05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4714 í B-deild Alþingistíðinda. (4544)

145. mál, málefni fatlaðra

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á þingflokksfundi Alþfl. í dag var sérstaklega tekin til umræðu frétt og viðtal á forsíðu Dagblaðsins við hæstv. iðnrh. þar sem hann lætur í það skína, að til mála komi a. m. k. að hann geri tilboð um að Íslendingar leysi til sín álverið í Straumsvík. Í framhaldi af því ákvað þingflokkur Alþfl. að óska eftir því við hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh., að þeir gæfu Alþingi nánari skýringar og frekari upplýsingar um þetta mál, sem er ósköp eðlileg ósk þegar tekið er tillit til þess, hvað verið er að láta hér í skína, að Alþingi séu a. m. k. gefnar upplýsingar um þessi efni þegar ráðh. hafa þegar rætt þau við blaðamenn opinberlega.

Formaður Alþfl., Kjartan Jóhannsson, flutti hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. þessa beiðni og óskaði eftir því, að umr. um þetta mál færi fram utan dagskrár í sameinuðu Alþingi. Hæstv. ráðherrar báðust eindregið undan því, að þessi umr. færi fram fyrr en tiltekið mál hefði fengið afgreiðslu í þessari deild. Formaður Alþfl. óskaði þá eftir því við hæstv. ráðh., að þeir féllust á að þessi umr. gæti farið fram í Ed., og er mér ekki annað kunnugt en að ráðh. báðir hafi fallist á að það yrði gert og þá væntanlega einhvern tíma í kvöld. Formanni Alþfl. var hins vegar kunnugt um að formaður Sjálfstfl. mundi fara þess á leit að umr. gæti farið fram í Sþ., eins og eðlilegt er um mál af þessu tagi, svo að þm. gefist öllum kostur á að ræða þetta mál og leggja fram fyrirspurnir til hæstv. ráðh., enda var upphafleg ósk formanns Alþfl. að svo yrði gert. Mér er einnig kunnugt um að formaður Alþfl. hefur síður en svo á móti því, að fundurinn verði í Sþ., og mun fúslega taka til við upphaflega beiðni sína um að fá að ræða þetta mál utan dagskrár þar, ef hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. geta á slíkt fallist og samkomulag næst um það við forseta þingsins.