05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4688 í B-deild Alþingistíðinda. (4522)

30. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að mér finnst þetta nokkuð sérkennileg umr. með tilliti til þess, að hér er ekki um að ræða mál sem er að koma til þingsins í dag, gær eða fyrradag.

Það var með bréfi heilbr.- og trmrh. 21. sept. 1978, Magnúsar H. Magnússonar, hv. 5. þm. Suðurl., að skipuð var nefnd til að gera tillögur um tilhögun lyfjadreifingar í landinu. Þessi nefnd var skipuð fulltrúum allra þáverandi stjórnarflokka og ýmissa hagsmunaaðila. Í nefndinni áttu sæti: Almar Grímsson deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., Adda Bára Sigfúsdóttir borgarfulltrúi, Georg H. Tryggvason aðstoðarmaður heilbrmrh., Sigmundur Sigfússon aðstoðarlandlæknir og Vilhjálmur G. Skúlason prófessor, öll án tilnefningar, en auk þess áttu sæti í nefndinni Einar Birnir framkvæmdastjóri, tilnefndur af lyfjavöruhópi Félags ísl. stórkaupmanna, Oddur Thorarensen lyfsali, tilnefndur af Apótekarafélagi Íslands, og Þór Sigþórsson lyfjafræðingur, tilnefndur af Lyfjafræðingafélagi Íslands. Sú breyting varð gerð á nefndinni eftir nokkra mánuði, að Oddur Thorarensen lét af störfum í henni, en, Werner Rasmusson lyfsali tók við störfum í nefndinni. Sigurður Jónsson lyfjafræðingur var ritari nefndarinnar.

Þessi nefnd skilaði tillögum í frumvarpsformi, sem fyrrv. hæstv. heilbrmrh., Magnús H. Magnússon, lagði fyrir þingið vorið 1979, og það var einnig lagt fyrir þingið næsta vetur þar á eftir, 102. löggjafarþing. Þetta frv. var enn lagt fyrir 103. löggjafarþingið, og nú liggur það fyrir því 104. og hefur legið fyrir því frá því í október í haust.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við setti ég á laggirnar pólitískan samstarfshóp þeirra aðila, sem eiga aðild að ríkisstj., til að fara yfir frv. eins og hæstv. fyrrv. heilbrrh. hafði flutt það. Í þessum samráðshópi núv. ríkisstj. voru Guðmundur G. Þórarinsson alþm., Helgi Seljan alþm. og Pálmi Jónsson ráðh. og alþm., sem einnig á sæti í hv. heilbr.- og trn., eins og var getið um áðan og greint frá hans fundarsókn. Þessir þrír menn fóru yfir frv. Ég verð að segja að ég held að það sé mjög ómaklegt að halda því fram, að hæstv. landbrh., þó að hann hafi kannske átt erfitt með að gegna störfum í hv. heilbr.- og trn., hafi ekki þekkt þetta mál. Mér er kunnugt um að hann fór mjög rækilega yfir það og ég gerði það m. a. á fundum með honum.

Núv. ríkisstj. hefur lagt þetta fyrir þingið oftar en einu sinni og síðast í október í haust. Þá fór það til meðferðar í hv. heilbr.- og trn. Ed. og hefur verið þar til meðferðar í allan vetur. Það endaði með því, að þó að menn skrifuðu undir nál. með fyrirvara núna í. aprílmánuði varð niðurstaðan engu að síður sú, að frv. í heild var afgreitt samhljóða í Ed. með öllum atkv. og allar brtt., nema ein till. sem ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni þegar ég mælti fyrir þessu frv. Það var sem sagt alger samstaða um málið í Ed. og mér er kunnugt um það, vegna þess að ég var þar með í ráðum, að menn lögðu sig fram um að koma til móts við sjónarmið fulltrúa Sjálfstfl. í heilbr.- og trn. Ed. til að skapa sem besta samstöðu um málið. Ég skildi það svo, var þar í góðri trú, að afstaða þeirra byggðist á yfirferð af einhverju lagi yfir málið á vettvangi þingflokks Sjálfstfl. Þess vegna gerði ég ráð fyrir að það væri engin ósanngirni að fara fram á að málið yrði afgreitt hér í Nd. á þeim skamma tíma sem eftir lifði af störfum hennar þegar ég talaði fyrir málinu fyrir nokkrum dögum. Það er ekki þannig að þetta mál hafi farið inn í nefndina í gær. Það var tekið til umr. hér 30. apríl og í dag er 5. maí.

Ég taldi sem sagt að málið hefði fengið mjög rækilega athugun. Ég fullyrði að í fyrsta lagi hefur það fengið mjög rækilega athugun í Alþfl., Alþb. og Framsfl., og með tilliti til yfirferðarinnar yfir málið í hv. Ed. gerði ég einnig ráð fyrir að svo væri í Sjálfstfl. Þess vegna kemur mér þessi umr. nokkuð á óvart, eins og ég sagði í upphafi máls míns. Ég vil biðja menn að hugleiða þennan aðdraganda málsins og velta því fyrir sér, hvernig það hefur verið unnið, og taka tillit til þess með fullri sanngirni, mér finnst annað ósanngjarnt í rauninni. Það var lögð á það áhersla, a. m. k. af minni hálfu og formanns nefndarinnar í Ed., hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar, að koma til móts við sjónarmið fulltrúa Sjálfstfl. í heilbr.- og trn. Nd. ef það mætti verða til þess að greiða götu málsins í gegnum þingið. Ég er því nokkuð undrandi á þeim orðum sem hér eru látin falla.

Út af fyrir sig ber stjórnarmeirihl., að svo miklu leyti sem hann er til, ábyrgð á afgreiðslu mála. Ég er ekki að ætlast til þess, að hv. stjórnarandstaða fari að taka á sig ábyrgð á afgreiðslu flókinna og erfiðra mála á þeim sólarhringum sem eftir standa af þinghaldinu. Ég er ekki að fara fram á neitt slíkt. En ég er að fara fram á það við menn að íhuga aðdraganda málsins með fullri sanngirni eftir þær upplýsingar sem ég hef hér gefið eftir bestu vitund.

Ég vil einnig í tilefni af þeim ummælum, sem hér hafa verið látin falla, vekja athygli á því, að þó að heilbr.- og trn. þessarar deildar og Ed. fjalli í rauninni um mörg af mikilvægustu málum félagslegrar þjónustu okkar í þessu landi, ríkisbúskapar okkar og löggjafar í heild, þá er það engu að síður svo að samkomulag í þessum nefndum, bæði í Ed. og Nd., hefur verið gott og ég tel að ég hafi reynt eftir mætti að stuðla að því, að svo gæti orðið. Ég vona einnig að svo verði framvegis. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir þau verk sem þar hafa verið unnin í þessu máli, en einnig í öðrum sem nefndin hefur tekið til meðferðar. Nefndin var með mjög viðamikið mál hér á dögunum til meðferðar. Það var frv. til l. um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Það mál fékk mjög skjóta meðferð í nefndinni, m. a. vænti ég vegna þess að málið hafði fengið allgóðan undirbúning og einnig vegna þess að í nefndinni sitja tveir fyrrv. heilbrmrh. Það hefur verið nefndinni styrkur að geta leitað til þeirra með þau málefni sem þar hefur að höndum borið. Ég vek athygli á að annar þeirra, hv. þm. Magnús H. Magnússon, stendur að því, að frv. þetta verði samþykkt hér eins og það kom frá hv. Ed.