05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4702 í B-deild Alþingistíðinda. (4539)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þær umr., sem hér fara fram, leiða hugann að því, hvort þingið sé sjálfstætt gagnvart framkvæmdavaldinu eða eigi. Ég lít svo á að forseti, sem kosinn er af deild tilhljóti að eiga einn að taka ákvörðun, hvort hann heldur kvöldfund eða ekki. Ef annan veg væri farið væri miklu réttara að framkvæmdavaldið tilnefndi forsetana. Allar fullyrðingar um að það beri að virða meiri hl. í þessu sambandi vekja hjá mér þessa spurningu: Bætir það vinnubrögð þingsins ef heill klukkutími fer aðeins í umr. um þingsköp? — Ég vil taka það fram, að mér finnst þær kröfur, sem fram hafa komið um að ekki séu fundir nema tvö kvöld í röð, fullkomlega eðlilegar.