10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

323. mál, ellilífeyrir sjómanna

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Út af orðum hv. fyrirspyrjanda um að flugráðsmenn, sem hér væru inni, leiðréttu hann ef hann færi með rangt mál í sambandi við það sem hann sagði um Bolungarvík áðan, nefndi að flugráð hefði strikað út fjárframlag til Bolungarvíkur, til sjúkraflugvallar, þá vil ég upplýsa að það hefur aldrei verið gert í flugráði. Sjúkraflugvellir eru vanalega færðir undir einni tölu fyrir hvert kjördæmi og þar af leiðandi hefur aldrei komið fyrir flugráð að strika þar einn eða neinn flugvöll út. Það hefur aftur verið fjvn. og þar er hv. fyrirspyrjandi starfandi. Flugráð tók aftur á móti Bolungarvík upp á síðasta fundi sínum, hefur í hyggju að gera ákveðnar tillögur um að veitt verði sérstakt fjármagn til flugvallar í Bolungarvík. Þess vegna er það, sem flugráð hefur gert í sambandi við Bolungarvík, frekar á hinn veginn: að leggja heldur til að fjármagn verði aukið á þann stað en að sú stofnun hafi í einu eða neinu strikað út framlög til framkvæmda þar.

Fyrst ég er kominn hér upp og það hefur verið gert lítið úr því sem gert hefur verið á Vestfjörðum á undanförnum árum, sem sjálfsagt hefði mátt vera miklu meira en gert hefur verið, þá held ég að rétt sé að upplýsa það, að t. d. á Gjögri, þeim afskekkta stað, hefur verið í sumar unnið mun meira en fyrir þá fjárhæð sem flugráð og fjvn. og Alþingi samþykktu. Það getur vel verið að það sé ástæða til að dæma starfsmenn flugmálastjórnar mjög hart fyrir að það hafi verið gert, en ég tek ekki undir þann dóm. Einnig vil ég upplýsa það, að einmitt í sambandi við Gjögur er ákveðið að á næsta ári verði sett þar upp lýsing. Sú tillaga kom ekki frá neinum hv. þm. Vestf., hún kom frá flugráðsmönnum. Ég held að það sé alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að eyða ræðutíma sínum hér á Alþingi í að lýsa yfir að störf flugráðs séu eitthvað í þá átt að skera niður framkvæmdir á Vestfjörðum.