferjuskipi Skallagríms

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til I. um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á ferjuskipi Skallagríms hf.

Í nál. koma fram upplýsingar um skoðanir Siglingamálastofnunar á skipi því, sem til stendur að festa kaup á, og upplýsingar frá viðskiptafræðingi sem hafði gert athugun á hagkvæmni þess skips sem fyrirtækið hyggst festa kaup á.

Nefndin leggur til að fallist verði á að heimila ríkisstj. að ganga í ábyrgð vegna þessara lána. Hins vegar telur nefndin nauðsynlegt að eigið fé fyrirtækisins verði aukið eitthvað áður en gengið verður frá ábyrgðinni. Þess vegna flytur nefndin brtt. á þskj. 862, að við bætist svohljóðandi mgr.:

„Áður en ábyrgð er veitt skal hlutafé félagsins aukið í samráði við ríkisstj.

Nefndin hafði ekki möguleika á að meta hvað aukning á hlutafé skyldi vera mikil. Það er út af fyrir sig mjög slæmt að mál sem þetta komi nú fyrir þing á síðustu dögum. Fyrir því liggja ákveðnar orsakir sem voru skýrðar á fundum nefndarinnar, en nefndin vill leggja það í mat ríkisstj. hvaða kröfur skuli gerðar um aukið hlutafé. Það má geta þess, að hlutafé félagsins er innan við 200 þús.

Það kemur m. a. fram varðandi hagkvæmniathugun á þessu fyrirtæki, að aukning hafnargjalda vegna þess skips verði um 100 þús. á ári og eiga þar í hlut bæði Reykjavíkurhöfn og Akraneshöfn.

Nefndinni þykir ekki óeðlilegt að hagsmunaaðilar sjálfir leggi nokkuð af mörkum í þessu sambandi, án þess að hún sé að leggja á það endanlegt mat. Það getur ekki gengið að sveitarfélög og einstaklingar komi með beiðnir og kröfur hér á hv. Alþingi um ríkisábyrgðir og stuðning ríkisins án þess að viðkomandi aðilar séu tilbúnir að leggja eitthvað af mörkum sjálfir. Þess vegna vill nefndin ítreka þessa skoðun, enda fékk það góðar undirtektir þeirra er komu á fund hennar. Þeir töldu sjálfsagt að kannað væri heima fyrir að hvaða marki væri hægt að leggja til aukið hlutafé. Ég vil ítreka að út af fyrir sig er ekki verið að fara þess á leit af hálfu nefndarinnar, að slíkt hlutafé verið greitt í einu vetfangi. Það má að sjálfsögðu hugsa sér að það gerist á nokkurra ára bili. En nefndin telur það hins vegar mikla nauðsyn að eigið fé fyrirtækisins sé aukið.

Ég vil aðeins, herra forseti, vitna til nál. og þeirrar grg. sem þar fylgir, og ítreka að nefndin leggur til að frv. verði samþykkt.