10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

323. mál, ellilífeyrir sjómanna

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin: Mer sýnist á þeim að nokkuð hafi áunnist og þokast, þó að víðs fjarri sé að það sé búið að taka allt til greina eða skoðunar sem þáltill. gerði ráð fyrir, eins og t. d. sjúkraflugvöllinn í Bolungarvík sem nýjustu fréttir herma að flugráð hafi strikað út af næstu áætlun sinni til nokkurra ára. Vonandi tekst að koma þeim lið inn aftur þrátt fyrir þessar ákvarðanir flugráðs, en eins og mál standa mun a. m. k. vera stór mínus hjá flugráði við þá framkvæmd, að ég best veit. Flugráðsmenn, sem hér eru inni, leiðrétta það ef rangt er með farið. Ég verð hins vegar að harma nokkuð að þetta skuli ekki ganga betur. Mér sýnist að það geti liðið 1–2 þing enn og þá verði að bera upp fsp. áður en þessum ákvörðunum er lokið. Nú er komið langt á annað ár síðan þáltill. var samþykkt og þó ekki lokið meira en raun ber vitni.

Ég fagna því að sjálfsögðu sem áunnist hefur, og ég fagna því, að sú nefnd, sem hæstv. ráðh. skipaði, tók einnig þennan þátt. Ég tek undir það, að allt er þetta samverkandi í samgöngumálum. Það er ekki bara flugið, það þarf fleira að koma til.

Hæstv. ráðh. sagði hér, eins og auðvitað hefur komið fram oft áður, að enginn landshluti þurfi eins mikið á flugsamgöngunum að byggja og Vestfirðir. Hæstv. ráðh. fór hér með tölur sem hann taldi sýna að Vestfirðir hefðu fengið aukinn hlut í fjárveitingum til flugmála á undanförnum árum. Fjárveitingar eru eitt og framkvæmdir annað. Það skýtur nefnilega hálfskökku við þegar skoðaðar eru t. d. fjárlagatillögurnar til flugmálaframkvæmda á Vestfjörðum fyrir árið 1981 og svo hins vegar hvað embættismennirnir í kerfinu hjá hæstv. ráðh. hafa viljað láta gera í framkvæmdum, burt séð frá því hvað fjárveitingavaldið hafði ákveðið í sínum tillögum. Það kemur nefnilega í ljós við skoðun að það kjördæmi, sem mest á eftir af fjárveitingum í flugmálum, er Vestfjarðakjördæmi. Hvers átti Vestfjarðakjördæmi að gjalda þetta ár? Átti það bara að fá fjárveitingarnar á pappírnum? Áttu embættismennirnir í kerfinu síðan að strika þær út og láta þær í annað? Það segir lítið þó að hæstv. ráðh. fari hér með tölur um fjárveitingar yfirstandandi árs og undangenginna ára þegar embættismönnum í kerfinu líðst að haga aðgerðum sínum eftir geðþóttaákvörðunum án tillits til þess, hvað fjárveitingavaldið hefur ákveðið. Þetta þarf m. a. að koma í veg fyrir af hálfu fjárveitingavaldsins, að embættismönnunum líðist að ráðsmennskast með fjárveitingar að eigin geðþótta, þveröfugt við það sem fjárveitingavaldið hefur ákvarðað.

Um þetta eru ótalmörg dæmi og væri ástæða til að ræða það frekar. — Ég heyri að hæstv. forseti er farinn að berja í bjöllu og ég skal ekki níðast á honum, en ég ítreka að ég vænti þess, að hæstv. samgrh., verði hann í samgrh.-stól að ári, sjái til þess, a. m. k. meðan hann er þm. Vestfjarðakjördæmis, að þar verði ekki mest af ónotuðu fjárveitingafé til framkvæmda í flugmálum, eins og mér sýnist að sé í ár.