04.05.1982
Neðri deild: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4611 í B-deild Alþingistíðinda. (4414)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

[frh.]: Herra forseti. Þar sem mun fleiri eru nú staddir í þingsalnum en þegar ég gerði hlé á ræðu minni seinast þykir mér rétt að koma því á framfæri, að allshn. Nd. bárust allverulegar athugasemdir við það frv. sem hér er til umr. Ég tel mér skylt að gera grein fyrir þeim, þar sem þessar athugasemdir eru frá dómarastéttinni sjálfri.

Herra forseti. Ég held þá áfram máli mínu þar sem frá var horfið og vil leyfa mér að vitna hér í athugasemdir við bráðabirgðaákvæði frv. um breytingu á lögum um Hæstarétt Íslands.

„Ljóst er t. d. að erfitt væri að fylgja fram banni 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar við því að víkja umboðsstarfalausum dómara úr embætti, nema með dómi, ef almennt mætti setja eða skipa dómara til tiltekins tíma. Þá er einnig vandséð hvernig ákvæði sömu greinar um að dómari skuti ekki missa neins í af launum sínum, þegar starfstíma hans lýkur, samrýmist því fyrirkomulagi sem frv. gerir ráð fyrir.

2. Ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstætt og óháð dómsvald eru byggð á meginreglunni um þrígreiningu ríkisvaldsins. 61. gr. stjórnarskrárinnar er einungis staðfesting á þeirri meginreglu að því er dómara varðar. Af framsögu leiðir að allar lagaheimildir, sem fela í sér skerðingu á því réttaröryggi sem 61. gr. stjórnarskrárinnar veitir, verður að rökstyðja sérstaklega ef þær eiga að teljast hafa gildi. Því meira sem frávikið er, þeim mun rækilegri verður rökstuðningurinn að vera.

3. Í bráðabirgðaákvæði fyrrgreinds frv. er gert ráð fyrir því, að dómarar séu settir í nýjar „stöður“. Þarna er því ekki um sambærilegt tilvik að ræða og um getur í 4. gr. laga nr. 73/1975 en þar er gert ráð fyrir að unnt sé að setja dómara í tilteknu máli eða í tiltekinn tíma, sé um forföll reglulegs dómara að ræða eða leyfi frá störfum um stundarsakir, eða þegar sæti hans verður autt af öðrum ástæðum. Umrædd lagagrein gerir ráð fyrir því, að dómari er settur í stað annars fasts dómara sem hverfur frá störfum um stundarsakir. Munurinn er m. a. fólginn í því, að hinar nýju „stöður“ gefa auknar líkur um framlengingu setningartímans. Umræddri 4. gr. er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að mæta vissum ófyrirséðum atburðum, sem gera það að verkum, að hinn reglulegi dómari getur ekki rækt starf sitt um stundarsakir. Heimildinni ber að beita í hófi samkv. stjórnarskrárheimildum þeim sem fyrr var getið. Sé þess ekki gætt og dómari t. d. settur til lengri tíma, kynni slíkt tilvik að vera talið andstætt 61. gr. stjórnarskrárinnar, jafnvel þótt um setningu fyrir annan sé að ræða, allt þó nánar eftir aðstæðum hverju sinni.

4. Það hefur lengi tíðkast að setja dómara til skamms tíma í Hæstarétti. Þau fordæmi eru ekki sambærileg og geta ekki orðið til þess að skjóta stoðum undir þá skipan sem nú er fyrirhuguð með bráðabirgðaákvæði fyrrgreinds frv. Þetta verður ljóst ef bornar eru saman forsendur, tímalengd og umfang á þessum setningum í hverju tilviki fyrir sig.

Framkvæmdin í Hæstarétti hefur hingað til verið sú, að í öllum tilvikum var umsetningu í stöður annars dómara að ræða vegna orlofs eða forfalla. Í einu tilviki var einn dómari settur í nær tvö ár vegna leyfa hins reglulega dómara. Þar er að vísu um ærið langan tíma að ræða, en þó setning fyrir annan. Í öðrum tilviki var dómari settur í nokkur ár. Stóð svo á, að ákveðin hafði verið fækkun hæstaréttardómara úr fimm í þrjá í sparnaðarskyni, með lögum frá 1924. Sú breyting átti þó ekki að koma til framkvæmda fyrr en sæti tveggja fastra dómara losnuðu. Í septembermánuði 1923, þegar menn þóttust sjá fram á lagabreytinguna, lést einn af dómurum Hæstaréttar og þá annar settur til að gegna stöðu hans þar til sæti annars fasts dómara losnaði. Hér var um mjög sérstætt tilvik að tefla. Verið var að koma nýrri skipan á dómstólana, og enn var um setningu að ræða í stöðu annars.

5. Bráðabirgðaákvæði fyrrgreinds frv. um setningu dómara ganga lengra en áður eru dæmi. Nefna má fáein atriði:

a. Þeir eru ekki settir í stöðu annars dómara, heldur er gert ráð fyrir nýjum stöðum, þar sem um endurtekna skammtímasetningu gæti orðið að ræða, en einmitt sú tilhögun er til þess fallin að móta annað viðhorf hins setta dómara til stöðunnar þegar fram líða stundir. Slíkt veikir tiltrú almennings á dómstóla.

b. Gert er ráð fyrir að settir dómarar verði tveir eða þrír, sem er hátt hlutfall miðað við þann fjölda dómara sem fyrir er.

c. Samkv. frv. er við það miðað að umræddar heimildir geti gilt í tvö ár hið lengsta. Þetta telst langur tími miðað við þau störf sem hér ræðir um. Samkv. grg. með frv. ber auk þess að „taka málið til athugunar á ný“ að þeim tíma liðnum. Ljóst er því að höfundar frv. útiloka ekki að um áframhald geti orðið að ræða.

6. Ákvæði frv. um dómara til bráðabirgða verður ekki rökstutt:

a. Með því að vísa til reynslu Finna, þar sem ákvæði 53.–60. gr. stjórnarskrár Finna eru alls ekki sambærileg ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar um þau atriði sem hér skipta máli.

b. Með því að vísa til fordæmis Norðmanna eftir síðari heimsstyrjöldina, því að ástand þjóðmála í Noregi á þeim tíma er alls ekki sambærilegt við ástandið á Íslandi nú.

c. Með því að vísa til þess, að um neyðarráðstöfun sé að ræða, því að auðvelt er að sýna fram á aðrar leiðir, sem í aðalatriðum leiða til sömu niðurstöðu en rýra þó ekki sjálfstæði dómstólanna. Þessar leiðir hefðu varla verulega aukin útgjöld í för með sér. Má reyndar taka fram að aukin útgjöld í þessum mæli geta aldrei talist grundvöllur undir neyðarrétti sem réttlætt gæti frávik frá stjórnarskránni.

d. Með því að vísa til þess að dómarar til bráðabirgða verði alltaf í minni hluta í Hæstarétti. Ekkert segir um það í fyrirliggjandi frv, að umræddir dómarar skuli ávallt vera minni tilhluti dómara í hverju máli. Auk þess styrkir það tæpast traust almennings á Hæstarétti að skipta dómurum hans þannig í flokka.

e. Með því að vísa til þess að dómarar til bráðabirgða verði aðeins settir samkv. tillögum Hæstaréttar. Sá stuðningur, sem þetta kann að veita, er veikur miðað við þá tryggingu sem stjórnarskráin veitir dómendum. Kjarni málsins er krafa stjórnarskrárinnar um skipan dómara til ótiltekins tíma.

7. Verði umrætt frv. um dómara til bráðabirgða að lögum er stigið varhugavert skref í sögu íslenskrar dómaskipunar.

a. Því kann að verða haldið fram, að um sé að ræða brot á 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Í þessu sambandi skal á það bent, að líklegt er að einmitt komi til kasta Hæstaréttar sjálfs að skera úr um það hvort umrætt bráðabirgðaákvæði fái staðist samkv. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Í grg. með frv. kemur fram að það sé samið af dómurum Hæstaréttar. Er úrlausnarefni þetta kemur til kasta Hæstaréttar er líklegt að allir hinir reglulegu dómarar Hæstaréttar verði að víkja sæti, sbr. 6. gr. laga nr. 75/1973.

b. Jafnvel þó menn treysti sér ekki til að fullyrða að umrætt bráðabirgðaákvæði fari berlega í bága við stjórnarskrána má vekja athygli á að hér er stigið nýtt skref, sem gengur gegn meginhugsun 61. gr. hennar. Vekur athygli að lögmæti þessarar breytingar er m. a. rökstutt með fyrri skrefum á sömu braut, sem ekki hafa náð jafnlangt. Er þá eins víst að bráðabirgðaákvæðið, ef að lögum verður, verði síðar notað til rökstuðnings því að enn lengra megi ganga. Hlýtur þetta að vera umhugsunarefni.

c. Verði frv. að lögum má ætla að Hæstiréttur dragist inn í umræður um það hvort hann sé löglega skipaður eða ekki. Slíkar umræður eru til þess fallnar að rýra álit Hæstaréttar út á við. Yrði að telja það illa farið.

Reykjavík, 20. nóvember 1981.“

Ég vil biðja þá, sem hér eru, að veita því sérstaka eftirtekt hverjir það eru sem rita undir þetta álit. Með leyfi forseta vil ég lesa upp nöfn þeirra: „Steingrímur Gautur Kristjánsson borgardómari. Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. Björn Þ. Guðmundsson prófessor. Baldur Guðlaugsson hdl. Stefán Már Stefánsson prófessor. Friðgeir Björnsson borgardómari. Már Pétursson héraðsdómari. Hrafn Bragason borgardómari. Björn Friðfinnsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar. Eiríkur Tómasson hdl.“

Herra forseti. Ég hygg að það hefði fleirum en mér brugðið í brún við að fá slíka umsögn um lagafrv. sem hér hefur verið kynnt, þegar aðilar, sem undir það skrifa, eru m. a. menn, sem kenna lögfræðina við Háskóla Íslands, eins og Stefán Már Stefánsson prófessor. Það hljóta að renna á menn tvær grímur, hvort ekki sé lágmarksskylda nefndarformanns undir slíkum kringumstæðum að koma þeim upplýsingum á framfæri við þingið sem nefndin hefur fengið og ganga svo gegn þeim hugmyndum sem framkvæmdavaldið hefur varðandi lagasetningu þessa.

Ég tel að leiða megi að því miklar líkur, að þeir, sem hér hafa ritað undir, eigi sumir hverjir eftir að verða dómarar í Hæstarétti. Og ég trúi því ekki á nokkurn þeirra að þeir séu að leggjast gegn Hæstarétti sem slíkum. Ástæðan fyrir þessu áliti er einfaldlega sú, að þeim finnst Hæstiréttur tapa virðingu sinni og tiltrú ef sú breyting verður gerð sem hér er verið að leggja til. Og hverjar eru ástæðurnar í örfáum orðum sagt? Jú, það er verið að leggja til deildaskiptingu Hæstaréttar, að hann starfi í mörgum deildum. Hve mörgum? Hann gæti starfað í þremur deildum í þriggja manna dómi samkv. þessu. Hann gæti starfað í tveimur deildum í fimm manna dómi samkv. þessu. En það er verið að fara út á ákveðna braut. Það er verið að marka nýja stefnu. Það er verið að taka upp þá stefnu að Hæstiréttur sé fyrst og fremst annað dómstigið, með mörgum aðskildum hólfum getum við sagt, þannig að það er „lotterí“ hvaða hólf það er sem tekur að sér að dæma í hverju máli.

Ég óttast að í reynd sé hægt að tala um að sú lausn, sem verið er að leggja til, sé sambærileg við það, ef við gætum talað um byggingar, að verið sé að tala um að byggja skúr við aðalhúsið og svo nýjan skúr við þann skúr. Þannig er lengi hægt að halda áfram.

Ég ákvað að kynna mér rök fyrrv. dómsmrh., ólafs Jóhannessonar, fyrir þeim málatilbúningi þegar hann lagði fram frv. að lögum um lögréttu. Eins og þm. er kunnugt var það frv. samið af réttarfarsnefnd. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur þegar unnið mikið starf. Hún hefur samið nokkur lagafrumvörp og hafa a. m. k. fimm þeirra þegar verið lögð fyrir Alþingi, þrjú hlotið afgreiðslu og svo eru tvö sem koma til umr. nú í þessari hv. deild.“

Það virðist liggja ljóst fyrir, að menn hafa talið að megnið af því, sem þessi nefnd lagði til, væri af hinu góða. Hins vegar læðist sá grunur að manni, að e. t. v. hafi það fyrst og fremst annars vegar verið byggðasjónarmið, eða átök á milli byggðarlaga um staðsetningu dómskerfis, og hins vegar kostnaðarspursmál sem hafi haft afgerandi áhrif á afstöðu til þessa máls. Með lögréttu var ekki verið að leggja til að það yrðu þrjú dómstig í framkvæmd í hverju máli. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er því lagt til að dómstig hér á landi verði þrjú í stað tveggja, eins og nú er, þó þannig, að hverju og einu máli er aðeins ætlað að fara um tvö dómstig en ekki um öll þessi þrjú dómstig, því að lögrétturnar eiga að fjalla um stærri mál sem fyrsta dómstig, en um önnur mál sem annað dómstig eða áfrýjunardómstig. Það er gert ráð fyrir að þeim málum, sem eftir sem áður verður fjallað um af héraðsdómara, megi áfrýja til viðkomandi lögréttu og, dómur hennar verði þá lokadómur í því máli, en málum þeim, sem lögrétta fjallar um sem fyrsta dómstig, megi áfrýja til Hæstaréttar. Því verður ekki neitað, að þessar tillögur fela í sér róttækar breytingar á dómstólaskipan landsins og er eðlilegt að menn vilji skoða þær vel frá öllum hliðum.“

Að sjálfsögðu var eðlilegt að menn vildu skoða þær vel frá öllum hliðum. Á hinu hygg ég að færri hafi átt von, að menn treystu sér ekki til að gera þær breytingar á lögréttunni, sem þeir teldu að væru eðlilegar, og niðurstaðan yrði aftur á móti sú, að menn sneru aftur til þess að fara að fjölga dómurum í Hæstarétti,

Ég vil — með leyfi forseta —vitna hér í ákveðinn kafla sem óneitanlega minnir á það sem hinir ungu dómarar vors lands minntust á í sínum athugasemdum. „Í umræðum um bætt réttarfar hafa ætíð komið fram raddir sem telja nauðsyn að koma á aðskilanaði milli dómsvalds og framkvæmdavalds. Má í því sambandi til frekari glöggvunarvísa á bls. 18 og 19 í grg. þessa frv., þar sem gerð er nokkru nánari grein fyrir því. Er sjálfsagt eðlilegt að slíkar óskir og tillögur. hafi komið fram. Það er æskilegt að þeir, sem fara með dómsvaldið, séu ekki of háðir framkvæmdavaldinu, enda er slíkt fyrirkomulag í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar er byggir á kenningunni um þrískiptingu ríkisvaldsins. Sú skipan er einnig í samræmi við þróun er átt hefur sér stað í nágrannalöndunum síðustu áratugina. Þar fara dómarar ekki með framkvæmdavald.“

Ég vil gera hér örstutt hlé á því að vitna í þessa ræðu, en vekja athygli á, því, að Íslendingar höfum nokkuð bitra reynslu af því þegar dómarar hafa farið með framkvæmdavaldið. Það hefur ekki alltaf orðið dómstólunum til álitsauka þegar þeir dómar, sem slíkir menn hafa kveðið upp, hafa farið öfugir í Hæstarétti. Það er ekki neinum til góðs að hlegið sé að dómsvaldi í landinu. (Forseti: Á hv. ræðumaður langt eftir af ræðu sinni?j Nú hallar á seinni hlutann; herra forseti. (Forseti: Ég get ekki gefið nema örskamman tíma, ella verð ég, að biðja hv. ræðumann að fresta ræðu sinni.) Mér er ljúft að fresta ræðu minni, herra forseti: — [Frh.] .