05.05.1982
Neðri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4667 í B-deild Alþingistíðinda. (4493)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Í 2. gr. þessa frv., sem var samþykkt áðan, er mörkuð sú stefna þess, að væntanleg verksmiðja verði að meiri hluta til í ríkiseign. Sama sjónarmið kom fram í orðum hæstv. félmrh. rétt áðan. Ég tel í grundvallaratriðum rangt að ríkið noti skattpeninga borgaranna sem áhættufé í atvinnurekstri með því að eiga meiri hl. í fyrirtækjum sem þessu og t. d. Grundartangaverksmiðjunni sem lög voru samþykkt um á sínum tíma. Afstaða mín nú er í samræmi við afstöðu mína þá. Hins vegar lít ég svo á að ríkinu beri vitanlega að vinna að fjölbreyttara atvinnulífi með skynsamlegum orkuvirkjunum og stóriðju, efla frumkvæði einstaklinga í þessum efnum sem öðrum atvinnurekstri, stuðla að hagkvæmum og hagstæðum samningum við erlenda aðila og innlenda um orkusölu, aðstöðu, vinnuafl og fleira þar sem hagsmuna Íslendinga sé gætt í hvívetna. Hv. Nd. hefur að mínum dómi þegar tekið afstöðu til eignaraðildar væntanlegrar verksmiðju. Ég er andvíg þeirri afstöðu og þess vegna get ég ekki greitt atkv. með frv. eins og það er nú. Raunar er þessu máli ábótavant í fleiru. Af þessum ástæðum, sem ég hef greint, tek ég ekki þátt í því að styðja þetta frv. og sit hjá við atkvgr.