05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4701 í B-deild Alþingistíðinda. (4536)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann upplýsi hver það sé sem ætlar sér að slíta þingi annaðhvort kl. 2 á morgun eða kl. 2 á föstudag. Í mínum huga skiptir ekki máli hvor dagurinn það er, en ég vil fá að vita hver þetta er. Ég segi enn: Ef ég hef skilið hæstv. forsrh. rétt, og þá er ég að vísu að vísa til einkasamtals okkar, var skilningur minn þessi, að það ætti að ljúka þeim málum, sem enn þá eru á dagskrá þingsins, og ég er búinn að lýsa því með mínum orðum að það gengur ekki upp að ljúka þeim kl. 2 á morgun. Það gengur ekki upp.

Til viðbótar þessu heyrðist mér hæstv. forsrh. grípa fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar áðan og segja það sem ég get staðfest af viðtölum mínum við hæstv. forsrh., að hann hefði aldrei nefnt neinn ákveðinn dag fyrir þinglausnir. Af hverju er þá hæstv. forseti þessarar deildar að nefna annaðhvort fimmtudag eða föstudag kl. 2? Þetta langar mig til að vita.