04.05.1982
Efri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4660 í B-deild Alþingistíðinda. (4468)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Afgreiðsla þess frv., sem hér er til umr., er gott dæmi um það, að vinnubrögðin hér á Alþingi í lok þings eru oft ekki þinginu sæmandi. Virðast sum ráðuneytin jafnvel vera farin að nota sér hvað gerist hér í þinglok ærið oft. Þau sjá sér leik á borði að leggja mál ekki fyrir í tæka tíð þannig að þm. gefist tækifæri til að kanna þau frá öllum hliðum, heldur virðist að ráðuneytin kjósi heldur að bíða eftir því, að færibandið hér á Alþingi komist á fulla ferð, þá þurfi ekki annað að gera en að henda frv. inn á það og þá berist þau í gegn án þess að nokkur komi neinum vörnum við eða skoði málin frá þeim sjónarmiðum sem þarf að gera, bæði varðandi kostnað og ýmislegt annað sem frv. fylgir. Það er eins og stundum áður, að þm. gerist mjög rausnarlegir í þinglok.

Þegar þetta frv. var lagt fram fylgdu því engar upplýsingar um kostnað sem hlytist af samþykkt þess, en ég óskaði eftir því að aflað yrði upplýsinga um hann. Nú hefur verið greint frá honum, án þess þó að það væri gert á þann hátt að þd. hefði aðstöðu til að meta hann í ró og næði. Hefði verið eðlilegast að birta tölur, sem hér voru lesnar, í nál. sem fskj. þannig að málið yrði ekki keyrt svona í gegn. Þrátt fyrir ákvæði Ólafslaga um þá skyldu að frv., a. m. k. stjfrv., fylgi upplýsingar um kostnað var því ekki til að dreifa um þetta frv. Hv. frsm. nefndarinnar lýsti því þó yfir, að ekkert hefði verið til sparað við störf nefndarinnar. A. m. k. hafa verið kallaðir á fund hennar þeir þrýstihópar sem mesta áherslu leggja á að fá frv. samþykkt. Í ljós kemur að samþykkt þess hefur í för með sér 82% hækkun á þessum útgjaldatíð ríkisins, og það virðist ekki standa í mönnum að samþykkja það síðustu daga þingsins. Ég tel að það sé tilgangslaust að reyna að fá því framgengt að afgreiðslu frv. verði frestað, sem eðlilegast væri, og jafnvonlaust að leggja fram till. um að það verði fellt. En til þess að fá það aðeins bætt hef ég samt í hyggju að flytja hér skriflega brtt. í þá átt, að í stað þess að kirkjuþing skuli haldið hvert ár, eins og segir í 1. gr., komi orðin: annað hvert ár.

Ég get ekki sé annað en að með samþykkt þessa frv. sé öðrum guði betur þjónað en guði þjóðkirkjunnar. Mér sýnist þetta vera frv. um dýrkun á Mammon. Ég leyfi mér að leggja fram skriflega brtt. svohljóðandi: „Við 1. gr. Í stað orðanna „ár hvert“ komi: annað hvert ár.“ Fæ ég forseta þessa till. til fyrirgreiðslu.