04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4618 í B-deild Alþingistíðinda. (4419)

111. mál, söluskattur

Halldór Blöndal:

Herra. forseti. Eins og ræða hv. 3. þm. Austurl. bar með sér er framkvæmd rn. á þessu ákvæði um undanþágu með þeim hætti, að hún brýtur greinilega í bága við lög, við þann lagabókstaf sem gildir um söluskattsskyldu tímarita. Það er augljóst þegar af því, eins og hv. 3. þm. Vestf. sagði áðan; að hægt er að reka umfangsmikla útgáfustarfsemi í skjóli þessa ákvæðis án þess að útgáfan falli undir það að vera söluskattsskyld. Það sýnir auðvitað að ekki er farið eftir bókstaf laganna, enda held ég að það sé rétt, sem hv. 3. þm, Austf. sagði áðan, að það er eins um þessa undanþágu frá söluskatti og ýmsar aðrar, að þar er erfitt að greina á milli. Nú mundi ég ekki gera það að miklu ágreiningsefni og hefði ekki orðið óánægður með það, þótt nefndin hefði afgreitt þetta frv. með þeim hætti að eftir sem áður skyldi greiddur söluskattur af erlendum blöðum og tímaritum. Ég hefði mjög vel fellt mig við þá afgreiðslu. Á hinn bóginn held ég að það sé nauðsynlegt að taka hér af öll tvímæli og láta hið sama gilda um alla tímarita- og blaðaútgáfu hér á landi. En þegar ég heyrði það í ræðu hv. formanns nefndarinnar, að hann hefði borið málið undir fjmrn., þá vissi ég náttúrlega hvað klukkan sló, því að við höfum séð það á undanförnum dögum að það er örugg leið til þess að drepa skattamál að bera þau undir fjmrn.

Ég vil svo taka undir það með hv. þm., að það er orðin brýn þörf á því að breyta söluskattinum, og vil minna á að í málefnasamningi ríkisstj. — eða stjórnarsáttmála heitir það víst, stendur á bls. 7. „Athugað verði að breyta söluskatti í skatt með virðisaukasniði innan tveggja ára.“ Nú eru þessi tvö ár liðin. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, úr því að höfuðið vantar í deildinni, hvað þessari athugun líði. Það stendur að vísu í tölulið 5 að staðgreiðsla skatta skuli tekin upp innan tveggja ára. Þessi tvö ár eru náttúrlega liðin og við vitum að ekki bólar á staðgreiðslunni. Ég óttast að hið sama sé að segja um athugunina á virðisaukaskattinum. Viljann skorti til að láta þessa athugun fara fram. Sú skírskotun, sem formaður nefndarinnar hafði til þessarar athugunar, er þess vegna gerð í skjóli þess, að ekkert verði úr neinu. Söluskatturinn á að gilda áfram með öllum sínum göllum. Virðisaukaskatturinn lætur á sér standa. Staðgreiðslan kemur ekki. Svo er um ýmislegt annað í þessum stjórnarsáttmála.

Nú gefur ræða formanns fjh.- og viðskn. náttúrlega tilefni til þess, að maður fái skrá yfir þau blöð og tímarit sem undanþegin eru söluskatti. Það verður áreiðanlega fróðleg lesning og skemmtilegt að sjá hverjir njóta þessa frjálsræðis.

Ég vil svo segja það út af þeim ummælum hv. 3. þm. Vestf., að stjórnmálaflokkar gefi út blöð í ágóðaskyni, að söluskattur er ekki lagður á auglýsingatekjur. En hætt er við að söluskattstekjurnar, sem kæmu af seldum blöðum stjórnmálaflokka, væru nokkuð rýr sjóður. Ég er hræddur um að mest sé gefið, sem frá stjórnmálaflokkunum kemur, og kannske lítið lesið í samræmi við það.