05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4683 í B-deild Alþingistíðinda. (4517)

30. mál, lyfjadreifing

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt nokkuð snemma á þessu þingi í Ed. og var leitað umsagnar um frv. hjá bæði Lyfjaeftirliti ríkisins, Lyfjatæknafélagi Íslands, lyfjatæknaskólanum, Læknafélaginu, Apótekarafélaginu, Félagi ísl. stórkaupmanna, Lyfjafræðingafélagi Íslands og samstarfsnefnd sjúkrahúsa og lyfjafræðinga. Enn fremur kom Ingolf Petersen deildarstjóri í heilbr.- og trmrn. á fund nefndarinnar og starfaði með henni. Nefndin í Ed. hafði því nægan tíma til að leita þessara umsagna allra og kynna sér efni frv. En það er ekki fyrr en 27. apríl s. l. sem nefndin í Ed. skilar nál. með fyrirvara. Þrátt fyrir þessa löngu umhugsun og þennan langa meðferðartíma skrifar meiri hl. n. undir nál. með fyrirvara. Ég þori að fullyrða að fimmti nm., sem skrifar fyrirvaralaust undir nál., hefur vafalaust aldrei sótt fundi nefndarinnar. Hins vegar má auðvitað fá úr því skorið með því að fletta upp fundargerðarbókum. En þar á ég við sjálfan hæstv. forsrh. sem á sæti í nefndinni.

Þessu máli er svo vísað til Nd. 30. apríl um leið og það er samþykkt frá Ed. og seint þann dag er því svo vísað til heilbr.- og trn. Nd. Það er 4. maí sem þetta frv. er tekið fyrir í heilbr.- og trn. Nd. Þetta frv. er upp á 62 lagagreinar og þar að auki fjögur ákvæði til bráðabirgða. Það var lagt mikið kapp á afgreiðslu þess af formanni nefndarinnar, þetta væri svo gott mál og svo margir væru búnir að fjalla um það og nefndin í Ed. væri búin að hafa það svo lengi að það mætti til með að afgreiða frv. strax. Það eru eftirlátir menn í nefndinni. Tveir fulltrúar Framsfl. létu undan síga og gengust undir að afgreiða frv. fyrir harðfylgi formanns nefndarinnar sem er margt betur gefið annað en láta flókið mál fá eðlilega þinglega meðferð, buna því heldur áfram „ef ráðh. minn“ eins og formaður nefndarinnar segir oft, leggur áherslu á það. Þessi vinnubrögð líkar okkur ekki, sem skrifum undir nál. minni hl. heilbr.- og trn.

Ég las auðvitað frv., eins og ég geri yfirleitt alltaf þegar frv. er lagt fram. Ég tel það vera þinglega skyldu í nefndum að mál fái efnislega meðferð. Þegar ég kom hér á þing þótti slíkt alveg sjálfsagt og lengi á eftir. Nú er þetta að breytast ört á seinni árum. Nú er þetta að verða alveg óþarfi. Þá lögðu menn sig fram við vinnu í nefndum, en núna eru menn í nefndum þings sem koma þar aldrei á fundi, en það er hlaupið með nál. til þeirra og þeir skrifa alveg umyrðalaust undir. Ég held að það sé rétt munað hjá mér, að einn nm. í heilbr.- og trn. Nd. hefur ekki mætt á einum einasta fundi þar í vetur, nema til að kjósa Guðrúnu Helgadóttur fyrir formann í auðmýkt, en hún hleypur með hvert nál., sem hún hefur framsögu fyrir, til þessa nm. og hann skrifar undir. Hún virðist hafa fullt og ótakmarkað umboð til að skýra þessum nm. frá hvaða mál séu á ferðinni, og hún er ekki lengi að sannfæra hann. Svo eiga menn auðvitað að bera virðingu fyrir Alþingi og störfum þess! Alþingi er löggjafarsamkunda þessarar þjóðar, og Alþingi og alþm. vilja halda því fram, að hér séu unnin vandasöm störf og hér eigi að vanda til starfs. Ég harma þessi umskipti sem hafa orðið á síðustu árum svo að fer ört versnandi.

Mér er ljóst að í þessu frv. er margt mjög gott og margt hefur verið vel unnið. Ég set ekkert út á það þó að einn nm., sem skrifar undir nál., hafi ekki verið á þeim fundi þegar málið var afgreitt, — maður sem hefur fylgst með málinu, var á annað ár heilbr.- og trmrh. og hefur mætt ákaflega vel í nefndinni og tekið þátt í störfum hennar, 5. þm. Suðurl. Það er ekkert út á það að setja að menn, sem mæta á fundum nefnda, þó að þeir séu ekki viðstaddir rétt við lokaafgreiðslu, skrifi undir nál. En hitt set ég út á og tel alveg forkastanleg vinnubrögð, að menn, sem aldrei koma, geri þetta. Það ætti að vera blátt bann við því í þingsköpum að þetta sé gert. Ef ég léti kjósa mig í nefnd og kæmi aldrei á fund hefði ég alls ekki geð í mér að skrifa undir nál.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr.- og trn., hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og ég, skilum hér því nál., að með tilvísun til þess, að nefndin fær ekki tíma til að afgreiða þetta mál með þinglegum hætti, treystum við okkur ekki til að mæla með afgreiðslu málsins. Þó að við viðurkennum, að margt sé til bóta í frv. frá gildandi lögum, hefðum við talið eðlilegra að þetta frv. yrði endurflutt í byrjun næsta þings og að því stefnt að afgreiða það á þessu ári. Frv. gerir ráð fyrir að það taki gildi 1. jan. á næsta ári, svo að það hefðu ekki verið hundrað í hættunni.

Efnislega er ég ósammála tveimur greinum í þessu frv. og tel þær á margan hátt óeðlilegar. Það er verið að breyta og setja takmarkanir sem eiga að verka aftur fyrir sig, — takmarkanir sem reynist auðvelt að fara fram hjá fyrir þá aðila sem það vilja, ef þeir eru einhverjir til. Þar á ég fyrst og fremst við 39. gr. laganna. Ég tel að sé alveg tilgangslaust að vera með slíkt ákvæði. Hitt hefði verið sönnu nær: að setja einhver slík ákvæði frá gildistöku þessara laga, en ekki afturverkandi. Hvaða mat á að leggja á t. d. síðari mgr. 39. gr. um eignaraðild þessara aðila að sérlyfjainnflutningsfyrirtækjum og lyfjaheildsölum, sbr. ákvæði 3 til bráðabirgða? Það þykir rétt að veita rúman aðlögunartíma, eins og sagt er, þeim lyfjaheildsölum sem starfa í bága við 39. gr., 8 ár frá gildistöku laganna. Þar segir líka í frv. að menn megi ekki vera aðilar að lyfjaheildsöluinnflutningi eða lyfjaframleiðslu nema að einhverju litlu leyti. Það er ekkert kveðið nánar á um hver og á hvern hátt á að meta hvað sé stór þátttaka í slíkum fyrirtækjum eða ekki. Hvernig á að koma í veg fyrir það, að t. d. þeir, sem rétt hafa til að gefa út lyfseðla, ef lyfjainnflytjandi eða lyfjaframleiðandi nær samkomulagi við þá, — að þeir ávísi á ákveðnar legundir lyfja? Það er ekki hægt að koma þar neinum lögum við eða neinum ákvæðum í sambandi við lyfjadreifingu. Önnur lög ná yfir alla þessa aðila ef þeir misnota á þennan hátt aðstöðu sína.

Það er ýmislegt þarna sem ég hefði talið æskilegt að fá tíma til að bera saman við umsagnir þær sem bárust og afgreiða svo málið eftir að hafa borið þessar umsagnir saman og reynt að samræma orðalag og ná samkomulagi í nefndinni. En það má ekki. Það verður að hafa þennan bunugang á. Það var boðaður fundur kl. 1. Það heyrast aðfinnslur úr forsetastól ef þm. eru svo ekki við þegar fundur er settur í deildinni kl. 2. Þess vegna varð nefndin auðvitað að ljúka störfum fyrir þann tíma. Og formaður nefndarinnar virti það fullkomlega, það skal formaðurinn eiga. En þetta var allur tíminn sem heilbr.- og trn. Nd. hafði yfir að ráða til að mynda sér skoðun á þessum lagabálki sem tekur yfir 60–70 lagagreinar.