04.05.1982
Neðri deild: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4625 í B-deild Alþingistíðinda. (4444)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Frsm. meiri hl. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Iðnn. hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem birtar eru á sérstöku þskj. Magnús H. Magnússon skilar séráliti. Birgir Ísl. Gunnarsson og Sigurlaug Bjarnadóttir áskilja sér rétt til þess að flytja og fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Efni og aðdraganda frv. hafa verið gerð ítarleg skil í framsöguræðu iðnrh., þegar hann mælti fyrir frv. þessu 14. apríl s. l.

Meiri hl. iðnn. mælir með því, að ríkisstj. verði veitt heimild til að stofna hlutafélag er reisi og reki kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þegar tillit er tekið til þess, að hér er um mjög kostnaðarsama framkvæmd að ræða, þótti rétt að gera á frv. nokkrar breytingar sem m. a. miða að því að auka áhrif þingsins á stjórn þess og að fjárframlög til félagsins umfram 25 millj. kr. verði háð frekara samþykki Alþingis að fenginni skýrslu stjórnar félagsins um undirbúning framkvæmda við verksmiðjubygginguna. Enn fremur er í brtt. gert ráð fyrir að leggja beri hugsanlega samstarfssamninga milli ríkissjóðs og annarra eignaraðila fyrir Alþingi til staðfestingar.

Þá er sú breyting gerð, að ekki er talið rétt að lögfesta að sinni skiptingu svæðisbundinna gjalda af rekstri verksmiðjunnar. Rétt þykir að huga frekar að því máli þegar séð verður hver verða félagsleg áhrif af byggingarframkvæmdum verksmiðjunnar á Reyðarfirði. Með hliðsjón af framvindu mála verður síðan tekin ákvörðun um skiptingu þess 1% gjalds sem verksmiðjunni verður gert að greiða af aðstöðugjaldsstofni vegna rekstrar verksmiðjunnar.

Loks eru í brtt. meiri hl. iðnn. gerðar tillögur um að kveða fastar á um eignaraðild að væntanlegri höfn að Mjóeyri við Reyðarfjörð.

Í öllum þeim umsögnum, sem nefndinni bárust, er varla hægt að segja að gagnrýni hafi komið fram á skýrslu og störf verkefnisstjórnar. í þeim tilfellum, sem slíkt kom fyrir, var oftast um misskilning að ræða eða viðkomandi hafi ekki aðgang að fullnægjandi upplýsingum. Ég tel að verkefnisstjórn hafi skilað af sér vel unnu verki og málið sé frá hendi verkefnisstjórnar og iðnrn. mjög vel undirbúið. Ég þakka iðnaðarnefndarmönnum öllum gott samstarf við athugun og yfirferð þessa máls.

Með byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði verður stigið mikilvægt spor í atvinnusögu Íslendinga. Hér verður um að ræða stóriðjufyrirtæki undir óskoruðu forræði Íslendinga, — fyrirtæki sem virðist geta orðið arðbært og þjóðhagslega hagkvæmt og treystir þá um leið undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, fyrirtæki sem rennir stoðum undir almenna iðnþróun í landinu og treystir jafnvægi í byggðum landsins. Ég vænti þess, að frv. verði að lokinni umr. hér í hv. deild afgreitt með umræddum breytingum meiri hl. iðnn. til Ed. þannig að frv. geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi.