04.05.1982
Efri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4658 í B-deild Alþingistíðinda. (4466)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur tekið þetta frv. til meðferðar af samviskusemi og athugað það, m. a. fengið á sinn fund bæði hæstv. dómsmrh. og biskupinn yfir Íslandi, svo að ekkert væri til sparað að komast að réttri niðurstöðu í störfum nefndarinnar. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Ég vil til að byrja með vekja athygli á því, að í 2. gr. frv. segir: „Á kirkjuþingi eiga sæti 21 kjörinn þingfulltrúi.“ Hér er um prentvillu að ræða, á greinilega að vera 20 þingkjörnir fulltrúar. Það sjá menn ef menn leggja saman viðeigandi tölur í frv.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni þessa frv. Ég þykist vita að eftir 1. umr. hér í deild sé það öllum hv. þdm. vel kunnugt. En mér þykir rétt að láta þess getið, að það hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvað þær breytingar, sem frv. felur í sér þýði mikið aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Af þessu tilefni hefur hagsýslustofnun látið nefndinni í té upplýsingar sem mér þykir rétt að greina hér frá. Þar segir: Kostnaðarauki af eftirtöldum breytingum á núgildandi lögum:

1. Fjölgun kirkjuþingsmanna úr 17 í 22.

2. Þing kemur nú saman annað hvert ár og stendur í allt að 14 daga. Samkv. frv. kæmi þing saman á hverju ári og stæði í allt að 10 daga.

Þá segir næst í skjalinu, sem við höfum fengið frá hagsýslustofnun, að kostnaður vegna síðasta kirkjuþings, sem haldið var í nóv. 1980, hafi verið sem hér greinir:

1. Þingfararkaup, 160 kr. á dag.

2. Dagpeningar voru greiddir samkv. reglu ferðakostnaðarnefndar, sem þá voru 260 kr. á sólarhring.

3. Ferðakostnaður var greiddur til þeirra er bjuggu utan Reykjavíkur. Miðað var við að flugfargjöld eða fargjöld almenningsvagna á leiðum þar sem haldið er uppi reglulegum ferðum, en annars greitt í samræmi við greiðslu fyrir afnot einkabifreiða í ríkisþjónustu.

Samanlagt nam kostnaður vegna framangreindra liða 92 915 kr.

4. Vélritunar- og prentunarkostnaður o. fl. nam í nóv. 1980 ca. 64 437 kr.

Kem ég þá að kafla í skýrslunni um mat á kostnaðarauka. Þar segir:

1. Þingfararkaup eykst um ca. 73%.

2. Dagpeningar aukast á sama hátt um 73%.

3. Ferðakostnaður eykst um 100%. Fjölgun kirkjuþingsmanna í Reykjavíkur- og Kjalarnesprófastsdæmi um fjóra hefur sáralítil áhrif á þennan lið. Aðeins skiptir máli að þing kemur saman einu sinni á ári í stað þess að nú kemur það saman annað hvert ár. Ferðakostnaður er um 11% af samanlögðum kostnaði samkv. framangreindum liðum. Framangreindir liðir hækka því um ca. 76%. Hér er ekki gert ráð fyrir hugsanlegum kostnaði vegna setu áheyrnarfulltrúa, þ. e. vígslubiskupa og kirkjuráðsmanna.

4. Kostnaður vegna vélritunar, prentunar o. fl. gæti aukist um ca. 90%.

Samkv. framansögðu gæti samanlagður kostnaður vegna kirkjuþings aukist um ca. 82% ef umrætt frv. yrði að lögum, það frv. sem við hér ræðum.

Þá vil ég að lokum tilgreina hér það sem segir í skýrslu hagsýslustofnunar. Það er kostnaður 1980: Þingfararkaup, dagpeningar og ferðakostnaður 92 915 kr. Vélritun, prentun o. fl. 64 437 kr. Samtals 157 352 kr. Hækkun um 82% gerir 129 028 kr. Samtals kemur þá út 286 380 kr. Það er sá kostnaður sem frv. hefur í för með sér.

Herra forseti. Ég hef greint svo glöggt frá þessum upplýsingum hagsýslustofnunar vegna þess að í menntmn. voru menn sér mjög meðvitandi um það, að frv. fæli í sér verulega aukinn kostnað, og sérstaklega hafði verið óskað eftir upplýsingum um þetta. Ég hygg að það hafi verið gert við 1. umr. af hv. 4. þm. Reykn., hv. formanni fjvn. Mér var gert af hálfu nefndarinnar að greina sem gleggst frá þessu í framsögu fyrir nál. Það má segja að það hefði verið gott að birta þetta sem fskj. með nál., en hér gerist allt fljótt og við gripum til þessa ráðs.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um nál. Ég sagði í upphafi að nefndin hefði öll samþykkt að mæla með frv. þannig að það yrði samþykkt óbreytt, en mér láðist að geta þess, að einn nm., Karl Steinar Guðnason, skrifar undir nál. með fyrirvara.