04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4623 í B-deild Alþingistíðinda. (4433)

299. mál, ábyrgð vegna norrænna fjárfestingalána

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Ég hygg að þetta frv. til l. um ábyrgð vegna norrænna fjárfestingalána sé góðra gjalda vert. En ég er ekki jafnviss um að hv. fjh.- og viðskn. sé ýkjaviljug til þess að vinna í málinu með tilliti til þess, sem kom hér fram hjá hæstv. fjmrh. þegar hann taldi órökstutt, að frv., sem fjh.- og viðskn. þessarar ágætu deildar samþykkti með öllum atkv., væri vitlausasta frv, sem hefði verið afgreitt frá þinginu. Ég er ekki alveg viss um að menn gangi glaðir til starfa í fjh.- og viðskn. eigandi von á því að fá svona einkunn, órökstudda einkunn frá fjmrh. eða einhverjum öðrum ráðh. í hæstv. ríkisstj.