04.05.1982
Efri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4661 í B-deild Alþingistíðinda. (4470)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykn. var að ljúka máli sínu og var öll hans ræða á þann veg, að hún bar vott um þá aðhaldssemi sem hann er vanur að viðhafa varðandi útgjöld ríkisins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hv. 4. þm. Reykn. bendir okkur á slíkt. Mér hefur alltaf fundist að hann væri mjög sannur og hollur hinum fornu dyggðum, sem við oft vitnum til í þessu efni, og góður íhaldsmaður í góðri merkingu þess orðs. Ég held að ég verði að gera þá játningu hér, að ég hef stundum sagt þetta í mínum þingflokki þegar ég hef sérstaklega viljað stuðla að íhaldssemi við afgreiðslu tiltekinna mála. Ég skil þess vegna mjög þau viðhorf sem hv. 4. þm. Reykn. lýsti hér. Ég skil það sem hann talaði um vinnubrögð þingsins á síðustu dögum þess. Að mínu viti var það allt rétt. En það á við fleiri en þetta mál, og ég veit að við erum sammála um það.

Hv. þm. sagði að við í menntmn. deildarinnar gerðumst rausnarlegir í þinglok með því að samþykkja að mæla með frv. sem felur í sér 82% hækkun útgjalda á ári. Já, það má segja að þetta sé rausnarlegt. Það má segja að það sé rausnarlegt með tilliti til þess að þetta sé í þinglok. En ég verð nú að segja það, að ég hygg að þrátt fyrir sinn góða vilja hafi hv. 4. þm. Reykn. verið enn þá rausnarlegri en menntmn. á þessu þingi og þurfti þó ekki þinglok til. Ég hygg að hann hafi gert það mjög að yfirlögðu ráði. Hér kom fram í máli hv. 3. landsk. þm. að á þessu ári hefðu framlög til ráðuneytanna hækkað um 90%, þannig að við í hv. menntmn. erum ekki einir á báti í þessu efni, þó að hækkað sé.

Hv. 4. þm. Reykn. hefur borið fram till um breytingu á þessu frv. sem felur í sér að kirkjuþing komi saman annað hvert ár, eins og verið hefur og er samkv. gildandi lögum, en ekki hvert ár eins og frv. gerir ráð fyrir. Það er eitt af meiri háttar atriðum þessa frv. að breyta þeirri tilhögun sem verið hefur, hverfa frá því, að kirkjuþing komi saman annað hvert ár, og taka upp þá skipan að það komi saman á hverju ári. Það eru augljós rök fyrir þessu frá sjónarmiði þjóðkirkjunnar. Við ræddum þetta atriði sérstaklega við þá aðila sem hv. 4. þm. Reykn. kallar þrýstihópa. Hv. þm. talaði um þrýstihóp þar sem væri biskupinn yfir Íslandi annars vegar og þrýstihóp þar sem væri dómsmrh. Við ræddum þetta sérstaklega í dag við þessa þrýstihópa og þrýstihóparnir lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi þessa atriðis. Þess vegna mæltum við í menntmn. með því, að frv. yrði samþykkt óbreytt og tekin yrði upp sú skipan að kirkjuþingið kæmi saman á hverju ári. Ég leyfi mér þess vegna að mæla gegn brtt. hv. 4. þm. Reykn. og vænti þess, að hv. dm. verði menntmn. sammála um að samþykkja frv. óbreytt.