10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja mál mitt öðru sinni, en taldi mig til knúinn — eftir að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafði komið öðru sinni hingað í ræðustól — til þess að kveða dálítið skýrar að orði um meiningu mína, þannig að ég eigi ekki í því höfuð mitt í keltu hans, að hann útleggi niðurlag ræðu minnar eins og hann gerði áðan. Þegar til slíks kemur mun ég útvega mér annan túlk.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gat þess í stuttu máli áðan, með hvaða hætti Alþfl. hefði skilist við vinstri stjórnina eftir eitt ár eða 12 mánuði. Liggur því beint við að rifja upp í þessu sambandi, fyrst hv. þm. talaði um reginhneyksli í stjórnarstefnu varðandi myntbreytinguna, að í 12 ár sat Alþfl. kyrr í stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. Í 12 ár þjónuðu þeir Alþfl.-menn undir braskaralýðinn í landinu og framkvæmdu hvert reginhneykslið á fætur öðru, standandi í þessum ræðustól, krjúpandi á knjábeð fyrir framan íhaldið, sitjandi í þingsætum sinum, upp í loft og á grúfu þjónuðu þeir undir þá.