04.05.1982
Efri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4663 í B-deild Alþingistíðinda. (4473)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir þau viðurkenningarorð sem féllu í minn garð fyrir að hafa nokkrum sinnum verið frsm. fyrir áliti menntmn. um málefni kirkjunnar. En mér þykir jafnvel við hæfi að ég fari viðurkenningarorðum um hv. 11. þm. Reykv., sem er formaður menntmn. og að sjálfsögðu leiðir það starf sem nefndin vinnur. Ég vil sérstaklega láta þess getið, að þessi hv. þm. vann sitt verk í þessum efnum af sérstakri röggsemi varðandi þetta mál. Við héldum fund í gær, við höfum haldið tvo fundi í dag, og ég veit að hv. þm. hefur ekki viljað láta neins ófreistað til að koma málinu í höfn. Ég taldi að okkur hefði miðað mjög áleiðis í því efni þegar nefndin mælir einróma með að frv. verði samþykkt óbreytt. Menn verða svo að meta það hver fyrir sig, hvaða merkingu menn leggja í það að samþykkja frv. óbreytt.

Hv. 4. þm. Reykn. gat um að sá samanburður, sem hér hefði verið gerður á hækkun kostnaðar samkv. frv. við kirkjuþing annars vegar og kostnaðarauka við ráðuneytin, væri ekki raunhæfur. Hann gaf sínar skýringar á því og ég tek þær að sjálfsögðu gildar. Í mínum huga er það ekki neitt aðalatriði í þessu efni, þegar um er að ræða þjóðkirkju Íslands, hvað ráðuneytin hafa hækkað í fjárgreiðslum á tilteknu ári. Við skulum hafa það í huga, að við berum sérstakar skyldur við þjóðkirkju Íslands. Þær skyldur byggjast m. a. á tilteknu ákvæði stjórnarskrárinnar. Þar er ákveðið að við skulum hafa þjóðkirkju. Menn tala núna um að það sé ofrausn. Ég hygg að menn ættu að athuga það nokkru betur. Ef við ætlum að fara að tala um fjármál í sambandi við þjóðkirkju Íslands, þá yrðu það nokkuð langar umræður. Þá hljótum við náttúrlega að gera okkur grein fyrir að ríkissjóður stendur í óbættri skuld við þjóðkirkjuna eftir yfirtöku kirkjujarðanna og allra eigna þjóðkirkjunnar.

En þetta er ekki bara fjárhagsmál. Þetta er mál sem er miklu þýðingarmeira, kristnin í landinu og efling þjóðkirkju Íslands. Þegar við leggjum nokkrar krónur til þessara mála erum við að leggja fram fjármuni sem mölur og ryð fá ekki grandað, en í flestum tilfellum fær mölur og ryð grandað því sem við erum að leggja fjármuni í. (ÓRG: Það hefur enginn þm. barist eins hart gegn frv. um kirkjuþing og Þorvaldur Garðar í ræðustól.) Ég þakka hv. 11. þm. Reykv. og formanni okkar ágætu menntmn. þessa athugasemd. Auðvitað er það rétt sem hv. þm. segir, en það er aðeins til þess að undirstrika það, að menn ættu að taka mark á því, sem ég segi nú, því að ég mun ekki skirrast við að standa gegn ályktun kirkjuþings ef mér þykir svo við horfa. En með því að hér hefur komið fram brtt. og umræðum er að ljúka og vegna þess að það er sjaldgæft að við höfum hér á þingbekkjum það sem í þessum umræðum hefur verið kallað þrýstihópur, vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann hafi ekkert fram að færa í þessum umræðum.