05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4703 í B-deild Alþingistíðinda. (4541)

145. mál, málefni fatlaðra

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. fékk frv. til l. um málefni fatlaðra, 145. mál Nd., til meðferðar síðasta fundardag deildarinnar fyrir jólahlé 18. des. s. l. Sama dag vísaði nefndin frv. til umsagnar með skilafresti til 1. febr. s. l. Nefndin varð sammála um þá meginstefnu í meðferð frv. að leggja áherslu á að málið fengi víðtæka meðferð þannig að ný löggjöf um málefni fatlaðra yrði marktæk og skilvirk og um hana yrði sem best samstaða þeirra sem mesta hagsmuni eiga að hafa af þessum lögum. Ekki síst var þetta nauðsyn þar sem skammur tími er liðinn frá gildistöku laga um aðstoð við þroskahefta sem gert er ráð fyrir að falli úr gildi með gildistöku þessa lagafrv. Það var því ljóst í upphafi að meðferð frv. hjá félmn. tæki nokkurn tíma, en nefndin gerir ráð fyrir gildistöku nýrra laga um málefni fatlaðra 1. jan. 1983.

Nefndin sendi eftirtöldum aðilum frv. til umsagnar: Landssamtökunum þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Jafnframt voru þessi samtök beðin sérstaklega að kynna frv. öllum aðildarfélögum. Enn fremur var frv. sent til umsagnar Félagi heyrnarlausra, Samtökum gegn astma og ofnæmi, Félagi sykursjúkra, Félagi psoriasissjúklinga, M.s.-félaginu, Landssamtökunum Hjartavernd, Geðvernd, Geðlæknafélagi Íslands, Félagi þroskaþjálfa, Tryggingastofnun ríkisins, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Læknafélagi Íslands og Endurhæfingarráði.

Svör bárust frá flestum þessum aðilum, en enn fremur upplýsingar frá stjórnarnefnd málefna þroskaheftra, upplýsingar um úthlutun úr erfðafjársjóði s. l. þrjú ár, umsögn frá Magnúsi Magnússyni sérkennslufulltrúa menntmrn., frá Stéttarfélagi ísl. félagsráðgjafa, frá svæðisstjórn Reykjavíkur og Sjálfsbjörg, félagi fatlaðra.

Nefndin hefur haldið fundi með fulltrúum frá Öryrkjabandalagi Íslands, fulltrúum frá Þroskahjálp og fulltrúum frá öllum svæðisstjórnum í landinu sem jafnframt hafa lagt fram greinargerðir um frv. og brtt.

Margrét Margeirsdóttir deildarstjóri í félmrn. hefur komið á fundi nefndarinnar. Jafnframt hefur hún í samráði við nefndina samið greinargerð um 2. gr. frv., þ. e. um skilgreiningu á orðinu fatlaður í frv. Enn fremur hefur hún samið grg. um IV. kafla frv., 16. gr., sem er gerbreyting á þeirri grein, þ. e. Greiningar- og ráðagjafarstöð ríkisins, en báðar þessar greinargerðir eru sérprentaðar sem fskj. með þessu nál.

Eins og við mátti búast eru skiptar skoðanir um þetta frv. Í ítarlegri grg. með frv. kemur m. a. fram að megineinkenni frv. um málefni fatlaðra eru:

1. Steypt er saman þrennum gildandi lögum, þ. e. lögum um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, nr. 12/1952, að undanskilinni 1. gr. þeirra laga, lögum um endurhæfingu, nr. 27/1970, og lögum um aðstoð við þroskahefta, nr. 47/1979. Segir í grg. að í samráði við fulltrúa hagsmunaaðila hafi þessi leið verið valin.

2. Frv. einkennist af því, að nú er í fyrsta sinn verið að koma á heildarskipulagningu félagslegrar þjónustu hins opinbera við fatlað fólk án tillits til þess, hver fötlunin er, þar sem markmiðið er að stuðla að jafnrétti og fullkominni þátttöku fatlaðra í daglegu lífi.

Frv. er að meginstofni byggt á lögum um aðstoð við þroskahefta, nr. 47/1979. Þau lög eru gerð víðfeðmari og látin taka til allra fatlaðra. Öryrkjabandalag Íslands ásamt flestum aðildarfélögum innan bandalagsins mælir eindregið með því, að þetta lagafrv. verði samþykkt með nokkrum aths., sem nefndin hefur að nokkru tekið tillit til. Í viðtölum fulltrúa Öryrkjabandalagsins við nefndina kom fram hjá þeim að ástæða væri til að óttast að hlutverk svæðisstjórna, heilbrigðisráða og stjórna heilbrigðisstofnana í þessum málum mundi skarast of mikið, valdsvið svæðisstjórna væri ekki nægilega greinilegt. Þá kom fram ótti þeirra um að starf og framkvæmdir á vegum félagssamtaka mundu dragast saman, færast yfir á ríkið, ekki síst þar sem sérstaða erfðafjársjóðs hyrfi, en fjármagn úr þeim sjóði hefur til þessa að mestu farið til stofnana á vegum félagssamtaka öryrkja. Enn fremur vildu þeir fá skýrari útfærslu á hugtakinu greiningarstöð. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins fögnuðu sérstaklega nýmæli frv., sem á að auðvelda rekstur og uppbyggingu verndaðra vinnustaða, og fjármagni úr Framkvæmdasjóði til að breyta vinnustöðum til að auðvelda aðgengi fatlaðra.

Eins og áður sagði lögðu þeir mikla áherslu á samþykkt frv. og hafa Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg, félag fatlaðra, sent Alþingi sérstaka áskorun um málið, sem ég geri ráð fyrir að flestir hv. alþm. hafi fengið. Stendur í bréfi frá Sjálfsbjörgu, dags. 21. apríl s. l.:

„Á fundi framkvæmdastjórnar Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra var samþykkt einróma eftirfarandi áskorun til Alþingis:

Framkvæmdastjórn Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra skorar á hið háa Alþingi að samþykkja á yfirstandandi þingi frv. til l. um málefni fatlaðra.“

Hins vegar hafa Landssamtökin þroskahjálp talið rétt að bíða með samþykkt frv. og óska eftir meiri tíma til að fjalla um málið milli þinga, telja þó margt í frv. horfa til bóta, en ýmis atriði þurfi frekari athugunar við að fenginni reynslu við framkvæmd laganna um aðstoð við þroskahefta. Sendu fulltrúar svæðisstjórna nefndinni skriflega umsögn frá fundi sem þeir héldu 16. apríl s. l. Helstu aths. fulltrúa Landssamtakanna þroskahjálpar og svæðisstjórna eru að skilgreining á orðinu fatlaður sé of rúm, sé fljótandi og óskýr, og telja þeir að um 10% landsmanna mundu falla undir þessa skilgreiningu. Óttast þeir einnig að samkv. frv. muni verkefni aukast en fjármagnið dragast saman.

Í umsögn frá fulltrúum svæðisstjórna, sem héldu fund 16. apríl s. l., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Svæðisstjórnir eru sammála um það, að mörg ákvæði frv. horfi til bóta, en telja að nauðsynlegt sé að skoða nokkur atriði nánar, bæði með tilliti til þess, að skammt er liðið síðan lög um aðstoð við þroskahefta tóku gildi, og hins vegar að mjög mismunandi er ástatt á hinum ýmsu svæðum til þjónustu við fatlaða. Sums staðar er nú fyrst að frumkvæði svæðisstjórna að hefjast uppbygging á þessu sviði. Lög um aðstoð við þroskahefta eru neyðarlög sem sett voru vegna þess að aðstaða og þroskamöguleikar þroskaheftra voru með þeim hætti að ekki þótti viðunandi. Svæðisstjórnir telja að miðað við þessar aðstæður orki tvímælis að færa út verkefni þessara laga til óljóss skilgreinds hóps fatlaðra. Því leggja þær til að setningu laga um þetta efni verði ekki hraðað, heldur unnið að því að kanna ofan í kjölinn reynslu af núgildandi lögum og móta betur og meitla skýrar þau lög sem sett verða, hvort sem það eru sérlög eða samræmd almenn löggjöf. Svæðisstjórnir eru fúsar að taka þátt í því starfi og hafa raunar á prjónunum áætlanir um að efna í sumar til ráðstefnu um hlutverk og störf svæðisstjórna.“

Í umsögn frá svæðisstjórn Reykjavíkurborgar, sem dags. er 16. apríl s. l., kemur fram svipað sjónarmið, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp úr þeirri umsögn:

„Svæðisstjórn Reykjavíkur tekur undir þá skoðun, sem fram hefur komið hjá flestum svæðisstjórnum á landinu, að margt í frv. horfi til bóta. Hins vegar er hér um viðamikið mál að ræða, sem þarfnast nákvæmrar umfjöllunar sem svæðisstjórnin getur ekki framkvæmt innan þeirra þröngu tímamarka sem sett hafa verið. Er það álit svæðisstjórnarinnar, að það skipti meira máli að vanda vel til þessarar lagasetningar heldur en að afgreiða frv. á yfirstandandi þingi. Er því lagt til að frestað verði afgreiðslu frv. á yfirstandandi Alþingi, en allar svæðisstjórnirnar á landinu haldi ráðstefnu í sumar þar sem mótuð verði afstaða þeirra til málsins og formlega gengið frá umsögn um frv. sem þá ætti að geta legið fyrir þegar Alþingi kemur saman næsta haust.“

Í bréfi frá stjórnarnefnd málefna þroskaheftra, dags. 5. apríl s. l., segir svo, með leyfi forseta, — ég tel ástæðu til að vitna í þetta bréf sérstaklega því að hér er um að ræða stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra sem hefur starfað síðan þau lög tóku gildi og hefur þar af leiðandi nokkra reynslu af þessum málum og talsvert um þau að segja, — en í bréfinu segir m. a.:

„Þar sem frv. um málefni fatlaðra, 145. mál, er nú til meðferðar í félmn. Nd. vill stjórnarnefnd málefna þroskaheftra upplýsa að nú eru til umfjöllunar hjá stjórnarnefndinni ýmsar áætlanir og greinargerð starfsfólks við athugunar- og greiningardeildina í Kjarvalshúsi um skipulag og verksvið Greiningarstöðvar ríkisins ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun. Eins og fram kemur í bréfi til félmrh. taldi stjórnarnefndin að mun ítarlegri skilgreining þyrfti til að koma á verksviði, stjórnun og skyldum Greiningarstöðvar ríkisins og umfangi hverrar deildarum sig áður en stjórnarnefndin gæti tekið afstöðu til áætlunar samstarfshópsins og byggingarnefndar stöðvarinnar, enda ljóst að í þeim áætlunum hefur að verulegu leyti verið tekið mið af frv. um málefni fatlaðra sem fyrir Alþingi liggur. Óskaði stjórnarnefndin einnig eftir því, að félmn. yrði gerð grein fyrir áætluðu verksviði greiningarstöðvarinnar þannig að hægt væri að koma skýrum ákvæðum um það í lög með hliðsjón af ákvæði frv. sem fyrir Alþingi liggur um greiningarstöðina.

Síðan segir: „Þar sem nokkur óvissa ríkir um hvort frv. verði afgreitt á yfirstandandi Alþingi vill stjórnarnefndin beina því til félmn. Nd. Alþingis, að ef fyrirséð verður að frv. fáist ekki afgreitt fyrir þingslit, þá beiti félmn. sér fyrir því, að kaflinn um Greiningarstöð ríkisins verði sérstaklega afgreiddur á þessu þingi sem breyting við III. kafla laganna um aðstoð við þroskahefta. Með vísan til fjármögnunarákvæða frv. leyfir stjórnarnefndin sér enn fremur að senda félmn. úthlutanir úr Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra fyrir árin 1980 og 1981 og 1982, en á því yfirliti kemur einnig fram hve viðamikil verkefni sjóðsins eru. Í beinni úthlutun á yfirstandandi ári voru milli 75 og 80 millj. kr., en ráðstöfunarfé sjóðsins um 28 millj. Stjórnarnefndin bendir félmn. á að með því frv., sem nú liggur fyrir Alþingi, eru stóraukin verkefni sett á Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra, en að sama skapi ekki gert ráð fyrir auknu fjármagni.“

Það væri ástæða til að lesa hér einnig upp úr því bréfi sem stjórnarnefndin hafði sent félmrn., en ég mun ekki gera það hér til að eyða ekki of löngum tíma í þetta atriði. En út frá þessu fól félmn. fulltrúa í rn., Margréti Margeirsdóttur, eins og ég sagði fyrr, að umsemja kaflann um Greiningarstöð ríkisins og gera hann greinilegri en er í því frv. sem við erum að fjalla um.

Í umsögnum Læknafélags Íslands og Geðlæknafélags Íslands er mjög neikvæð afstaða tekin gegn þessu frv., og lýsa þessir aðilar sig eindregið andvíga frv. Mér finnst ástæða til að grípa ofan í umsagnir þessara sérfræðinga á þessu sviði, þó að ég sé ekki þar með að segja, að mér finnist þær í raun og veru eðlilegt innlegg í þessar umr. frá þessum aðilum, og sé ekki sammála því sem þar kemur fram. Niðurstaðan í umsögn Geðlæknafélags Íslands er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrirliggjandi frv. til l. um málefni fatlaðra tryggir þeim ekki betri þjónustu en þeir eiga nú kost á. Frv. virðist vanhugsað og samið af þekkingarskorti á heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það gefur framkvæmdavaldinu allt of frjálsar hendur til að skipa málum fatlaðra með reglugerðum og tilskipunum. Geðlæknafélag Íslands gerir eftirfarandi tillögur:

Fyrirliggjandi frv. til l. um málefni fatlaðra verði lagt til hliðar. Lög um endurhæfingu nr. 27/1970, verði endurskoðuð sem allra fyrst. Lög um aðstoð við þroskahefta, nr. 47/1979, verði endurskoðuð, einkum með tilliti til skörunar við aðra löggjöf. Stjórnvöld meti og virði þá þjónustu sem fatlaðir njóta nú hér á landi.“

Þannig er niðurstaðan í umsögn Geðlæknafélags Íslands. Ég endurtek að ég er ekki sammála þessari umsögn.

Mér finnst einnig ástæða til að grípa niður í umsögn Læknafélags Íslands um sama efni, en þessir aðilar sendu, eins og ég áðan sagði, mjög ítarlega umsögn og virðast hafa mjög margt á móti frv. Þeir leggja til að því verði vísað frá eða það fellt. Mér þykir hlýða, með leyfi hæstv. forseta, að lesa úr niðurstöðu umsagnar Læknafélags Íslands. Þar segir svo:

„Ljóst er að fyrirliggjandi frv. til l. um málefni fatlaðra tryggir þeim vart betri þjónustu en þeir eiga kost á í dag og í sumum tilfellum geti lagafrv. þetta, ef að lögum verður, leitt af sér minni skyldur hins opinbera við fatlaða og þá um leið minni og lakari þjónustu. Frv. er gallað og virðist á texta þess ekki hafa fengið nægilega umfjöllun sérfróðra aðila. Lagasetning sem þessi verður að teljast afar hæpin og sýnist hyggilegra að tryggja rétt fatlaðra með viðeigandi lagfæringu á gildandi lögum eða setningu almennrar félagsmálalöggjafar. Telur stjórn Læknafélags Íslands því ekki rétt að samþykkja frv.“

Í umsögn Endurhæfingarráðs, sem eins og allir hv. alþm. vita hefur innt af hendi mjög gott starf í sambandi við málefni fatlaðra á undanförnum árum, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. gerir ráð fyrir að lög nr. 27/1970 um endurhæfingu falli úr gildi, verði það óbreytt að lögum, og er þá sjálfgert að Endurhæfingarráð lætur þar með af störfum. Snemma á ferli sínum ákvað Endurhæfingarráð að koma á fót skrifstofu til að sinna verkefnum í endurhæfingu, einkum atvinnuþáttunum. Hefur sú skrifstofa starfað í tæp 9 ár. Á liðnum árum hafa um 100 manns leitað til skrifstofunnar árlega að jafnaði varðandi ýmsa fyrirgreiðslu, mestmegnis atvinnutengda. Endurhæfingarráð telur nauðsynlegt að starfsemi skrifstofunnar haldi áfram í einu formi eða öðru, þótt lög um endurhæfingu falli úr gildi, og verði það tryggt með ákvæði í frv. eða í grg. með því. Enn fremur telur Endurhæfingarráð brýnt að fyrrgreindu starfsliði stöðvarinnar verði tryggð áframhaldandi störf við þessa málaflokka, enda hefur það öðlast mikilvæga þekkingu og reynslu í meðferð þeirra.“

Herra forseti. Mér þótti eðlilegt að grípa aðeins niður í þessi álit sem ég hef lesið úr, en eins og ég tók fram í upphafi hefur nefndinni borist mikill fjöldi af umsögnum um þetta frv., auk þeirra funda sem ég áður greindi frá, þannig að sem betur fer eru flestir aðilar, sem nálægt þessum málum koma, þannig stemmdir að þeir virðast hafa mikinn áhuga á framgangi þessara mála.

Félmn. hefur rætt á fundi sínum nauðsyn þess, að sett verði hér á landi sérstök félagsmálalöggjöf þar sem í einum lagabálki sé skeytt saman öllum ákvæðum félagslegrar aðstoðar og þjónustu hins opinbera við alla þjóðfélagsþegna án tillits til þess, hvort þeir eru fatlaðir, ófatlaðir, ungir eða aldnir. Slík heildarlöggjöf hefur verið sett t. d. í Danmörku og Svíþjóð, en í þeim löndum tók sú lagasmíð nær tugi ára og er enn umdeild. Áður höfðu verið í þessum löndum í gildi sérlög t. d. fyrir aldraða, fatlaða og börn. Nefndinni er ljóst að langan tíma tekur að ná því markmiði hér á landi. Því er rétt að setja sérstaka löggjöf fyrir fatlaða og aldraða sem áfanga að heildarfélagsmálalöggjöf sem sett verði í næstu framtíð. Um þetta vitnar reynsla sem þegar er fengin af lögum um málefni þroskaheftra.

Eftir þá miklu vinnu, sem félmn. hefur lagt í frv., m. a. víðtæka gagna- og umsagnaöflun, fundahöld með hagsmunaaðilum, hefur hún valið þá leið að leggja til að gera á frv. ýmsar breytingar, sem hún er sammála um að horfi til bóta, og hefur tekið tillit til ýmissa umsagna og ábendinga er borist hafa, og flytur nefndinni 21 brtt. við frv. á sérstöku þskj.

Viðamesta breytingin er við IV. kafla frv. um Greiningarstöð ríkisins, sem lagt er til að verði Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og vísast þar í greinargerð Margrétar Margeirsdóttur sem fylgir hér með.

Ljóst er að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er mikilvægasta stofnun í þessum málum, um það eru flestir sammála, en aukið fjármagn þarf í uppbyggingu og rekstur slíkrar stofnunar. Er áætlað að stofnkostnaður verði milli 30 og 40 millj. kr., en árlegur rekstrarkostnaður um 10–12 millj. miðað við núgildandi verðlag. Til starfa við slíka greiningar- og ráðgjafarstöð mun þurfa um 51 stöðugildi. Starfsemi, sem nú er rekin í Kjarvalshúsi, yrði sameinuð þessari nýju stofnun.

Ýmsar brtt. nefndarinnar miðast við að draga skarpari skil að því er varðar framkvæmd laganna.

Eins og fram kemur í nál. áskilja einstakir nm. sér rétt til fylgja eða flytja brtt. sem fram kunna að koma við frv., en allir nm. félmn. skrifa undir nál. Þeir eru auk mín Friðrik Sophusson, 10. þm. Reykv., Guðrún Hallgrímsdóttir, 7. þm. Reykv., Jóhann Einvarðsson, 5. þm. Reykn., Eggert Haukdal, 5. þm. Suðurl., Steinþór Gestsson, 2. þm. Suðurl., og Jóhanna Sigurðardóttir, 10. landsk. þm., en hún skrifar undir nál. með fyrirvara.

Ég mun nú í örstuttu máli skýra helstu breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv., og þar er fyrst brtt. í sambandi við 2. gr. þar sem skilgreiningin á orðinu fatlaður kemur fram. Í frv. stendur: „Orðið fatlaður í þessum lögum merkir þá sem eru andlega og líkamlega heftir og geta ekki lifað venjulegu lífi án sérstaks stuðnings.“ Nefndin leggur til að síðari hluti þessarar mgr. falli niður þannig að orðið fatlaður í þessum lögum merki þá sem eru andlega og líkamlega heftir.

Ég vil benda á að til að gera þessu betri skil gerði Margrét Margeirsdóttir í samráði við nefndina sérstaka greinargerð um 2. gr. frv., skilgreininguna á orðinu fötlun. Þar þrengir hún þetta nokkuð til að auðvelda hv. þm. og öðrum, sem um þetta fjalla, að skilja hvað við er átt þegar um er að ræða þessa skilgreiningu. Eins og allir vita, sem um þetta mál hafa fjallað, hefur það valdið nokkrum deilum að í skilgreiningu, sem lögð er til grundvallar í frv. og er komin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, er skilgreining á orðinu fatlaður mjög rúm. Eins og fram hefur komið frá samtökum fatlaðra er ótti þeirra sá, að þessi skilgreining sé óþarflega rúm og muni verða til þess að þeir, sem mest þurfa á aðstoð að halda, muni verða út undan að einhverju leyti.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að lesa upp þessa greinargerð um 2. gr., en hún er mjög ítarleg og ég bendi hv. alþm. á að kynna sér hana vel í sambandi við þetta mál.

Í 5. gr., sem fjallar um svæðisstjórnir, leggur nefndin til að varamenn í svæðisstjórnir séu skipaðir á sama hátt og í stjórnarnefnd, sbr. 3. gr.

Við 6. gr., sem er í II. kafla frv. sem fjallar um þjónustu og stofnanir, kemur ný málsgrein, sem tilhljóðar þannig: Stefnt skal að því að útvega aðstöðu til tímabundinnar og varanlegrar vistunar á fósturheimilum. — Þetta er sett þarna inn vegna þess að það getur komið til mála að hægt verði að koma meira til móts við þetta fólk með því að útvega ódýrari lausn, með því að fá sérstakt fólk eða fjölskyldur til að taka slíka einstaklinga í fóstur, það sé í þessum lagakafla til þess að hægt sé að nýta sér heimildina ef hægt er að finna slík fósturheimili.

4. brtt. er við 7. gr. þar sem upp eru taldar stofnanir fyrir fatlaða. Nefndin leggur til að í 8. lið, þar sem eru í frv. „dagvistunarstofnanir fatlaðra og afþreyingarheimili“ falli orðin „og afþreyingarheimili“ út, en til viðbótar komi nýr liður, sem er liður 14, Skóladagheimili. Er af öllum talið mjög nauðsynlegt að sú stofnun sé með í þessari lagagr. — Þá eru aðeins litlar breytingar í sambandi við 7. gr. Þar sem stendur „Ráðherra er heimilt að bæta við stofnun“ o. s. frv. komi: Hlutaðeigandi ráðherra eða ráðuneyti, o. s. frv. — og í upphafi 3. mgr. á sama hátt: Hlutaðeigandi ráðherra eða ráðuneyti, í staðinn fyrir „Ráðherra“ o. s. frv.

Við 9. gr. gerir nefndin þá brtt. að síðari málsl. orðist þannig: Svæðisstjórnir skulu gera tillögur um, að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila, hvernig þessi þjónusta verði veitt. — Þetta er áhersluatriði, en er þó nauðsynlegt að dómi nefndarinnar.

10. gr. er mikilvæg grein, en nokkuð umdeild. Sumir, sem komu á fund nefndarinnar, töldu að ástæða væri til að fella þessa grein úr frv. og færa þetta atriði undir Tryggingastofnun ríkisins. En að athuguðu máli taldi nefndin að ekki væri rétt að gera svo, heldur bætti hún nýrri mgr. við þessa grein þar sem stendur: Greiðslu á aðstoð samkv. þessari grein annast lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins.

Í grg., sem fylgdi frv. frá hæstv. félmrh., gerði hann að nokkru sérstaka grein fyrir 10. gr. frv. sem ég tel ástæðu til að koma aðeins inn á, en eins og hv. þm. geta áttað sig á er þessi grein ákaflega mikilvæg að því leyti, að hún felur í sér þau ákvæði, að fötluð börn, sem dvelja í heimahúsum og njóta takmarkaðrar þjónustu, er þarfnast sérstakrar umönnunar eða gæslu, eigi rétt á aðstoð eftir því sem við verður komið. Einnig er í þessari grein gert ráð fyrir að framfærendur sjálfir geti veitt þessa aðstoð, telji svæðisstjórn hana nauðsynlega, og fái fyrir það greiðslu samkv. ákvæðum sem koma fram í þessari grein. Það kemur fram í grg. ráðh. með frv., að óeðlilegt væri að félmrn. annaðist þessa greiðslu. Langeðlilegasta fyrirkomulagið á þessu væri að þessi þjónusta væri hluti af almannatryggingalöggjöfinni og Tryggingastofnun ríkisins annaðist þessa greiðslu. Eins og kemur fram hjá hæstv. ráðh. nefnir hann að hann teldi að það væri eðlilegt að gera breytingar á almannatryggingalögum í þá veru að barnaörorka yrði lögfest og hækkuð til samræmis við þá reynslu sem þegar er fyrir hendi um það sem telja megi eðlilegar greiðslur til fatlaðra einstaklinga sem dveljast í heimahúsum. Félmn. ræddi þetta atriði og er ráðh. sammála um að nauðsynlegt sé að koma þessari breytingu á. Ljóst er að félmn. er tilbúin að beita sér fyrir því að lagabreyting á atmannatryggingalögunum verði gerð á næsta þingi hvað þetta varðar.

Við 11. gr. er einnig smábreyting sem ekki skiptir miklu máli, en þar eru afskipti svæðisstjórna aðeins minnkuð miðað við það sem er í frvgr.

Eins og ég sagði áðan er mesta breytingin við IV. kafla laganna um Greiningarstöð ríkisins. Ég tel ekki ástæðu til að tefja tímann með því að lesa þann kafla upp, en vísa þar í það sem ég sagði áður um grg. Margrétar Margeirsdóttur, sem er mjög ítarlegt fskj. með nál um þennan kafla og þessa breytingu, af hverju er talið nauðsynlegt að gera þessum kafla betri skil en er í frv. sjálfu. Hefur komið fram, eins og ég áður sagði, bæði frá samtökum öryrkja og þroskaheftra, nauðsyn á að færa þennan kafla laganna betur út og gera hann aðgengilegri og greinilegri. Það er gert í þessari brtt. og kemur mjög vel fram í grg. sem fylgir nál.

Aðrar breytingar, sem er vert að minnast á, eru í sambandi við 19. gr. Það var prentvilla í frv. Þar er sveitarstjórn sem á að vera svæðisstjórn. En ég vek sérstaka athygli á þessari grein, því að eins og fram kemur í henni er gert ráð fyrir að það sé hægt að veita styrk að tillögum svæðisstjórna ef fjárhagsástæður þeirra, sem þurfa endurhæfingar með, en hafa fjölskylduframfærslu, eru með þeim hætti að þeir geti ekki framfært sig og skyldulið sitt á meðan á endurhæfingu stendur. Þá er einnig mjög mikilvægt atriði í þessari grein, sem ég vil vekja sérstaka athygli á, og það er í 2. lið, að hægt er að veita styrk eða lán til verkfæra- og tækjakaupa og aðra fyrirgreiðslu í sambandi við heimavinnu eða sjálfstæða starfsemi að endurhæfingu lokinni. Einnig er skv. 3. lið þessarar greinar heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkv. ákvæðum annarra laga. Félmn. breytir niðurlagi þessarar greinar. Það eru orðalagsbreytingar í þessari grein. Í staðinn fyrir „skyldulið sitt“ komi: fjölskyldu sína. 2. mgr. orðist þannig: Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins veitir aðstoð samkv. 1. og 2. tölul., en félmrn. veitir styrk eða lán samkv. 3. tölul. — Þetta var talið koma betur út og væri eðlilegri málsmeðferð.

Í sambandi við VI. kaflann, um húsnæðis- og atvinnumál, er smábreyting gerð á 21. gr. Þar kemur fram í sambandi við húsnæðismálin að svæðisstjórnir skuli fjalla um úrbætur í húsnæðismálum fatlaðra, bæði hvað varðar stofnanir og einstaklinga, og gera ákveðnar tillögur í þeim efnum til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Það var bætt þarna inn í stofnunum og einstaklingum. Það er fyrst og fremst til að vekja athygli á þessu mikilvæga ákvæði. Að dómi nefndarinnar er mjög nauðsynlegt að taka þetta atriði föstum tökum og gera breytingar á lögum um húsnæðismál þannig að fatlaðir hafi betri aðstöðu en þeir hafa í dag til þess að komast í íbúðarhúsnæði. Eins og margir sjálfsagt vita er það þannig að margir fatlaðir, sem hafa hlotið endurhæfingu, eru í vissum skilningi lokaðir inni á stofnunum eftir endurhæfingu vegna þess að þeir hafa ekki möguleika á eigin spýtur að komast inn í húsnæði á viðráðanlegan máta. Húsnæðislöggjöfin gerir að vísu ráð fyrir aukinni aðstoð við fatlaða að þessu leyti, en það nægir hvergi í sambandi við þetta mál. Það er nauðsynlegt núna, þó að við vitum hér á hv. Alþingi að frv. um húsnæðismál, sem liggur nú fyrir hv. Ed., nái ekki fram að ganga, í sambandi við lagfæringar á því frv. að því er varðar aukinn rétt til þeirra, sem eru 70 ára og eldri, að láta það ákvæði ná til fatlaðra einnig. Ég vil nota tækifærið hér til að minnast á þetta. Ég veit að þó að hv. nefnd hafi ekki gert sérstaka tillögu miðað við þetta frv. sérstaklega eru nm. sammála um að gera þurfi breytingar á húsnæðislöggjöfinni þannig að greiða fyrir þessu fólki, sérstaklega fyrir fötluðum sem eru búnir að gangast undir endurhæfingu, en komast raunverulega ekki út af stofnunum á eðlilegan máta vegna þess að það skortir aðstöðu, það skortir lán og fyrirgreiðslu. Þetta þarf að laga og að þessu þarf að vinna.

Í sambandi við 22. gr. frv. gerði nefndin nokkra breytingu. Hún steypti saman 22. gr. og 23. gr. Í 23. gr. er ákvæði í frv. sem er umdeilt. Þar er gert ráð fyrir að á hverjum vinnustað skuli ætlað fötluðum a. m. k. 20. hvert stöðugildi o. s. frv., eins og þar stendur. Nefndin varð sammála um að steypa þessum greinum saman. Í 22. gr. segir: „Svæðisstjórnir skulu hafa eftirlit með því, að aðgengi fatlaðra verði sem best tryggt, ekki hvað síst við byggingu nýrra vinnustaða“ — en síðan kemur viðbót: Jafnframt kanna þær með viðræðum við stjórnendur fyrirtækja og trúnaðarmenn hlutaðeigandi sveitarfélaga, hvernig fjölga megi störfum fyrir fatlaða á sem flestum vinnustöðum, og gera tillögur um, hvernig breyta megi eldri vinnustöðum í sama tilgangi. — Gerir nefndin tillögu um að 23. gr. falli út, en inn komi ný grein sem verði 23. gr. og hljóði þannig: Félmrn. beitir sér fyrir, í samráði við félög fatlaðra, aðila vinnumarkaðarins og Tryggingastofnun ríkisins, að gerð sé könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum, og í framhaldi af því að gera tillögur um úrbætur. Slíka könnun skal endurskoða eigi sjaldnar en á 5 ára fresti. — Þetta kom fram í umsögnum og brtt. frá samtökum þroskaheftra og raunar einnig frá Öryrkjabandalaginu.

Þá er VII. kafli frv., kynning á málefnum fatlaðra. 25. gr. er umorðuð. Í raun og veru breytir hún ekki um merkingu, heldur hafa í greininni, eins og hún er í frv., sennilega fallið niður orð eða hún er eitthvað klaufalega orðuð. Þessi grein er því umorðuð í till. nefndarinnar.

Þá kemur 28. gr. í VIII. kafla frv., um rekstur og kostnað að því er varðar hlut sveitarfélaga eða samrekstur sveitarfélaga með ríkinu. Hér stendur í 2. mgr.: „Af kostnaði vegna reksturs stofnana, sem ekki greiðist af eigin fé samkv. 7. gr. 3., 4., 11. og 13. tölul., greiðir ríkissjóður 85%, en sveitarsjóður 15%.“ Nefndin gerir tillögu um að í 2. mgr. falli út „og 13.,“ 13 tölul. falli sem sé út, þ. e. vistheimili séu ekki fjármögnuð til rekstrar með þessum hætti, heldur eingöngu á vegum ríkissjóðs, sveitarfélögin komi þar ekki inn í sem samrekstraraðili. Þá stendur í 3. tölul. í 28. gr. frv.: „Um kostnað vegna reksturs samkv. 2. og 12. tölul. 7. gr. fer eftir lögum nr. 57/1978 um rekstur heilsugæslustöðva.“ Þarna er um að ræða göngudeildir þar sem jafnframt skal vera eftirvernd og endurhæfingarstöðvar. Nefndin gerir tillögu um að 3. mgr. orðist svo: Um kostnað vegna reksturs samkv. 2. og 12. tölul. 7. gr. fer eftir lögum nr. 57/1978 um rekstur heilsugæslustöðva, enda séu slíkar stofnanir byggðar og reknar samkv. þeim lögum. — Nefndin taldi eðlilegt að tengja þetta við framkvæmd laga nr. 57/1978, þannig að það væri tekinn allur vafi af hvað við er átt.

Í 28. gr. er einnig felld út síðasta málsgr., þar sem ráðh. er heimilað að jafna greiðslum niður á sveitarfélögin og innheimta þeirra hlut í samræmi við fjölda íbúa 16 ára og eldri. Nefndin leggur til að þessi setning falli út. Er hægt að vísa í mjög hörð mótmæli Sambands ísl. sveitarfélaga að því er þetta varðar.

Þá komum við að 34. gr., þar sem vísað er í að framkvæmdir ríkisins eigi að vera í samræmi við lög nr. 63/1970 um opinberar framkvæmdir. Nefndin varð sammála um að leggja til að undanskildu þessu ákvæði væru framkvæmdir samkv. 27. gr., þ. e. ef félög koma á fót stofnunum o. s. frv., þau féllu ekki undir þetta ákvæði laga um eftirlit með opinberum framkvæmdum.

Í 35. gr. frv. er um að ræða tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Í frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður skuli árlega næstu 5 ár leggja sjóðnum til a. m. k. 27 millj. kr. Skuli sú fjárhæð hækka í hlutfalli við byggingarvísitölu miðað við gildistöku laganna. Að þeim tíma liðnum skuli endurskoða framlag ríkisins. Félmn. varð sammála um að vel athuguðu máli að umorða þessa grein þannig: Ríkissjóður skal árlega næstu 5 ár leggja sjóðnum til a. m .k. jafnvirði 33 millj. kr. miðað við 1. jan. 1982. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við byggingarvísitölu miðað við gildistöku laganna. Að þeim tíma liðnum skal endurskoða framlag ríkisins o. s. frv. — Þetta er mjög mikil hækkun á framlagi í Framkvæmdasjóðinn miðað við það sem er í frv. Nefndin gerir ráð fyrir að miða við 1. janúar s. l. eða réttara sagt miða við framlagningu frv. sem átti að taka gildi 1. janúar. Við töldum eðlilegt að miða þessa upphæð við þennan mánaðardag og upphæðin fengi síðan frá gildistöku laganna þá hækkun sem verður á byggingarvísitölu til þess dags, en jafnframt var upphæðin hækkuð um 6 millj. kr. Teljum við, miðað við þær upplýsingar sem greiðastur aðgangur var að fá í sambandi við þessi mál, að það væri eðlileg tala í sambandi við þessi mál. Þá má gera ráð fyrir að þessi fjárhæð verði um næstu áramót einhvers staðar á milli 45 og 50 millj. kr., en auk þess aðrar tekjur sjóðsins sem eru tekjur erfðafjársjóðs og frjáls framlög og vaxtatekjur. Þetta ætti að mati nefndarinnar að gera kleift talsvert aukið átak í þessum málum, sem allir eru að sjálfsögðu sammála um að þurfi að gera.

Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Við 36. gr. er um smávægilega breytingu að ræða. Við gerum ráð fyrir að stjórnarnefnd skuli leita staðfestingar viðkomandi ráðh. á tillögum sínum um úthlutun úr sjóðnum og í staðinn fyrir, eins og stendur í frv., að umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði skuli berast stjórnarnefnd eigi síðar en í desember ár hvert, gerum við þá breytingu, að í staðinn fyrir desember komi september ár hvert, vegna annarra tengsla sem koma síðar fram í sambandi við fjárlagagerðina.

Í X. kafla frv., um ýmis ákvæði, er breyting gerð á 38. gr., sem nefndin varð sammála um að leggja til að yrði umorðuð, en eins og þessi grein er nú er gert ráð fyrir að svæðisstjórnir sendi upplýsingar, þ. e. um þörfina o. s. frv., viðkomandi rn. ásamt framkvæmdaáætlun til þriggja ára í senn. Afrit af áætluninni skal sent stjórnarnefnd. Rn. sendir áætlanir til stjórnarnefndar ásamt umsögn um þær. Félmrn. vinnur síðan starfsáætlanir í samræmi við sannanlega þörf og fjárveitingu hverju sinni. Þannig er það í frv. Nefndin leggur til að greinin orðist svo:

Svæðisstjórnir safna upplýsingum um þörf fyrir þjónustu vegna fatlaðra samkv. lögum þessum hver á sínu svæði.

Svæðisstjórnir senda þessar upplýsingar til viðkomandi rn. ásamt framkvæmdaáætlun til þriggja ára í senn. Afrit af áætlunum skal sent stjórnarnefnd.

Heilbrigðis-, mennta- og félagsmrn. senda á grundvelli þessara tillagna áætlanir sínar og umsögn um tillögur svæðisstjórna til stjórnarnefndar.

Stjórnarnefnd, í samráði við félmrn., samhæfir áætlanirnar og vinnur endanlega framkvæmdaáætlun um þörf þjónustunnar í samræmi við rökstudda þörf og fjárveitingar hverju sinni.

Framkvæmdaáætlun skal einnig lögð fyrir fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjvn. Alþingis.

Við 43. gr. er gerð breyting. Í staðinn fyrir „ráðh. setur“ o. s. frv. gerir nefndin tillögu um að félmrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m. a. um hlutverk stjórnarnefndar samkv. 3. gr., um störf svæðisstjórna, sbr. 5. gr., um ákvæði 10. gr., um framkvæmdasjóð fatlaðra, sbr. 34., 35. og 36. gr. Og við 44. gr.: Í stað „1. janúar 1982“ um gildistökuna komi: 1. janúar 1983.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu er hér um að ræða lagasetningu sem túlka á sem heildarlöggjöf um málefni fatlaðra. Frv. er samið í samráði við hagsmunaaðila og með aðild fulltrúa þeirra og samkv. frv. fá fatlaðir sjálfir eða samtök þeirra aðild að stjórnarnefnd og svæðisstjórnum, fá þannig beina þátttöku í stjórn og ákvarðanatöku um málefni sín, sem verður að telja jákvætt viðhorf löggjafans. Eins og fram hefur komið hafa ýmsir aðilar komið með rökstudda gagnrýni á frv., sumt hefur nefndin tekið til greina í brtt. sínum, en það, sem vegur þyngst, eru óskir Landssamtakanna þroskahjálpar og fulltrúa svæðisstjórna í landinu sem biðja um að fá að fjalla um frv. á þingi sínu í sumar og koma á framfæri hugsanlegum breytingum. Félmn. telur eðlilegt að verða við þessum tilmælum, en vildi samt leggja fram brtt. sem nefndin varð efnislega sammála um og leggur til að verði teknar til greina við framlagningu frv. á haustþingi. Það er skoðun nefndarinnar, að eðlilegt sé að um leið og hagsmunaaðilum sé gefinn kostur á að fjalla um frv. í sumar verði tilnefndir fulltrúar frá þingflokkunum til að taka þátt í þeirri umfjöllun sem ætti að tryggja framgang málsins á haustþingi þannig að frv. yrði að lögum 1. jan. 1983, eins og brtt. nefndarinnar gera ráð fyrir. Ég trúi því, að fullur stuðningur sé fyrir hendi hér á hv. Alþingi við að svo geti orðið. Á því er brýn nauðsyn. Það vil ég undirstrika um leið og ég heiti fullum stuðningi við það áform.

Ég vil að lokum þakka meðnm. mínum í félmn. fyrir gott samstarf og mikla vinnu í sambandi við þetta frv. Við lögðum áherslu á að ná samstöðu um málið, og ég tel að það hafi tekist vonum fremur og ætti að verða til að tryggja framgang þessa máls.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.