05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4740 í B-deild Alþingistíðinda. (4565)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, sem er 279. mál Nd., hlaut þar afgreiðslu rétt áðan og er nú komið hingað til hv. deildar með þeim breytingum sem hv. Nd. gerði á frv.

Ég mun vegna anna hér á hv. Alþingi ekki fara jafnítarlega út í þetta mál nú í upphafi og gert var við framsögu í Nd. en reyna þó að taka tillit til þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á frv., og víkja að þeim sérstaklega eftir því sem við á. Hef ég sérstaklega í huga lagatúlkunaratriði og kannske ekki þörf á að festa þau í þingtíðindum öðru sinni, en að sjálfsögðu hafa hv. þdm. aðgang að minni framsögu sem ég flutti í Nd., eftir því sem þeir óska, og sú hv. nefnd sem fær mál þetta til meðferðar.

Frv. það, sem ég mæli hér fyrir, felur í sér að Alþingi heimili ríkisstj. að beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisi og reki verksmiðju að Mjóeyri við Reyðarfjörð til framleiðslu á kísilmálmi og hafi með höndum þá framleiðslu og skyldan rekstur. Fyrstu athuganir á þessu máli hófust veturinn 1979–1980, þ. e. fyrri hluta árs 1980, og bentu til þess, að framleiðsla á kísilmálmi væri einn þeirra þátta sem álitlegir gætu talist í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Eftir að frumathuganir höfðu farið fram og einnig athuganir sem tengdust staðsetningu slíks fyrirtækis að nokkru marki skipaði iðnrn. sérstaka verkefnisstjórn til að hafa umsjón með frekari athugunum á þessu sviði. Tók hún til starfa í febrúarmánuði 1981. Í verkefnisstjórninni áttu sæti Finnbogi Jónsson deildarstjóri í iðnrn., formaður, Hörður Jónsson framkvæmdastjóri hjá Iðntæknistofnun Íslands og Jón Steingrímsson verkfræðingur hjá Íslenska járnblendifélaginu. Það var sérstaklega um það rætt og samið við forustu Íslenska járnblendifélagsins, að fulltrúi þaðan tæki sæti í verkefnisstjórninni til þess að unnt væri, eftir því sem félagið teldi fært, að nýta þá vitneskju og reynslu sem þar hefði safnast fyrir í sambandi við þann rekstur, en framleiðsla á kísilmálmi er hvað tæknihliðar snertir á marga lund svipuð og framleiðsla á kísiljárni þótt markaður sé mjög ólíkur eins og ég mun koma að síðar.

Margir aðilar komu að þessu máli á vegum verkefnisstjórnarinnar á undirbúningsstigi, en hún skilaði áfangaálitum, hinu fyrsta í maí 1981, eins konar frumathugun, og síðan verk- og fjárhagsáætlun fyrir verkefnið, sem þá var lögð fyrir, en síðan skýrslu um frumathugun í nóvember á s. l. vetri. Lokaskýrsla kom fram í byrjun marsmánaðar s. l. og er fskj. með frv.

Einnig fylgir þessari skýrslu verkefnisstjórnar greinargerð frá staðarvalsnefnd, sem svo er kölluð, og er þar einkum fjallað um félagsleg áhrif kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Áður hafði staðarvalsnefndin skilað álitsgerð varðandi staðsetningu slíks fyrirtækis og taldi að Reyðarfjörður væri mjög álitlegur staður fyrir slíka framleiðslu þó að aðrir staðir gætu út af fyrir sig ekki talist útilokaðir. Eitt af þeim atriðum, sem væntanlega gera rekstur slíks fyrirtækis æskilegan og arðbæran á stað eins og Reyðarfirði, er möguleikinn á að hagnýta afgangsvarma frá slíkum verksmiðjurekstri til uppbyggingar þéttbýlisstaðanna við Reyðarfjörð, Reyðarfjarðarkauptúns og Eskifjarðar. Ekki þarf að fræða hv. þdm. á því sérstaklega, að Austfirðir teljast jarðfræðilega séð á köldu svæði, eins og það er kallað. Þó að vottur af jarðhita finnist á Austurlandi er hann ekki niðri á fjörðum enn sem komið er a. m. k.

Verkefnisstjórnin lagði í sínu lokaáliti til að ráðist yrði í byggingu 25–30 þús. tonna kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, að aflað yrði lagaheimildar til að stofna hlutafélag, sem annist byggingu og rekstur verksmiðjunnar, og að undirbúningi og framkvæmdum yrði hagað þannig að verksmiðjan geti tekið til starfa vorið 1985.

Iðnrn. sendi skýrslu verkefnisstjórnarinnar til umsagnar hjá Þjóðhagsstofnun áður en málið var lagt fyrir Alþingi. Einnig var leitað umsagnar hjá bresku ráðgjafarfyrirtæki um forsendur og niðurstöður skýrslunnar og reyndar vann breskt fyrirtæki einnig að sérstakri markaðsathugun í sambandi við þessa framleiðslu á vegum verkefnisstjórnar. Þessar umsagnir og fjölmargar aðrar bárust hv. iðnn. Nd. sem hafði mál þetta til ítarlegrar meðferðar og skilaði í framhaldi af því áliti og brtt. við fyrirliggjandi frv. Auk þess kom greinargerð frá Náttúruverndarráði og Heilbrigðiseftirlit ríkisins hafði málið einnig til meðferðar að sjálfsögðu og skilaði um það greinargerð og síðar umsögn.

Þegar ákvörðun var tekin um það að miða undirbúning verka við staðsetningu við Reyðarfjörð, með hliðsjón af áliti staðarvalsnefndar frá því í apríl 1981, var m. a. haft í huga að á Austurlandi er stór hluti af auðnýtanlegri vatnsorku landsins og því m. a. þjóðhagslega hagkvæmt að hefjast handa um að koma þar á fót iðnaði sem nýtir hluta af þessari orku. Sú iðnaðaruppbygging þarf að gerast með þeim hætti, að hún valdi sem minnstri röskun, m. a. á félagslegum aðstæðum og umhverfi að sjálfsögðu og þeirri atvinnustarfsemi sem fyrir er í byggðarlögunum. Bygging kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði er talin geta fallið að þessum markmiðum, miðað við að vandað sé til undirbúnings og aðgát höfð bæði að því er snertir umhverfisáhrif og einnig félagslega þætti og áhrif á atvinnulíf í fjórðungnum og sérstaklega á nálægum stöðum. Óhjákvæmilega mun þó bygging og rekstur slíks fyrirtækis, sem er stórt á íslenskan mælikvarða, hafa veruleg áhrif á atvinnulíf og atvinnumarkað á Miðausturlandi.

Það varðar því miklu að að framkvæmdum sé þannig staðið að þær hafi fremur jákvæð en neikvæð áhrif á þróun atvinnulífs í nágrenni sínu og leiði ekki til stökkbreytinga eða verulegrar röskunar á félagslegu umhverfi og atvinnustarfsemi sem fyrir er. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að reyna að draga úr þensluáhrifum á vinnumarkaði þannig að samkeppni um vinnuafl verði ekki úr hófi fram. Á byggingartíma er að sjálfsögðu um að ræða tímabundin áhrif sem leiða af sér eftirspurn eftir starfsliði. Áætlað er að það geti flest orðið um 350 manns á byggingartíma verksmiðjunnar. Hins vegar eru varanleg áhrif í því fólgin hvað snertir mannafla, að þarna er gert ráð fyrir 130 manna starfsliði og til viðbótar þjónustustörfum af ýmsu tagi, allt að 110 manns, þannig að í tengslum við rekstur slíkrar verksmiðju mundu skapast, eins og það er orðað á stofnanamállýsku, um 240 atvinnutækifæri eða 240 manns fengju þar vinnu. Það svarar til um 31% af þeim mannafla sem spáð er að komi inn á vinnumarkað á Miðausturlandi á þeim áratug sem nú er hafinn, þ. e. fram til ársins 1990. Þetta eru ekki út af fyrir sig háar tölur, en segja þó sína sögu og því rétt að þær komi hér fram.

Af hálfu þeirra, sem undirbúið hafa mál þetta, er talið að þjóðhagsleg hagkvæmni sé ótvíræð af því að ráðast í byggingu kísilmálmverksmiðju, en það mun að sjálfsögðu skýrast nánar við áframhaldandi undirbúning málsins. Í því sambandi má benda á nokkur atriði sem máli skipta. Í fyrsta lagi er talið að hér sé um arðbært fyrirtæki að ræða, að afkastavextir af fjárfestingu slíkrar verksmiðju, miðað við ákveðnar forsendur, sem er að finna í skýrslu verkefnisstjórnar, séu um 10%. Raunar hefur við endurmat hins breska fyrirtækis, sem fór yfir þessa áætlun, verið talið að afkastavextir gætu legið nokkru hærra eða 11.9%, en að sjálfsögðu er afkoman háð forsendum sem geta verið breytilegar og erfitt er að segja fyrir með ákvarðandi hætti, þ. á m. ekki síst í sambandi við verðþróun og verðlag afurða, sem vegur að sjálfsögðu þungt í sambandi við þessa framleiðstu eins og aðra. En miðað við þá arðsemi, sem hér er talin eiga að skila sér, eru þetta viðunandi afkastavextir af fjárfestingu. Og hafa ber í huga að fyrirtækinu er ætlað að bera margfalt raforkuverð miðað við það sem tíðkast í orkufrekum iðnaði, sem nú er starfandi í landinu, að meðaltali 17–18 aurar á kwst. á næstu 20 árum, heldur lægri í fyrstu en síðan hærri á seinni hluta þess tímabils.

Þá er þess að geta, að ýmis aðföng, sem keypt eru til verksmiðjunnar, koma að sjálfsögðu fram sem lyftistöng, þ. á m. flutningar og önnur þjónusta sem hafa mun áhrif á atvinnustarfsemi innanlands. Gert er ráð fyrir að innlendur kostnaður við byggingarframkvæmdir þessarar verksmiðju verði 57% af heildarkostnaði og hefur hann auðvitað einnig áhrif sem telja má jákvæð þjóðhagslega séð, að hlutfallið er þó þetta hátt.

Gert er ráð fyrir því, að bygging og rekstur þessarar verksmiðju verði undir forustu og stjórn landsmanna sjálfra. Bætist þannig við þá reynslu sem fengist hefur við uppbyggingu stórfyrirtækja hérlendis, og með þeim hætti sem ég vænti að allir telji að sé jákvætt, að landsmenn sjálfir standi með ákvarðandi hætti fyrir framkvæmdum, nýti sér þá reynslu, sem fengin er, og bæti við þá reynslu til hagsbóta fyrir framtíðina.

Einn er sá þáttur sem gefa þarf sérstakan gaum að í sambandi við byggingu og rekstur fyrirtækja sem þessara og mjög hefur verið umtalaður, ekki í sambandi við þetta fyrirtæki sérstaklega, en í sambandi við orkufrekan iðnað. Það eru áhrif á umhverfið, mengunarhættan sem slíkum fyrirtækjum fylgir, en unnt er að draga úr með því að beita fullkomnustu tækni sem völ er á í því sambandi og með því að pera kröfur til þess hráefnis sem notað er við vinnsluna. Í megindráttum er mengunarhætta af kísilmálmvinnslu hin sama eða mjög svipuð og við framleiðslu á kísiljárni, og við rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga hafa menn fengið reynslu af þessum þáttum. Þar voru gerðar strangar kröfur miðað við það sem áður var í sambandi við mengunarvarnir. En svo vildi til að rétt um það leyti sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga var í undirbúningi var komin fram í fyrsta sinn tæknilausn; ef svo má segja, til að fyrirbyggja að teljandi rykmengun fylgdi slíkum rekstri, en hún hefur verið mjög hvimleið bæði í sambandi við málmblendiiðnað og einnig við kísilmálmframleiðslu, og hafa margir mátt þola þau áhrif, m. a. í grannlöndum okkar, t. d. Noregi.

Mengunarhættan af ofnreyk er ekki síst fólgin í ókristölluðu kísilryki eins og menn þekkja frá járnblendirekstri, en með reyknum berst einnig út brennisteinsdíoxíð, sem svo er kallað, sem getur verið skaðlegt ef það liggur fyrir í miklum mæli. Til upplýsingar er rétt að nefna að brennisteinsdíoxíð fellur til við allan bruna kolvetna, kola, olíu og annars slíks eldsneytis og hefur aukist mjög í lofti á iðnaðarsvæðum í Evrópu. Menn þekkja eflaust umræðuna um áhrif af sýringu, sem svo er kölluð, í úrkomu, m. a. í sunnanverðri Skandinavíu, þar sem brennisteinsdíoxíð í andrúmslofti, sem berst til sunnanverðra Norðurlanda frá iðnaðarsvæðum í Bretlandi og Mið-Evrópu, hefur valdið umtalsverðum breytingum á sýrustigi í jarðvegi og ferskvatni. Hérlendis er iðnaður ekki að því marki að þessi vandamál hafi gert vart við sig svo umtalsvert hafi verið talið. Engu að síður þarf að sjálfsögðu að gefa þeim náinn gaum, ekki síst staðbundnum aðstæðum sem geta skapað erfiðleika við viss skilyrði.

Gert er ráð fyrir því, að ofnreykur frá þessari verksmiðju verði kældur með lofti niður fyrir það hitastig að reykurinn þoli síun og honum verði síðan blásið út í gegnum pokasíur svipað og við þekkjum frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, þar sem meginhluti ryksins verður eftir en lofttegundir sleppa út. Gert er ráð fyrir að rykið verði kögglað með vatni og safnað á hauga eða komið á annan veg fyrir, en ekki er ólíklegt að fyrir slíkt ryk finnist hagkvæm not einnig á Austurlandi, svipað og gert hefur með kísilryk sem til fellur frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og notað er við framleiðslu á sementi í sementsverksmiðjunni á Akranesi og til bóta, að talið er, fyrir þá framleiðslu. En hagnýting á Austurlandi yrði þá af öðrum toga. Þess má geta, að á Norðurlöndum hefur verið vaxandi markaður fyrir það ryk sem þannig er safnað saman til ýmissa nota. Og þá kemur þó nokkur endurgreiðsla til fyrirtækja fyrir rykið, sem notað er í ýmsu formi, og þannig fæst nokkuð upp í hinn mikla kostnað sem fylgir mengunarvörnum við slík fyrirtæki. Mig minnir að hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga hafi það verið allt að því 30% af stofnkostnaði, ef allt er reiknað með, sem telst til mengunarvarna. Ef það er rétt með farið hjá mér, þá sjá menn að það er ekki lítill hluti í stofnkostnaði. En enginn skyldi telja hann eftir. Ég held að allir séu sammála um að kröfur í þessum efnum eigi að vera strangar hjá okkur. Við þurfum að gæta að okkar umhverfi, og að því miðar ákvæði 10., nú 11. gr. frv. eins og það kemur frá Nd., þar sem er að finna þær kröfur um mengunarvarnir sem sérstaklega er vísað til varðandi þessa verksmiðju.

Margháttuð ráð eru nauðsynleg og tiltæk til varnar innri mengun í slíku fyrirtæki. Sem betur fer eru menn farnir að gefa innri mengun, aðstæðum á vinnustað ekki minni gaum en mengunarhættu gagnvart hinu yrtra umhverfi. Í áætlun þar að lútandi er gert ráð fyrir því að ná a. m. k. þeim árangri sem tekist hefur að ná í járnblendiiðnaði, þar sem mengunarvarnir eru hvað bestar, og hagnýta sér þar hina fullkomnustu tækni.

Umfangsmiklar athuganir þurfa að fara fram samfara undirbúningi og byggingu þessa fyrirtækis varðandi rannsóknir á lífríki og öðru umhverfi vegna verksmiðjunnar, Tillögur þar að lútandi hafa verið mótaðar af Náttúruverndarráði og Heilbrigðiseftirliti ríkisins sem unnið hafa að þessu máli sameiginlega. Verkefnisstjórnin ræddi við þessa aðila á s. l. sumri, fór yfir þessi efni með þeim stofnunum. Þá komu ekki fram sérstakar ábendingar varðandi forrannsóknir af þeirra hálfu, en frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins hefur komið í umsögn til Alþingis ábending sérstaklega að því er snertir brennisteinsdíoxíð og hugsanlega staðbundna þætti, svo sem spurninguna um loftdreifingu í firði eins og Reyðarfirði, sem að sjálfsögðu þarf að taka tillit til og athuga sérstaklega og haga kröfum varðandi búnað fyrirtækisins þannig að ekki sé líklegt að leiði til vandræða.

Við undirbúning þessa máls var áhersla á það lögð að fara yfir markaðsmálin, sem skipta auðvitað mjög miklu í sambandi við undirbúning slíks fyrirtækis, og var m. a. leitað til bresks ráðgjafarfyrirtækis sem vann fyrir verkefnisstjórnina að þessu leyti. Liggur niðurstaða þess fyrir til athugunar hjá hv. iðnn. þessarar deildar, sem fjalla mun um málið, en eins og menn væntanlega þekkja er markaður kísilmálms verulega annars eðlis en kísiljárns. Notkunarsviðin eru fyrst og fremst tengd áliðnaði. Kísilmálmurinn er notaður í álsteypur. Um 2/3 hlutar af heimsframleiðslunni fara í slíkan iðnað eða tengjast slíkum iðnaði. Auk þess er það svonefndur sílikoniðnaður sem er um 1/3 af markaðnum, en það notkunarsvið er ólíkt hinu og margbreytilegt. Vöxturinn þar hefur verið mjög ör á undanförnum árum og menn gera ráð fyrir að þessi hlutföll: 2/3:1/3, eigi eftir að snúast við áður en mjög langt um líður. Því hlýtur það að vera keppikefli fyrir fyrirtæki eins og þetta að komast inn á mjög vaxandi sílikonmarkað með afurðir sínar.

Talið er að heildarnotkun á kísilmálmi í heiminum árið 1980 hafi verið nálægt 500 þús. lestum. Var það nokkru minna en afkastageta kísilmálmverksmiðja í heiminum á því ári. En raunar er það svo í þungaiðnaði, að ekki þarf kreppu til að afkastageta verksmiðja sé ekki að fullu nýtt. Það er undir mörgu komið hvort verksmiðjur eru reknar á fullu. En við þá efnahagslegu lægð sem nú ríkir, er að sjálfsögðu óvíða í þungaiðnaði full nýting á framleiðslugetunni. Talið er hins vegar líklegt að nokkur ríki muni draga úr framleiðslu á kísilmálmi á næstu árum, ekki síst vegna hækkandi orkuverðs heima fyrir. Það á m. a. við um Spán og Portúgal svo og Bandaríkin þar sem orkuþörf hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Milliríkjaviðskipti með kísilmálm eru mikil. Helstu innflutningslöndin voru árið 1980 Japan, sem flutti inn um 58 þús. tonn, Vestur-Þýskaland 55 þús. tonn, Bandaríkin 19 þús. tonn, Bretland 22 þús. tonn og Austur-Evrópa sem flutti inn um 48 þús. tonn. Framtíðarhorfur eru að mati þeirra aðila, sem umsagnir hafa veitt, taldar góðar varðandi kísilmálmmarkað og ekkert talið benda til að önnur efni leysi kísilmálm af hólmi á þeim sviðum þar sem hann er notaður í dag. Hins vegar er talið líklegt að ný notkunarsvið komi til sögunnar þó ekki séu þau tekin inn í markaðsspár að svo stöddu.

Samkvæmt spá þess fyrirtækis sem gerði markaðsathugun, Commodities Research Unit, sem er sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki, er áætlað að heildarnotkun á kísilmálmi í heiminum verði um 650 þús. tonn árið 1986, um það leyti sem þessi verksmiðja gæti verið komin í rekstur, og rúmlega 800 þús. tonn árið 1990. Framleiðsla á 25 þús. tonnum af kísilmálmi hér á landi árið 1986 mundi samkvæmt þessari spá svara til um 3.8% af heimsnotkun á því ári. Innflutningsverð á kísilmálmi til Bretlands, Þýskalands og Japans var að meðaltali um 1560 dalir á hvert tonn á árunum 1976–1980 miðað við verðlag 1. mars 1982. Þar sem kísilmálmur keppir að hluta til við afurðir, sem framleiddar eru úr olíu og raforka er umtalsverður kostnaðarliður í framleiðslunni, má telja líklegt að verð á kísilmálmi verði ekki lægra að jafnaði í framtíðinni en það var á seinni hluta síðasta áratugs. En sem stendur er verð á kísilmálmi í lægð þótt ástandið sé ekki eins slæmt og í öðrum greinum orkufreks iðnaðar. Markaðsverðið er á bilinu 1200–1300 dalir á tonn, sem er allt að 20% lægra en það var á síðari hluta síðasta áratugs.

Það hefur verið gert ráð fyrir því í áætlunum um þetta fyrirtæki, að umrædd framleiðsla, 25 þús. tonn, yrði seld þannig að um 7500 tonn fari til Japans, um 10 000 tonn til Vestur-Þýskalands, um 3000 tonn til Bretlands og um 2500 tonn til Bandaríkjanna og um 2000 tonn til annarra landa.

Það hefur þegar verið unnið talsvert að athugun á markaðsmálunum. Viðræður hafa farið fram við japanska aðila og vestur-þýska aðila, og hafa verið settar á blað viljayfirlýsingar milli aðila um að fyrirtæki í þessum löndum annist dreifingu og taki að sér að setja umrætt magn á markaði í Japan og í Vestur-Þýskalandi. Þar væri þá um að ræða 17 500 tonn af umræddri heildarframleiðslu, nálægt 70%. Í sambandi við verðtryggingu á afurð sem þessari er rétt að fram komi að á þessari afurð er heimsmarkaðsverð sem tekur breytingum, sveiflast til, og það er ekki mikið um samninga til lengri tíma varðandi afurðina þannig að menn lúta í þessum viðskiptum yfirleitt ríkjandi heimsmarkaðsverði. Þó mun það frekar í tengslum við sílikoniðnaðinn, þann þátt markaðarins, sem hægt er að fá samninga til lengri tíma, enda um miklu færri aðila að ræða í þeirri framleiðslu.

Herra forseti. Ég hef hér farið yfir nokkra þætti sem skipta miklu máli fyrir þessa verksmiðju. Einn er sá þáttur sem hefur verið til athugunar fyrir utan forsendur varðandi orkuverð. Það er orkuflutningur til fyrirtækisins. Rætt hefur verið við Landsvirkjun um raforkusamning og fyrir liggja drög að slíkum samningi og umsögn Landsvirkjunar í sambandi við flutning raforku til fyrirtækisins. Þar hefur Landsvirkjun gert tiltekna fyrirvara sem greint er frá í grg. með frv. Sumt af þeim atriðum hefur nú þegar skýrst eða er að skýrast á Alþingi þessa dagana, eins og ákvarðanir um næstu virkjun. Vonandi verður tekin innan skamms ákvörðun þar að lútandi. En það eru fleiri þættir, eins og lagning á raflínum og að sjálfsögðu verð og samningar þar að lútandi, sem ganga þarf frá í sambandi við raforkuöflun til fyrirtækisins.

Ég vænti þess, herra forseti, að þetta stóra mál, sem komið er til hv. deildar, fái hér þinglega meðferð á þeim stutta tíma sem eftir er til fyrirhugaðra þingloka. Mér er ljóst að það er til mikils ætlast af hv. þd. að afgreiða þetta mál, jafnviðamikið og það er, á þeim mjög stutta tíma sem fyrir stafni er. En miðað við þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í Nd., sem gera m. a. ráð fyrir að mál þetta komi fyrir Alþingi áður en ákvörðun yrði tekin um framkvæmdir og að auka hlutafé félagsins sem nægði til slíks, þá vænti ég þess, að deildin sjái sér fært að lögfesta þetta mál nú fyrir þinglok. Er það að sjálfsögðu eindregin ósk af minni hálfu að það nái hér fram að ganga. Vænti ég um það góðs skilnings og góðs vilja af hálfu hv. þdm. hér og hv. iðnn., sem ég geri að till. minni að fái þetta mál til meðferðar að lokinni þessari umræðu.