05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4695 í B-deild Alþingistíðinda. (4531)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er kannske ekkert einsdæmi að í þinglok sé uppi „panik“ og meira og minna um það að mál séu afgreidd á færibandi. Ég hugsa þó að það verði leitun á afgreiðslu eins og hér hefur átt sér stað undanfarna daga, að svo mörg og stór mál hafi verið keyrð í gegnum þingið á svo stuttum tíma, — mál sem innihalda skuldbindingar upp á hundruð milljóna og enginn veit hvort menn eru hér að gera rétt eða rangt, vegna þess að stjórn þingsins og þá fyrst og fremst hæstv. ríkisstj. krefst þess, að mál séu afgreidd með þessum hraða.

Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð. Það er ekki siðaðra manna háttur að haga sér með þessum hætti. Það verður að gera kröfu til þess, að stjórn þingsins sé með eðlilegum hætti. Ef hæstv. ríkisstj. vill að mörg hinna stóru mála, sem enn eru eftir og ekki hafa verið afgreidd, verði afgreidd hér á Alþingi, þá verður það auðvitað að gerast með eðlilegum hætti. Það verður þó að ætla þinginu tíma til að afgreiða öll þau mál. Þá á þinghaldið að halda áfram með venjulegum hefðbundnum hætti, en ekki reka mál í gegnum þingið á kvöld- og næturfundum kvöld eftir kvöld.

Mér er ekki um það kunnugt, að neitt samkomulag sé milli stjórnar og stjórnarandstöðu um lok þinghalds. Það var frá því greint hér í dag, að samkomulag hefði verið gert um ákveðið mál, og ég veit ekki betur en a. m. k. hvað Alþfl. varðar hafi það samkomulag verið haldið í einu og öllu. Ef það er vilji hæstv. ríkisstj., hæstv. forsrh., að semja um þessi mál, sem er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt, að freista þess að gera samkomulag um hvernig málum verði hér komið í gegnum þingið og hvenær þinghaldi verði lokið, þá er það auðvitað langsamlega eðlilegasta aðferðin að menn setjist niður og geri stundaskrá um með hvaða hætti hægt er og eðlilegt að ljúka þinghaldi á sómasamlegan hátt.

Ég vil minna hæstv. forseta og hæstv. ríkisstj. á það, að í landinu eru lög um vinnuvernd. Það er ástæða til þess að minna ekki síst löggjafarvaldið á að halda í heiðri þau lög sem það sjálft hefur sett. Það er þegar búið að brjóta þá löggjöf og haldi fram sem horfir verður enn gert meira að því. Fyrst hv. þm. og formaður Verkamannasambands Íslands sér ekki ástæðu til að gera aths. við þessi vinnubrögð og að lögin um hvíldartíma séu haldin, hleyp ég í skarðið og geri aths. við það. Ég krefst þess í raun og vera að löggjafarsamkoman haldi þau lög sem og önnur gagnvart þinginu.

Ég ítreka að það er lágmarkskrafa að sest verði niður og menn reyni að koma sér saman um meðferð mála, með hvaða hætti þau geta hér fram gengið, og um þinglausnir. Verði það ekki gert stefnir hér í endalaust stríð milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ef ríkisstj. vill það hlýtur hún að sjálfsögðu að geta fengið það. Það mun a. m. k. ekki standa á þm. Alþfl. að sitja hér þingfundi og vinna svo lengi sem nauðsyn er til að koma málum í þann farveg sem er æskilegur og nauðsynlegur.