04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4621 í B-deild Alþingistíðinda. (4426)

242. mál, orlof

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þessi orð hv. 5. þm. Vestf., ekki aðeins gagnvart því sem hann nefndi varðandi afskipti ráðh. af málum, heldur hitt, að það gengur auðvitað ekki, eins og hefur átt sér stað nú í kvöld, að vera að hoppa eins og íkornar á grein á milli mála, taka mál á dagskrá og fresta umr., taka mál fyrir aftur, fresta umr. o. s. frv., o. s. frv., þegar ekki liggur ljóst fyrir um þau mál, sem eru til umr. og er verið að fresta og taka upp á ný og fresta aftur, hvort ætlunin sé að þau gangi til atkv. eða ekki. Mér skilst að ákvörðunin um að fresta atkvgr. í málinu um orlof, sem hér var rætt áðan, hafi ekki verið rædd við félmn., hvernig nefndin hugsi sér að taka á því máli, hvenær hún geti lokið störfum. Ekki lét hæstv. forseti heldur þess getið, hvernig hann hugðist halda áfram umr. um frv. um söluskatt. Ég óska eftir nánari skýringum frá forseta deildarinnar. Hvenær er þess að vænta, að atkvæði geti gengið um frv. um söluskatt? Hvenær er þess að vænta, að félmn. þessarar deildar geti tekið á ný við umfjöllun um frv. um orlof? Og hvenær verður þess þá að vænta, að atkv. geti gengið í því máli?