04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4619 í B-deild Alþingistíðinda. (4420)

111. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal rifjaði upp að í stjórnarsamningi núv. stjórnaraðila stæðu þau orð, að athugað yrði hvort rétt væri að virðisaukaskattur yrði tekinn upp innan tveggja ára. Það var rétt hjá hv. þm., að þau tvö ár eru nú tíðin. Svar við fsp. hans er það, að þessi athugun er auðvitað stöðugt í gangi og niðurstaðan hefur einfaldlega orðið sú, að ekki væri tímabært að leggja til að virðisaukaskattur yrði upp tekinn. Ég hef þegar greint frá ástæðum fyrir þessu hér í umr. á Alþingi við annað tækifæri, en meginástæðan er sú, að það eru takmörk fyrir því, hvað skattkerfið í landinu þolir að standa í mörgum stórfelldum umbyltingum á sama tíma. Við höfum staðið í stórfelldum breytingum á tekjuskattskerfinu, sem eru nú rétt nýlega um garð gengnar, og höfum verið að búa okkur undir að ganga inn í aðra stórfellda breytingu, sem er upptaka staðgreiðslukerfis. Það hefur ekki verið talið hyggilegt að kasta sér út í þriðju breytinguna, þ. e. upptöku virðisaukaskatts, á sama tíma og við stæðum í því stóra verkefni að taka upp staðgreiðslukerfi, vegna þess að upptaka virðisaukaskatts er býsna mikið mál. Það felur í sér mjög verulega aukna skriffinnsku í skattakerfinu, því að þeir aðilar, sem eiga að innheimta skattinn, eru margfalt fleiri í virðisaukakerfi en söluskattskerfi. Þetta þarf auðvitað að hafa í huga þegar að því kemur að menn stíga þetta spor, ef menn á annað borð taka þá ákvörðun. A. m. k. er ekki hyggilegt að stíga það spor á nákvæmlega sama tíma og menn eru að taka upp staðgreiðslukerfi.

Ég harma það að frv. um staðgreiðslu hefur ekki hlotið afgreiðslu þessa þings, en vona að menn gefi sér tíma til þess í sumar að endurskoða það frv., enda er bersýnilegt að sú nefnd, sem hefur haft það til meðhöndlunar, og þeir umsagnaraðilar, sem hafa komið þar við sögu, hafa ekki veitt því það brautargengi sem til þarf. Menn telja greinilega að þar þurfi fleiri atriði að athuga en gert hefur verið, og er ekkert við það að athuga í sjálfu sér. Ég vonast því til að það geti orðið á næsta hausti að við samþykkjum að taka upp staðgreiðslukerfi. En það þýðir um leið að eitthvað mun dragast að menn tali um það í alvöru að tekinn verði upp virðisaukaskattur.

Um það frv., sem hér er til umr., hef ég ekkert að segja umfram það sem kom fram í umsögn fjmrn. um þetta mál. Deildin er nýlega búin að afgreiða eitt skattamál, sem ég held að sé að flestra dómi, þegar nánar er athugað, eitt vitlausasta mál sem hér hefur verið til umr. Ætla ég sannarlega að vona að það hljóti ekki endanlega afgreiðslu Alþingis. En ég vil alls ekki hafa þau orð um þetta frv. Þetta frv. er í sjálfu sér vel hugsað, þar sem um er að ræða að fella niður þá skilgreiningu sem er í söluskattslögum, að gerður sé greinarmunur á tímaritum, sem eru gefin út í ágóðaskyni, annars vegar og hins vegar tímaritum, sem eru ekki gefin út í ágóðaskyni. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að það er ekki alveg vandalaust að draga þarna mörkin.

Á hinn bóginn vil ég upplýsa að það er mjög erfitt að draga mörkin á milli tímarita annars vegar og bóka hins vegar. Eru mjög mörg dæmi um þann vanda sem rn. er sett í að gera þarna greinarmun. Ég álít að ef menn eru að hræra í þessu, þá sé um fátt annað að ræða en að afmena þessar undanþágur með öllu, þannig að öll blöð og öll tímarit séu söluskattsskyld, eins og mundi tvímælalaust verða ef um virðisaukaskatt yrði að ræða. Ég er hins vegar hræddur um að menn séu ekki tilbúnir að stíga það spor að sinni. Ég er því eindregið á móti því að krukka í þetta mál með því að gera þessa breytingu hér, vegna þess að það er bara að fara úr öskunni í eldinn, landamærin flytjast lítils háttar. Vandinn getur þá orðið fyrst og fremst sá að skilgreina í vafatilvikum, sem mjög mörg mundu þá upp koma, hvað sé tímarit og hvað ekki. Það vandamál er þegar fyrir hendi og er ekki á bætandi.