05.05.1982
Neðri deild: 85. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4668 í B-deild Alþingistíðinda. (4499)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Nokkru eftir miðnætti s. l. nótt var þetta mál tekið til umr. og urðu þá allítarlegar umr. um málið. Ég gerði mjög að umtalsefni við þær umr. að af þeim gögnum, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram um áform í nýiðnaði, er ljóst að Eyjafjarðarsvæðið á að sitja eftir. Mér er það ekkert launungarmál, að ástæðan fyrir því, að Eyjafjörður er nú skilinn út undan í sambandi við nýiðnað, er m. a. sú, að ýmsir af þm. kjördæmisins, svo sem hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, að ekki sé talað um 4. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, hafa með öllum ráðum beitt sér gegn því, að raunhæf athugun gæti farið fram á því, hvernig hægt væri að byggja upp nýiðnað og nýjan atvinnurekstur á Akureyri. Um þetta er glöggt vitni heldur ósmekklegur og strákslegur leiðari sem birtist í Degi hinn 2. apríl s. l. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þau skrif, en þau bera með sér hvaðan þau eru ættuð, og víst er það, að tilgangurinn á bak við skrifin er fyrst og fremst að koma upp úlfúð og sundurlyndi milli Norðlendinga og sér í lagi Eyfirðinga um hvernig hægt sé að sporna við þeirri þróun, að byggðarlögin annars staðar á landinu gangi á undan í atvinnuuppbyggingu, en Eyjafjarðarsvæðið sitji eftir. Það kom líka fram í ræðu hæstv. iðnrh. nú í nótt, að hann á erfitt um vik af þeim sökum að hann sagðist ekki geta troðið nýiðnaðarfyrirtækjum upp á Eyfirðinga, ef Eyfirðingar vildu ekki fá þau væri ógerningur fyrir ríkisvaldið að taka fram fyrir hendurnar á þeim.

Hæstv. iðnrh. gat um það í sinni ræðu, að hann hefði skipað sérstaka iðnþróunarnefnd í Eyjafirði. Í helgarblaði Þjóðviljans 1.–2. maí s. l. er viðtal við formann hennar um þau viðhorf sem hann hefur til eflingar atvinnulífs á Eyjafjarðarsvæðinu. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að hafa ummæli hans hér eftir:

„Okkar verk er að ganga úr skugga um hvaða leiðir eru til úrbóta, raunhæfar leiðir. Það er enginn vandi að segja sem svo: Stækkum Sambandsverksmiðjurnar. En ef á sama tíma er verið að draga úr landbúnaði, þá eru það ekki raunhæfar tillögur. Eins er hægt að leggja til að stækka Slippstöðina, en varla er það raunhæft ef ekki á að byggja fleiri fiskiskip í bráð. þessum málum dugar eingin draumsýn, tillögurnar verða að vera raunhæfar. Ég tel það t. a. m. vera raunhæft að leggja til að farið verði út í frekari nýtingu og vinnslu sjávarafurða því þar eigum við vissulega möguleika. Þá höfum við einnig lagt til að hafist verði handa um endurnýjun togaraflota Akureyrar og að skipin verði smíðuð í Slippstöðinni á Akureyri. Eins og er á Útgerðarfélagið fimm skip, þar af eitt gamalt og lúið, en fjögur sæmileg, og það kemur að því að huga þarf að endurnýjun þeirra.“

Svo mörg voru þau orð. Ekki lýsa þessi ummæli formanns iðnþróunarnefndar mikilli bjartsýni á framtíð byggða Eyjafjarðar, og ekki er mikið hugmyndaflugið um það, hvaða leiðir séu þar helst til úrbóta. En þetta er svo sem í samræmi við annað sem frá þessum flokki hefur komið varðandi þetta svæði.

Ég vek sérstaklega athygli á því, að formaður iðnþróunarnefndar tekur það fram, hversu illa sambandsverksmiðjurnar á Akureyri eru í stakk búnar til þess eins og sakir standa að taka við nýju fólki sem kemur á atvinnumarkaðinn. Hann segir berum orðum að sú leið sé ekki lengur fær. Þetta er mat þessa manns, sem er fulltrúi meiri hl. bæjarstjórnar Akureyrar í þessari nefnd, fulltrúi þess meiri hl. sem hv. 2. þm. Eyf. segist þó styðja.

Í þessu sama blaði er viðtal við Torfa Sigtryggsson sem verið hefur einn af forustumönnum Sambands byggingamanna nú um nokkurra ára skeið. Hann segir svo — með leyfi hæstv. forseta — um ástandið á atvinnumarkaðinum á Akureyri:

„Hins vegar er því miður ekki hægt að segja að útlitið sé jafnbjart fram undan. Það er allt of lítið byggt núna í Eyjafirði og við berum ugg í brjósti um að það leiði til samdráttar og e. t. v. atvinnuleysis hjá okkur í vetur.“ Þá er spurt: „Hvað veldur þessum samdrætti, Torfi?“ Og hann svarar, með leyfi hæstv. forseta: „Það eru auðvitað margir þættir sem hér koma til. Hin mikla uppbygging liðinna ára hefur mikið stafað af því að menn hafa verið að stækka við sig, en nú má segja að því skeiði sé að ljúka. Fólksfjölgunin er ekki meiri en svo að hún ein beri uppi jafnmiklar byggingarframkvæmdir. Svo er annað atriði sem verður að nefna, og það er samdráttur í framkvæmdum við verkamannabústaði. Sú mikla aukning, sem varð á s. l. ári, virðist ekki ætla að halda áfram og það leiðir einnig til samdráttar í vinnu.“

Þannig er það ekki aleinasta svo að þessi ríkisstj. og þeir, sem að henni standa, láti Eyjafjarðarsvæðið vera algerlega á hrakhólum í sambandi við nýiðnaðaruppbyggingu, heldur eigum við líka að gjalda þess í sambandi við þau framkvæmdaáform sem nú eru uppi um verkamannabústaðina. Þessu er hér lýst yfir af manni sem gerst má vita og ekki þarf um það að véla hér, hvort hann fari þar rétt með eða ekki, einkavinur allra þeirra manna sem með stjórn þessara mála fara, enda hafa ýmsir byggingamenn á Akureyri á síðustu mánuðum orðið að leita sér vinnu í öðrum landsfjórðungum, á Snæfellsnesi, við Reykjanes. Hvarvetna þar sem vinna býðst eru Akureyringar efstir á blaði með sín fyrirtæki að reyna að lifa af þetta hungurskeið sem nú ríkir í sögu eyfirskra byggða.

Fulltrúi Sjálfstfl. í atvinnumálanefnd sá sig tilneyddan að svara skætingsleiðara Dags og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem allur þorri manna á Akureyri hefur til atvinnumála þar og þeirra möguleika sem þar eru nú til staðar. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og telur hér upp sjö áhersluatriði, sem honum eru efst í huga í sambandi við atvinnumálin:

„1. Sérhver þjóð, sem vill skapa velsæld fyrir þegna sína, verður að nýta sér þær náttúruauðlindir sem hún hefur. Við eigum fyrst og fremst tvær auðlindir, þ. e. fiskimiðin og orkuna. Að því er sérfræðingar segja eru fiskimiðin nánast fullnýtt, en þau hafa allt fram á þennan dag staðið undir þeirri velsæld og þeim framförum sem hér hafa orðið. Hins vegar höfum við aðeins nýtt um 7–8% af orkuauðlindinni og augljóst er að það er hún sem fyrst og fremst verður að standa undir þeim mannafla sem á vinnumarkaðinn kemur á næstu árum. Sumir segja að orkan, sem við eigum í fallvötnum og jarðvarma, sé auðlind sem megi jafna saman við öll fiskimiðin.

2. Orkan eins og hún er í ám og fallvötnum er einskis virði ef hún er ekki beisluð, og þó svo sé gert verður hún ekki flutt út sem slík. Það þarf að breyta henni í framleiðsluvöru, en sú vara verður síðan flutt út og skapar okkur gjaldeyristekjur. Þetta er það sem átt er við þegar talað er um orkuiðnað.

3. Samkvæmt þeim niðurstöðum, sem fyrir liggja, munu um 20 þús. manns bætast við vinnumarkaðinn á Íslandi á næstu 15 árum. Ef Eyjafjarðarsvæðið ætlar að halda sínum hluta munu um 2–3 þúsund þurfa að fá atvinnu hér á þessum tíma. Það er augljóst að fiskveiðarnar og fiskiðnaðurinn taka við afmörkuðum fjölda þess fólks. Má á það benda að aðeins fjölgaði um rúmlega 4000 manns í þessum greinum á tímabilinu 1963–1979, einmitt á þeim tíma sem við höfum verið að stórauka eigin nýtingu fiskauðlindarinnar. Á sama tíma jókst mannafli í iðnaði um 6000 og er þá stóriðja tekin með, en hún tók þar við 1000 manns. Við þjónustu starfa nú um 50% þjóðarinnar og ef við ætlum að auka það hlutfall leiðir það ekki til neins annars en stöðugt aukinna skatta og verri lífskjara.

4. Orkulindirnar hljóta að verða nýttar. Nú þegar eru uppi áform um að stíga fyrstu skrefin í áframhaldandi virkjunarframkvæmdum, og þar sem orkan verður ekki flutt út sem slík verða að rísa orkufyrirtæki sem nýta hana og breyta henni í útflutningsvöru. Orkufyrirtæki þessi verða byggð á eftirtöldum fjórum stöðum, einhverjum eða öllum: Suðurlandi, Suðvesturlandi, Eyjafirði og Reyðarfirði. Reyðarfirði hefur þegar verið ráðstafað þannig að eftir standa Suðurland og Norðurland. Ef við höfnum þessum möguleika er hætt við að við drögumst aftur úr og þetta aðalmótvægi við þéttbýlið verði ekki tengur fyrir hendi. Orkufyrirtækin risa þá á Suðurlandi og það raskar byggðajafnvæginu meira en nokkru sinni fyrr.

5. Álframleiðsla verður að öllum líkindum sú framleiðsla sem vænlegust verður í nánustu framtíð. Kemur það fyrst og fremst til vegna aukinnar eftirspurnar eftir áli á næstu árum þar sem eiginleikar þess eru fjölbreyttir og ál stendur mjög vel í orkusamhenginu.

6. Orkufyrirtækin hafa sýnt sig að vera öruggir vinnustaðir og kjör þau sem þar eru til staðar eru með þeim bestu sem gerast í landinu. Ýmis annar minni iðnaður hefur einmitt átt erfitt uppdráttar, ekki síst í sjávarbæjunum, vegna þess að hann er ófær um að keppa við fiskiðnaðinn í kjörum.

7. Nútímatækni varðandi takmarkanir á mengun og umhverfisvernd hefur gert það að verkum að orkuiðnaðurinn skaðar umhverfið nánast ekki neitt og alls ekki meira en hver annar iðnaður. Er þá bæði átt við mengun innan og utan iðjuversins. Mengun og umhverfisspjöll eru að sjálfsögðu þau atriði sem við hér í Eyjafirði þurfum mest og best að vera vakandi fyrir og þess vegna verður að gera kröfu til þess, að besti fáanlegi frágangur í þessum efnum sem öðrum verði viðhafður. Þessi atriði liggja fyrir og þetta þarf aðeins að kynna og ræða hleypidómalaust. Hvað segir fólk. t. d. við því, að það flúormagn sem féll til jarðar á Norðurlandi í Heklugosinu fyrir tveim árum er jafnmikið og 130 þús. tonna álverksmiðja mundi skila á 80 árum miðað við að hún væri búin nútímahreinsitækjum?“

Svo mörg voru þau orð. Ég vil í þessu sambandi enn fremur minna á það, að svo virðist sem stuðningsmenn ríkisstj., sem eiga að heita þm. fyrir Norðurland eystra, geti vel sætt sig við að orkufrekur iðnaður rísi á Húsavík, eins og Húsavík sé samkv. þeirra skilningi eitthvert annars flokks pláss sem frekar þoli að mengast en Eyjafjörður. Þetta eru sjónarmið sem ég get ekki fallist á og fyrirlít.

Ég vil líka rifja það upp, að það voru þm. úr Norðurl. e. sem m. a. stóðu á bak við tjöldin á móti því, þegar rætt var um Blönduvirkjun, að Eyjafjarðarsvæðið yrði þar sérstaklega fram tekið í grg. Þetta kemur af því að einhverjir afturhaldssömustu menn þingsins í atvinnumálum eru um þessar mundir fulltrúar Norðurl. e. og byggðir Eyjafjarðar eru að gjalda þess núna. Ég bíð bara eftir því að heyra hv. 2. þm. Norðurl. e. koma hér upp í ræðustólinn á eftir og tala um að það eigi að framleiða meiri mjólk og það eigi að framleiða meiri ost á Ameríkumarkað. Hvernig fór þegar flokksbróðir hans var landbrh. síðast? Það fór þannig, að fyrir handvömm kastaði hann og týndi þeim ostamarkaði sem mjólkursamlagið í Eyjafirði hafði þá í Ameríku. Síðan þetta gerðist hefur ekki verið um umtalsverðan útflutning á Óðalsosti að ræða frá Mjólkursamlagi Eyfirðinga og er það þó eitt fullkomnasta mjólkursamlag á öllum Norðurlöndunum. Hvernig fer fyrir honum og hans líkum núna, þegar þeir eru að tala um að það eigi að byggja upp iðnað í sambandi við sauðfjárframleiðsluna? Þannig er búið að sauðfjárbændum að óvíst er að við getum flutt eitt einasta kjötkg út úr landinu nú í haust nema með slíku tapi að bændur fái ekkert í sinn hlut og ríkið verði að fullu að greiða bændum þeirra hlut af kjötframleiðslunni. Hver voru ummæli hæstv. landbrh. um daginn, þegar hann talaði um landbúnaðarmálin? Þá sagði hann að hann vildi ekki að svo stöddu gera það að tillögum sínum að fækkað yrði sauðfé. (Gripið fram í: Það er kísill á dagskrá, forseti.)

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég sagði hér í nótt, að það er síður en svo að við Norðlendingar horfum neinum öfundaraugum til þeirra Reyðfirðinga. Við öfundum þá að vísu af því, hvað það er sterk samstaða heima fyrir, sem hefur þrýst á þm. að standa sig vel í því máli. Þeir hafa barist hraustlega fyrir því, að orkufrekur iðnaður verður þar settur niður og sá draumur verður að veruleika, þótt Reyðarfjörður sé út af fyrir sig ekki jafnhentugur staður til slíkra hluta og Eyjafjörður. Ég óska þeim til hamingju með það. Það er öfundarlaust af minni hálfu og ég styð þá í þeirri baráttu. En ég vil á hinn bóginn aftur ítreka það, að ég sætti mig ekki við það baráttulaust, að Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið verði gert að láglaunasvæði, fólk hafist þar illa við og það unga fólk, sem kemur inn á atvinnumarkaðinn, fái ekki þau atvinnutækifæri sem það á skilið og vill fá. Það er kjarni málsins. Um það snýst atvinnupólitíkin núna, einmitt þetta, að landið allt, allar byggðir landsins eiga að fá tækifæri til að byggja upp heilbrigðan rekstur. Eins og atvinnumálum hefur verið stjórnað hefur ekki verið um það að ræða.

Ég og hv. 2. þm. Norðurl. e. sátum ásamt öðrum þm. þessa kjördæmis mikinn fund sambandsverksmiðjanna í haust. Það var ekki fögur lýsing sem formaður SÍS og framkvæmdastjóri verksmiðjanna gaf á þeim atvinnuskilyrðum sem þeim var ætlað að starfa eftir. Ég man eftir því, að hæstv. menntmrh. varð sér þá til skammar með því að segja að forustumenn samvinnuhreyfingarinnar mættu ekki segja sannleikann um atvinnuástandið. Fyrir þau ummæli fékk hann lítið hrós hjá því fólki í verksmiðjunum sem hefur verið að missa atvinnu sína eða dregið hefur úr atvinnumöguleikum þess. Við bíðum þess nú, þm. Norðurl. e., að verða aftur kallaðir á fund með forustumönnum samvinnuhreyfingarinnar til að ræða stöðu þessara verksmiðja nú, því að það liggur fyrir og það veit hv. 2. þm. Norðurl. e. rétt eins og ég, að við þau rekstrarskilyrði, sem nú eru, er ekki eyrir upp í þann halla sem varð á ullar- og skinnaiðnaðinum á s. l. ári. Og hvað er svo verið að tala um að ætla að byggja upp iðnað, útflutningsiðnað, í tengslum við sauðkindina, ef útflutningsiðnaðurinn má ekki bera sig og getur ekki endurnýjað sín framleiðslutæki?

Það mátti auðvitað deila um það og var kannske matsatriði, með hvaða hætti ætti að taka upp málefni Eyjafjarðar hér á Alþingi. Sú till., sem við lögðum fram, ég og hv. 3. þm. Norðurl. e., strax á öðrum eða þriðja degi þingsins um ítarlega könnun á atvinnuuppbyggingu fyrir Eyjafjarðarsvæðið, hefur ekki fengist afgreidd. Hún sofnar hér í nefnd. Ég kaus að taka þessi mál upp við þessa umr. nú vegna þess að andstaðan er svo mikil. Það er eins og hvítt og svart hvernig þeir menn, sem standa að núv. ríkisstj., hugsa um okkur Norðlendinga borið saman við Austfirðinga. Það er þm. Norðurlands til skammar að þeir skuli ekki hafa knúið það í gegn að orkufrekur iðnaður rísi á Norðurlandi samtímis því sem fullnaðarsigur vannst í Blöndumálinu. Með því hefur aðeins hálfur draumur Norðlendinga ræst. Hinn hlutinn stendur eftir og það verður knúið á um það, bæði af þm. Sjálfstfl. og af heimamönnum sjálfum, að þm. Framsfl. og þm. Alþb. breytist í þessu máli, þeir kasti fordómunum, þeir taki upp nútímasjónarmið, þeir hjálpi okkur hinum að vinna að því, að Eyjafjörður verði hér eftir sem hingað til það mótvægi við stór-Reykjavíkursvæðið sem eitt getur orðið til þess við nútímaskilyrði að við köfnum ekki undan ofurvaldi Suðvesturlandssvæðisins.