04.05.1982
Neðri deild: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4637 í B-deild Alþingistíðinda. (4447)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér er til umr. eitt hinna stóru, þýðingarmiklu og nokkuð umdeildu atvinnumála sem hv. alþm. verða nú á síðasta snúningi á lokadögum þingsins að taka afstöðu til. Málið hefur að sjálfsögðu verið til ítarlegrar umfjöllunar í iðnn. hv. deildar á löngum og ströngum fundum og liggja nú fyrir niðurstöður af þeim í nál. Ég hefði raunar gert ráð fyrir að hv. frsm. og formaður nefndarinnar hv. þm. Skúli Alexandersson, hefði gert nokkru ítarlegri grein fyrir þeim brtt. sem við stöndum að öll í nefndinni að undanteknum hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, en þm. hafa þskj. og því tök á að kynna sér þessar brtt. og bera þær saman við frv. sjálft. Sjálf hef ég setið aðeins tvo fundi af þessum merkilegu fundum í iðnn., en hef þó að sjálfsögðu eftir föngum kynnt mér allar hliðar málsins, m. a. með athugun álitsgerða fjölmargra umsagnaraðila sem til var leitað af hálfu Alþingis.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, annar sjálfstæðismanna í nefndinni, hefur gert mjög rækilega grein fyrir málinu, svo að ég þarf raunar litlu þar við að bæta, drep aðeins á nokkur meginatriði sem mér komu hvað markverðast fyrir sjónir. Auk þess mun mín umfjöllun nánast verða almenn hugleiðing í þessu sambandi um atvinnumál okkar um þessar mundir.

Því er ekki að neita, að afgreiðsla þessa máls fer fram undir allmiklum þrýstingi úr ýmsum áttum, þ. á m. frá heimamönnum eystra sem auðvitað eiga hér mest í húfi. Það hefur ekki heldur farið fram hjá neinum þeim sem fylgjast með umfjöllun í fjölmiðlum um þetta mál og önnur allsérstæð atvinnumál sem liggja nú fyrir Alþingi, að skoðanir almennings um þau eru meira en lítið skiptar. Þær skoðanir eru að mínu áliti margar hverjar undarlega neikvæðar. Orð eins og heimtufrekja, ábyrgðarleysi, bruðl með almannafé, kapphlaup um atkvæði, hrepparígur og skæklatog hafa þar ósjaldan verið viðhöfð með miklum áhersluþunga og af álíka mikilli lítilsvirðingu og það af mörgum hverjum ágætismönnum sem hafa sitt hvað til brunns að bera af sérfræðilegri þekkingu og fjármálaviti. Ekki treysti ég mér til að staðhæfa að ekki leynist sannleikskorn í þeim heldur ógeðfellda orðaflaumi sem að ofan greinir. Hitt vildi ég þó leyfa mér að benda á, þótt slíkt ætti að vera óþarfi, og jafnframt staðhæfa, að áhugi fólksins úti um byggðir landsins, sem þessi atvinnumál öll snerta hvað helst, er þegar betur er skoðað annað og meira en skæklatog og hrepparígur. Málið er langtum djúptækara og viðurhlutameira og tengist auðvitað óvenjulega tvísýnum horfum í atvinnumálum okkar almennt og markaðsmálum um þessar mundir.

Hrun loðnustofnsins á sama tíma og bætt er jafnt og þétt við þegar allt of stóran fiskiskipaflota, erfiðleikar í skreiðarsölu, stöðugt harðnandi samkeppni á freðfiskmörkuðum, uggvænlegar horfur í markaðsmálum landbúnaðarins og fullkomin kyrrstaða nú um árabil í nýtingu einnar helstu auðlindar okkar, virkjun fallvatna og uppbyggingu orkufreks iðnaðar, öll þessi ókjör, sem því miður verða flest ef ekki öll rakin til skammsýni og aðgerðaleysis stjórnvalda, setja eðlilega ugg að þjóðinni um yfirvofandi kreppuástand. Færi betur að sá uggur reyndist ekki á rökum reistur og að úr málum rættist betur en á horfist þessa stundina. Það þarf því engan að undra með tilliti til allra aðstæðna nú þótt íbúar byggðarlaga, sem sjá fram á minnkandi atvinnu, fólksfækkun og hugsanlegan fólksflótta, eins og fyrr á árum, renni hýru auga til stórvirkjunar eða myndarlegrar verksmiðju í sjónmáli sem skotið gæti stoðum undir tryggara og fjölbreyttara atvinnulíf og um leið stuðlað að sæmilegu jafnvægi í byggðalegu tilliti.

Hér eru því sannarlega engin hégómamál á ferð sem verðskulda að vera kölluð öllum illum nöfnum, þótt vissulega geti pólitískur eða persónulegur ofmetnaður og ofurkapp einstakra manna hreinlega komið óorði á þessi mál og spillt fyrir framgangi þeirra. Að sjálfsögðu verður hér líka sem endranær kapp að fara með forsjá. Gildir einu hvort annars vegar er steinull, sykur eða kísilmálmur, en allt eru þetta meiri og minni áhættufyrirtæki. Með þessu er ég ekki að gefa í skyn að við eigum ekki að þora að taka nokkra áhættu, ekki hvað síst þegar um nýja tegund atvinnurekstrar er að ræða sem ekki styðst við fengna hérlenda reynslu. En því aðeins er slík áhætta réttlætanleg að á undan sé gengin vandleg athugun og yfirvegun á öllum hliðum mála sem komi í veg fyrir að anað sé út í ófæru þannig að fyrirtæki, sem ætti að verða lyftistöng fyrir viðkomandi byggðarlag og þjóðarbúið í heild, verði okkur í reynd fjárhagslegur myllusteinn um háls. Sérstök skylda hvílir hér að sjálfsögðu á hv. alþm., en þeir taka skuldbindingar á sig um ráðstöfun á geipistórum fúlgum af almannafé vegna þátttöku ríkissjóðs í atvinnufyrirtækjum með einum eða öðrum hætti. Og þessi þróun um stöðugt aukna aðild ríkisins í atvinnurekstri er á þeirri braut nú að gefa þarf alvarlegan gaum að.

Arðsemisjónarmið verðum við að hafa að leiðarljósi jafnframt því sem skylt er að hafa einnig í huga byggðasjónarmið, nauðsynlega atvinnudreifingu til hinna ýmsu landshluta er tryggi svo sem kostur er jafnvægi í byggð landsins. Ég fer ekki hér út í nánari rökstuðning eða útlistun á þessari skoðun minni. Sá rökstuðningur hefur oft komið fram á hinu háa Alþingi í löngum ræðum sem nú eru ekki vel séðar og allra síst á þessum hluta sólarhringsins í ósæmilegri tímaþröng þingsins nú í þinglok. Ég læt mér því nægja að vitna til samþykktar tveggja síðustu landsfunda Sjálfstfl. um byggðamál, en þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Skynsamleg nýting fjármuna og arðsemisjónarmið skulu höfð að leiðarljósi í stjórnun og framkvæmd byggðamála sem annarra þjóðmála. Jafnframt skulu þó hafðir í huga landfræðilegir staðhættir og það, hve hin strjála byggð víðs vegar um landið er viðkvæm fyrir hvers konar sveiflum. Áherslu verður að leggja á það að skapa ný atvinnutækifæri til hliðar við hinar hefðbundnu atvinnugreinar til sjávar og sveita.“

Þessi ályktun Sjálfstfl. segir í raun það sem ég þarf að segja og segja þarf um byggðamálin. Við viljum treysta íslenskar byggðir og íslenskt atvinnulíf um landið allt, þar sem lífvænleg skilyrði eru á annað borð fyrir hendi. Ég lít á þetta mál, sem hér er til umfjöllunar, kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, sem dæmigert byggðamál sem ég hef fulla samúð með. Í því felast þó í hinni upphaflegu gerð frv., margir alvarlegir óvissuþættir sem og í lokaskýrslu verkefnisstjórnar iðnrn. sem frv. byggist á. Þær brtt., sem komið hafa frá hv. iðnn., gera málið í rauninni að alveg nýju máli þar sem það er nú orðið fyrst og fremst mál til undirbúnings stórframkvæmd í stað upphaflega frv. sem sló því hættulega föstu, hvernig að því skyldi staðið, án þess að nógu miklar rannsóknir og athuganir hefðu farið fram áður. Mig langar til að benda hér aðeins á örfá atriði sem raunar komu fram í ræðu hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar flest hver, en ég tel mjög þung á metunum hér, og það fyrsta, sem ég tel upp, er því miður heldur neikvætt.

Ein meginstaðreynd málsins er óneitanlega sú, að áætlaður stofnkostnaður, og við skulum ætla að hann fái staðist, er um 750 millj. kr. Það er bent á í umsögn um málið að svo til öll fjárhagsleg áhætta er felld á ríkissjóð og erlend lán. Það er svo sem ekki alveg nýtt þegar um svo stóra framkvæmd er að ræða, en það er lakara að raunveruleg framkvæmda- og fjármögnunaráætlun liggur alls ekki fyrir enn.

Í öðru lagi skal bent á að rekstraráætlun verkefnisstjórnar iðnrn. byggist á óbreyttu verðlagi miðað við 1. mars 1982, sem auðvitað virðist fullkomið óraunsæi og hreint og beint óvönduð vinnubrögð.

Þegar vikið er að orkumálaþættinum má benda á álit Seðlabanka Íslands í því efni, sem bendir á það með réttu í umsögn sinni, að forsenda fyrir stofnun verksmiðjunnar sé að raforka sé fyrir hendi. Í umsögn Landsvirkjunar er bent á að nauðsynlegt sé að samningar takist milli ríkisins og Landsvirkjunar um Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og Búrfellsvirkjunar, eigi verksmiðjan að taka til starfa 1985, eins og ráð er fyrir gert, þar sem líka Blönduvirkjun verði ekki komin í rekstur fyrr en árið 1987 eða 1988. Þá er einnig minnst á í umsögn Þjóðhagsstofnunar að flýta þurfi Sprengisandslínu um 2–3 ár. Ekkert af þeim framkvæmdum, sem þarna er bent á að séu nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að hefja rekstur verksmiðjunnar, ekkert af þessum málum er enn á undirbúningsstigi nema að litlu leyti, og um Blöndu vitum við hvernig hefur farið í eilífum drætti á ákvarðanatöku. Leggja verður áherslu á, segja þeir hjá Landsvirkjun enn fremur, að á þessu stigi málsins verður ekkert fullyrt um rafmagnsverð til verksmiðjunnar vegna óvissu um framvindu í orkumálum á næstu árum. Þetta þarf ekki að koma á óvart eftir aðgerðaleysi undanfarinna ára í orkumálum. Jafnvel sjálf verkefnisstjórn iðnrn. gerir í skýrslu sinni ráð fyrir einhverri orkuskerðingu til verksmiðjunnar fyrstu árin vegna þess að nýjar virkjanir eru þá væntanlega ekki komnar í gagnið.

Í fjórða lagi, að því er varðar umhverfismálin, má það merkilegt heita, að nú þegar lagt er fram frv. sem felur í sér ákvörðun um stofnun þessarar verksmiðju við Reyðarfjörð er bent á að ekki hafi enn farið fram forrannsókn varðandi umhverfisvernd á þessu svæði, Sómastaðalandi og Mjóeyri, þar sem mannvirkin skuli rísa.

Ég hef drepið hér á fáein atriði sem mér varð hvað starsýnast á í athugun minni á málinu af hinum fjölmörgu umsögnum sem hv. iðnn. hafði undir höndum. Hér hef ég talið upp þau atriði málsins sem mér fundust hvað veikust. En málið hefur einnig sínar ljósu hliðar sem betur fer. Flestum umsagnaraðilum um málið ber saman um að kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði sé þrátt fyrir allt vænlegur kostur. Hafnaraðstaða er sérlega góð. Líkur eru taldar á að hægt sé að nýta afgangsorku til fjarvarmaveitna á Reyðarfirði og Eskifirði. Byggingarframkvæmdir munu veita allt að 300 manns atvinnu á meðan hæst stendur og verksmiðjan á stofn komin um 130 manns að jafnaði. Þannig eru allar líkur á að þetta fyrirtæki geti orðið lyftistöng fyrir atvinnulíf á Austfjörðum, þótt einhver hætta kunni að vera á að hún dragi til sín fólk úr jaðarbyggðum kjördæmisins, eins og bent er á í umsögn Framkvæmdastofnunar.

Það kom fram hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni og ég tek eindregið undir það, að það er gleðiefni að með þessari verksmiðju er stóriðjufyrirtækjum dreift um landið, í landshluta þar sem ekkert slíkt er fyrir. Þannig þarf það að sjálfsögðu að vera svo að allir landsmenn njóti góðs af. En það, sem greinilega er gagnrýnisverðast við þetta frv. eins og það var lagt fyrir, og sú gagnrýni gengur raunar eins og rauður þráður í gegnum umsagnir um málið, er ónógur undirbúningur og rannsóknir. Allar tímasetningar undirbúnings eru allt of naumar og athuganir ekki komnar á það stig að tímabært sé að taka lögfestar ákvarðanir innan þeirra tímamarka sem frv. gerir ráð fyrir. Þessi ófullnægjandi undirbúningur nær til svo að segja allra þátta málsins, eins og ég og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson höfum drepið á. En með þeim brtt., sem fyrir liggja og ég, sem hér stend, á aðild að, geri ég mér vonir um að þetta geti orðið gott mál og þeim byggðarlögum og landinu öllu til þeirra hagsbóta og Sómastöðum ég Sómastaðagerði til þess sóma sem að er stefnt.