05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4760 í B-deild Alþingistíðinda. (4569)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka þeim hv. þdm. sem hafa talað í þessu máli og allir í velviljuðum tón um þau áform að reisa það fyrirtæki sem stefnt er að með því frv. sem hér liggur fyrir, sem er heimildarfrv. samkv. 1. gr. þess. Sumir hafa viljað kalla það undirbúningsfrv. vegna þeirra takmarkana sem settar hafa verið inn í líklega 3. gr. frv., sem ég hef ekki hér fyrir framan mig, en kveða á um að mál þetta komi aftur fyrir þingið áður en mjög stórar fjárhagsskuldbindingar verða ákveðnar vegna málsins. Ég vænti þess, að þessi málsmeðferð, sem komin er frá hv. Nd. varðandi 3. gr. og ég hef átt hlut að að samþykkja, greiði fyrir gangi málsins hér á þeim stutta tíma sem fyrir liggur. Mér er alveg ljóst eins og öðrum hv. þm. að tími er mjög stuttur, óæskilega stuttur til þess að afgreiða endanlega slíkt stórmál sem hér er á ferðinni. Því skil ég mjög vel að það auðveldar hv. þdm. að koma málinu áfram, að lögfesta þetta frv., að þeir vita að þeir fá málið aftur til meðferðar eftir að ítarlegri undirbúningur og athugun ýmissa þátta hefur farið fram. Ég hef sagt það hreinskilnislega, að ég tel það aðeins góðra gjalda vert, miðað við þessar aðstæður, að um umræddar breytingar á frv. hefur tekist góð samstaða í Nd. Ég vænti þess, að menn uni þeim breytingum einnig vel hér í hv. Ed. Það skiptir vissulega miklu að um mál sem þetta geti verið sem best samstaða. Hitt skiptir einnig máli, og ég vænti að það geti orðið framhald þessa máls að hv. þm. gefist færi á að fá þau gögn til athugunar með góðum fyrirvara sem gert er ráð fyrir að aflað verði áður en málið verður aftur lagt fyrir þingið til þess að fá samþykktar frekari heimildir.

Það hefur komið fram í umræðum um þetta mál að eins og frv. var lagt fyrir hafa menn slegið því föstu að áfram yrði haldið rakleiðis með undirbúning og framkvæmdir á grundvelli fyrirliggjandi heimilda. Nú vil ég ekkert um það fullyrða, hvað að ráði hefði orðið hjá stjórn og framkvæmdavaldi að þessu leyti, um það er erfitt að fullyrða. En hitt er annað mál, að heimildarfrv. þurfa ekki endilega að leiða til slíks ef eðlileg aðgæsla er sýnd. Kannske hefur reynslan kennt okkur það að við séum glaðbeittir framkvæmdamenn og ef heimildir fást séu þær yfirleitt notaðar af framkvæmdavaldi. Það væri athugunarefni. Og víða höfum við vissulega nokkur víti að varast í sambandi við framkvæmdir og fjárfestingar í okkar landi, sem hefur kannske ekki verið deilt mikið um þegar í var ráðist, en meira eftir á þegar reynslan hefur orðið neikvæð. Allt er þetta gott ef það verður til þess að menn læri af því. Og með því hugarfari tek ég þeim fyrirspurnum og viðvörunum sem koma hér frá hv. þdm. um þetta mál sem önnur. Mér finnst það mjög góðra gjalda vert þegar hv. þm. leggja sig einmitt niður við að athuga þau mál, sem fyrir liggja, og eðlilegt að þeir kvarti þegar naumur tími er til stefnu til athugunar.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson beindi til mín nokkrum fyrirspurnum, sem ég skal leitast við að svara, eftir því sem það er á mínu færi hér án þess að hafa haft aðstöðu til að fara sérstaklega ofan í viðkomandi gögn. Sumt af því er tæknilegs eðlis, má segja, og ekki á mínu færi að gefa viðhlítandi svör við því. Hann spurði sérstaklega á grundvelli álitsgerðar Þjóðhagsstofnunar sem send var hv. Nd. Alþingis sem umsögn um málið. Þjóðhagsstofnun fékk þetta mál strax og skýrsla verkefnisstjórnar lá fyrir í marsmánuði. Nú vil ég geta þess, áður en ég kem að fyrirspurnum hv. þm., að í plaggi Þjóðhagsstofnunar er ekki að finna neikvæðar umsagnir einvörðungu. Það er reyndar alls ekki mjög neikvæður tónn í þeirri umsögn, a. m. k. eins og ég skildi hana. Má t. d. benda á að útreikningar á afkastavöxtum miðað við forsendur verkefnisstjórnar sýna frekar hækkun en hitt, eitthvað um 0.6% úr 10.4 í 11.1% vegna breytilegs mats á vöxtum á byggingartíma verksmiðjunnar. Þetta er mat til hækkunar á afkastavöxtum miðað við gefnar forsendur. Hitt er svo rétt, sem hv. þm. benti á, að í ábendingum Þjóðhagsstofnunar komu fram atriði sem sýna viðkvæmni í arðsemi fjárfestingarinnar miðað við breytilegar forsendur. Sjálfsagt er að gefa þeim ábendingum fyllilega gaum.

Hv. 2. þm. Reykn. og raunar einnig hv. 5. þm. Vesturl. vék að staðsetningu fyrirtækisins og undirbúningi þar að lútandi. M. a. ræddi hv. 2. þm. Reykn. um viðbótarkostnað sem hlytist af því að setja verksmiðju þessa niður á stað eins og Reyðarfirði, væntanlega í samanburði við stað þar sem innri aðstaða, sem svo hefur verið kölluð, er fyrir hendi. Um það gefur að líta nokkrar tölur í umsögn Þjóðhagsstofnunar. Nú þarf ekki næmt auga til að sjá að auðvelt er að fá fram slíkar niðurstöður. Þær eru nánast sjálfgefnar miðað við sams konar staðarforsendur, ef búið er að reisa innri aðstöðu, svo sem að gera höfn og leggja vegi, raflínur og annað þess háttar. Það er því mjög eðlilegt að fram komi kostnaðarmunur, og ég hef ekkert á móti því, að menn geri sér grein fyrir honum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að fyrirtækið beri nema óverulegan hluta af þessum kostnaði. Gegnir reyndar svipuðu máli, má ég segja, um hliðstæð fyrirtæki, eins og járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Ekki var settur inn í hennar reikniforsendur kostnaður af raflínu, sem lögð var af því fyrirtæki sem orkuna selur til verksmiðjunnar þar, og varðandi höfnina er gert ráð fyrir að hún standi undir kostnaði með þjónustugjöldum, hafnargjöldum, og er því ekki tekin inn í kostnað við arðsemimat á fyrirtækinu. En vissulega er þetta þjóðhagslegur kostnaður, eins og væntanlega kemur á daginn, því að það væri hægt, þó að það sé ekki gert í umsögn þjóðhagsstofnunar, að velta því fyrir sér, hvaða þýðingu það hefur þjóðhagslega að dreifa fyrirtækjum með sæmilega skipulegum hætti og efla þannig byggð á nokkrum stöðum á landinu, þó að það verði auðvitað ekki gert í mjög ríkum mæli. Þegar um mjög stórt fyrirtæki er að ræða og orkufrekan iðnað er ýmislegt sem ýtir á að ekki sé um mjög mikla dreifingu að ræða. Ég verð að segja að því miður eru aðstæður þannig því að margt gerði það æskilegt í okkar landi með okkar byggðamynstur að hægt væri að dreifa einnig þessum fyrirtækjum meira en aðstæður bjóða eða hægt er að verja út frá kostnaði.

Ég vil koma að þættinum varðandi staðarvalið sem hv. 5. þm. Vesturl. vék að í sínu máli. Hann spurði einmitt um röksemdir fyrir staðsetningu á Reyðarfirði. Hv. 2. þm. Reykn. vitnaði raunar í umsögn staðarvalsnefndar og þótti heldur rýr röksemdafærslan. Ég tel að það sé ekki, miðað við samanburð á þeim stöðum sem teknir voru inn í þennan samanburð. Ég held að það hafi ekki verið um að ræða ábendingar um hærri kostnað af því að reisa fyrirtækið þarna eða t. d. á stað eins og Norðurlandi eða á jafnvel Suðvesturlandi, ef menn gerðu ráð fyrir að innri aðstaða væri ekki fyrir hendi, að það væri ekki búið að koma upp þeirri aðstöðu sem slíkt fyrirtæki kallar á. Þvert á móti renndu ýmsir þættir stoðum undir að Reyðarfjörður væri skynsamlega valinn staður fyrir slíkt fyrirtæki, og þar benti ég í minni framsöguræðu í dag á nýtingu á afgangsvarma frá verksmiðjunni, sem ýtir undir það að sjálfsögðu að setja hana á stað þar sem ekki er jarðvarma að hafa til upphitunar. Þarna munar verulega fjármagni þjóðhagslega séð ef lítið er á þau byggðarlög sem eiga að njóta þessarar varmaveitu. Þó ekki sé nema miðað við rafhitun og ekki farið yfir í samanburð við olíu hefur verið reiknað út að það svari til um 4 millj. kr. á ári þjóðhagslega hversu hagkvæmara er að reka varmaveitu, eins og áætlun hefur verið gerð um hana, en að hita byggðirnar upp með rafhitun einvörðungu. Þannig kemur slíkur munur þarna fram og verður raunar nær tvöfaldur ef gert væri ráð fyrir olíuupphitun, sem er nú sem betur fer að hverfa. Margt mælir því með Reyðarfirði.

Nú hefur Reyðarfjörður lengi verið umtalaður í sambandi við orkufrekan iðnað. Hann er á marga lund æskilegur staður miðað við að komið sé upp iðnaði til að nýta a. m. k. hluta þeirrar miklu vatnsorku sem rennur til sjávar á Austurtandi og er fólgin í stóránum þar. Hefur verið varað við því með réttu að taka þar allt of stórt stökk eða stóra áfanga til að valda ekki kollsteypu í því mannlífi og atvinnulífi sem fyrir er. Því er einmitt talið að fyrirtæki, sem ekki kallar á fleira starfsfólk en þessi verksmiðja, falli vel að þessu félagslega sjónarmiði. Er ég þó ekki að segja þar með að þetta sé síðasta fyrirtækið af þessu tagi sem eigi eftir að rísa á Reyðarfirði eða á Austurlandi. Ég geri fastlega ráð fyrir að þeim eigi eftir að fjölga í tímans rás, jafnhliða því sem orkan þar er beisluð, og kemur þar einnig inn á það sem hv. 4. þm. Vestf. benti hér á, að ekki er þetta nema um fimmti hluti af áætluðu afli Fljótsdalsvirkjunar, sem gert er ráð fyrir að verði um 250 mw. í reynd með uppsettu afli þó að þær tölur geti átt eftir að breytast við frekari undirbúning og hönnun þeirrar virkjunar. Ég held sem sagt að hvað snertir staðarval og félagsleg áhrif fyrirtækisins sé ekki margt þarna gagnrýnivert.

Ég kem síðar að því sem hv. 5. þm. Vesturl. kom að varðandi mengunarmálin, en vil halda áfram að leitast við að svara þeim fyrirspurnum sem hv. 2. þm. Reykn. beindi til mín.

Hann minntist á atriði eins og stærð á hráefnisgeymslu sem honum þótti lítil, aðeins miðað við tvo mánuði. Þetta er atriði sem ég kann ekki viðhlítandi skýringar á og finnst eðlilegt að vísa til þeirra sem unnið hafa að tækniundirbúningi þessa máls. Það má vel vera að þetta sé minna en gerist annars staðar og sé atriði sem þurfi athugunar við. En þó þykir mér ólíklegt að tilviljun ráði því að þessi stærð hefur verið valin.

Þá var spurt um ástæðuna fyrir því, að gert er ráð fyrir að afurðaverð hækki nokkuð ört á næstu árum eða mun meira en hráefnisverð, sem hækki lítið. Ástæðan fyrir þessu er mér tjáð að sé sú, að afurðaverð er nú í lægð, er nú lágt eins og á öðrum afurðum orkufreks iðnaðar yfirleitt. Raunar hefur það þó staðið sig hvað best í þessari afurð, kísilmálmi, og mun dýpri lægð í ýmsum öðrum afurðum orkufreks iðnaðar. Hins vegar hefur hráefnisverðið ekki lækkað í þeirri kreppu sem gengið hefur yfir, það hefur staðið nokkurn veginn í stað, og þess vegna er ekki gert ráð fyrir hlutfallslega viðlíka hækkun og raunar óverulegri hækkun á hráefnisverði. Þarna mun vera miðað við reynslutölur og spá um þessa þróun og þá væntanlega einnig í skyldum greinum.

Hv. þm. spurði um vísitöluviðmiðun, sem þarna væri notuð, og þær hugleiðingar sem fram komu í áætlun Þjóðhagsstofnunar þar að lútandi. Mér er tjáð að sú viðmiðun, sem þarna er notuð, sé algeng og viðtekin í sambandi við þessi efni, en ég vil alls ekki fara út í neinar deilur á þessu stigi eða kveða upp úrskurð um hugmyndir Þjóðhagsstofnunar að þessu leyti, að eitthvað annað væri eðlilegra, en ég vil fullyrða að sú vísitala, sem þarna er lögð til grundvallar, er algeng viðmiðun.

Hvað snertir verðið er það alveg rétt, sem fram kemur hjá verkefnisstjórn og hv. þm. nefndi, að verðið er nú undir því sem tryggði bærilega afkomu þessa fyrirtækis, enda erum við staddir í dýpstu lægð eftirstríðsáranna. Ef menn ætluðu að gefa sér forsendur við nánast hvaða fyrirtæki sem væri í þungaiðnaði sæju menn ekki út úr augum, held ég að sé óhætt að fullyrða. Þarna, sem kannske á ýmsum öðrum sviðum, verða menn að vænta betri tíðar að það eigi eftir að rakna úr og rætast úr til hins betra í þessu efni.

Varðandi nýtingu fyrirtækisins, að þarna sé um hærra nýtingarhlutfall að ræða en almennt gerist, 90%, en annars staðar sé þetta um 85% er því til að svara, að milli 85 og 90% munu vera meðaltalstölur, en þetta er allbreytilegt. Sá aðili, sem hefur lagt á ráðin um þessa viðmiðun, 90%, í þetta fyrirtæki er Fesil Engineering í Noregi, sem hefur unnið að þessu máli í samvinnu við verkefnisstjórn. Þar er starfandi tæknimaður, sem er þekktur þeim sem fylgst hefur með járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, sem er kunnugur einmitt nýtingu í því fyrirtæki, og sennilega þá í bjartsýnna lagi varðandi nýtingarhlutfall í verksmiðju í þessari grein hérlendis. Læt ég nægja að vísa til þess.

Hvað snertir raforkuverðið kom hv. þm. með ábendingu um að honum fyndist skjóta eitthvað skökku við þá viðmiðun sem hér væri framreidd um fast raforkuverð sem væri verið að gagnrýna hjá öðrum stóriðjufyrirtækjum. Allt er þetta álitamál, við hvað miða skuli, það skal ég taka undir með hv. þm. En í fyrsta lagi er þess að geta, að hér er raforkuverðið nær þrefalt og reyndar sennilega fyllilega það miðað við núverandi verð hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og raunar þá einnig hjá álverinu, miðað við núverandi verðforsendur, og skiptir það auðvitað verulegu máli, þegar lítið er á afkastavexti frá fyrirtækjunum, að í forsendunum er gert ráð fyrir svona háu raforkuverði. Ég tel það hins vegar alls ekki of háa viðmiðun þar sem þetta svarar til áætlana um framleiðslukostnað úr þeim virkjunum sem Alþingi hefur verið að fjalla um að undanförnu og fyrirhugað er að ráðast í. En í öðru lagi er þess svo sérstaklega að geta, að gert er ráð fyrir verðtryggingu á þessari orku, að hún haldi raungildi sínu, ekki að þetta standi sem fastar tölur, heldur að þarna verði um hækkun að ræða miðað við viðmiðun sem ekki hefur verið fastsett enn þá, enda ekki raforkusamningur endanlega frágenginn, en það verði með öðrum hætti og vænlegri út frá sjónarmiði raforkusölunnar en er í þeim fyrirtækjum sem nefnd voru áðan. Þetta vænti ég að veiti nokkur svör við þeirri stefnu sem þarna er lögð til grundvallar og ég tel að sé mun betri en þeir samningar sem við höfum gert í sambandi við stóriðjufyrirtæki sem risin eru í landinu.

Hvað snertir tímasetningu verksmiðjunnar er það alveg rétt að það er álitamál hvernig eigi að haga slíku og nokkurt happdrætti. Það skiptir vissulega mjög miklu máli fyrir afkomu slíkra fyrirtækja hvort menn lenda í uppsveiflu í sambandi við t. d. afurðir á fyrstu árum eða hvort menn lenda niður í öldudal, eins og hafa orðið örlög járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og er kannske ekki síst ástæðan fyrir því, hvernig aðstæður þess fyrirtækis eru. Þarna verða menn að reyna að spá um framtíðina eftir því sem fært er. Og þó að hér liggi fyrir framkvæmdaáætlun miðað við gangsetningu 1985 á þessari verksmiðju er það auðvitað ekki fastbundið þó að slík áætlun sé upp sett.

Hvað snertir þróun á verði kísilmálms og kísiljárns eru það spár þeirra, sem í þessi fræði rýna, að gert er ráð fyrir örari verðþróun eða hagstæðari verðþróun, skulum við segja, á kísilmálmi en kísiljárni og stafar það ekki síst af vexti í greininni, þeim þætti sem tengist hinum svonefnda sílikoniðnaði. En ég skal ekki kveða upp neina endanlega dóma um þennan samanburð. Það er vart á færi nema þeirra, sem sérfróðir teljast, að gera það.

Þá vék hv. 2. þm. Reykn. og raunar einnig hv. 5. þm. Vesturl. að Kröfluvirkjun í sambandi við þetta mál. Ástæðan fyrir því er eflaust sú, að í sambandi við raforkuöflun til fyrirtækisins er miðað við þá forsendu, að um 20 mw. afl sé fyrir hendi í Kröfluvirkjun, ef ég man rétt. Ég veit ekki hvort við eigum að segja að það sé varfærin eða bjartsýn forsenda. Það er nú ekki mikil ástæða, því miður, til sérstakrar bjartsýni varðandi stöðu Kröfluvirkjunar. Ég er a. m. k. ekki í hópi þeirra sem hafa þar uppi bjartsýnispár. Ástæðan er auðvitað sú erfiða reynsla sem við höfum að baki í sambandi við gufuöflun til þeirrar virkjunar. Þar eru sem stendur nýtt og fyrir hendi 13 mw. í afli sem virkjunin er keyrð á. Ég vil ekki fullyrða að það sé allt það afl sem til reiðu er. Það má vera að eitthvað um 2 mw. séu ekki fullnýtt vegna hreinsunar eða aðgerða á borholum. Þetta er sem sagt aðeins undir því sem þarna er gert ráð fyrir. Hins vegar erum við að vænta þess og við hljótum allir að vona að hin dýrkeypta reynsla, sem menn eru að safna við Kröfluvirkjun, færi menn nær því marki að árangur verði betri eða við skulum segja skárri í sambandi við gufuöflun í framtíðinni en hingað til. Nýlega var haldin, ég má segja í síðustu viku, ráðstefna margra sérfræðinga, þ. á m. jarðfræðinga, til þess að reyna að lesa í hið flókna jarðhitakerfi við Kröflu. Hér var vitnað í útvarpsþátt þar að lútandi. Ég hlýddi á hann einnig. (EG: Sú ráðstefna hefði betur verið haldin fyrr.) Það er ágætt að menn bera saman bækur sínar um þessi efni og fyllilega tímabært, undir það tek ég. Nú er fyrirhugað að glíma við þessa gufuöflun áfram í sumar með því að bora þrjár holur. Mig minnir kostnaðurinn vera röskar 30 millj. kr. eða rösklega 10 millj. á hverja holu í sambandi við borun og líklega tengingu á tveimur. Hvort þetta hrekkur til er ég ekki viss um, þ. e. milljarður gkr. á holu. Annars er þessi tala í lánsfjáráætlun þannig að ég vísa til hennar varðandi kostnaðinn, en forsendan mun vera borun þriggja og tenging tveggja. Við skulum vona að þetta færi afl virkjunarinnar upp í 20 mw. Það tókst á liðnu ári að fá holu sem skilar um 6 eða 6.5 mw. í afli. Þarna hafa verið boraðar 18 holur og menn sjá náttúrlega af þeim afköstum, sem þarna liggja fyrir, að reynslan hefur orðið öll önnur en menn væntu. Við skulum óska þess, að þarna horfi til betri vegar í framhaldinu.

Varðandi Búrfellsvirkjun, sem einnig er minnst á í sambandi við raforkuöflun til þessa fyrirtækis, liggur fyrir að Landsvirkjun óskar eftir heimild til þess að ráðast í aflaukandi aðgerðir við Búrfellsvirkjun, hverfa frá því að setja inn fjórðu aflvélina við Sigöldu og Hrauneyjafossvirkjun og fá í staðinn heimild til að setja upp 140 mw. í afli við Búrfell. Hitt voru 120 samanlagt, í aflvélunum tveimur sem við veittum heimild fyrir í fyrravor og nú er ekki fyrirhugað að nýta. Orkuvinnsla frá þessu afli við Búrfell er hins vegar aðeins um 220 gwst. inn á landskerfið þannig að það er fyrst og fremst aflaukandi aðgerð að stærri Búrfellsvirkjun með tveimur aflvélum, kennd við Búrfell II, og engan veginn réttmætt, eins og gert var í sjónvarpsfrétt í gærkvöld, að tala um að þarna væri á ferðinni jafngildi Blönduvirkjunar. Að vísu má það til sanns vegar færa í afli reiknað, þar munar ekki mjög miklu á, 140 við Búrfell II, en 150 rösklega við Blöndu, en orkuvinnslugetan við Búrfell verður líklega röskur fjórðungur af því sem orkuvinnslugeta Blönduvirkjunar er áætlað miðað við áform um byggingu þeirrar virkjunar. Það ætti því frekar að líta þarna á orkuvinnsluna sem frá virkjuninni kemur og skilar sér þannig inn á kerfið.

Varðandi vaxtakjör á lánum, sem hv. þm. vék að, er þarna um að ræða raunvexti sem við er miðað að sjálfsögðu. Ég held að þetta séu ekki sérstaklega lágir vextir sem þarna er að vikið. Þess má geta, að sá enski banki sem heitir Samuel Hill, sem leit á fjármögnunaráætlun fyrir þetta fyrirtæki, vildi miða við lægri raunvexti en þarna eru á ferðinni í áætlun verkefnisstjórnarinnar. Sýnist þannig sitt hvorum, Þjóðhagsstofnun og Samuel Hill í London. Ég vísa til umsagnar þessara aðila. Vil ég ekki kveða upp úr um hver hafi alveg rétt fyrir sér eða sé líklegur til að hafa rétt fyrir sér.

Þetta vil ég láta nægja sem viðleitni til að svara fyrirspurnum frá hv. 2. þm. Reykn. Ég hef ekki á reiðum höndum neinn samanburð um hagnað af veltu lítið til baka, sem hv. þm. vék að, og verð því að víkja mér undan að reyna að svara því atriði í hans máli.

Hv. 4. þm. Vestf. talaði um málið í jákvæðum tón. Átti ég ekki von á öðru af hans hálfu í sambandi við það átak til þess að nýta orkulindir landsins sem hér er á ferðinni. Það var um einstaka atriði sem hann kom að gagnrýni, og vil ég ekki lasta það.

Eitt er það sem ég vil víkja aðeins að í hans máli. Hann ræddi um að stjórnarandstæðingar hefðu ekki verið með í ráðum í sambandi við undirbúning þessa máls. Ég held að það sé ekki réttmætt af hálfu hv. þm. að telja að þarna hafi verið mismunað að þessu leyti, nema hann hafi þá í huga aðkomu mína að málinu sem stjórnarliða. Þetta var fyrst og fremst unnið á vegum verkefnisstjórnar, sem ekki var valið út frá neinum pólitískum viðhorfum, og bar hún veg og vanda af þessu. Hitt er þó rétt, að orkustefnunefnd ríkisstj. kom að vissum þáttum málsins. Það er sennilega það sem hv. þm. átti við svo og sá samanburður sem hann reiddi fram varðandi undirbúning að járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga þar sem nefnd þm., ef ég man rétt, frá öllum flokkum leit á málið langan tíma. Þau vinnubrögð voru ekki hér viðhöfð, það er alveg rétt. En sá aðili, sem fyrst og fremst vann að undirbúningi, verkefnisstjórnin, var ekki valinn út frá pólitísku heldur faglegu sjónarmiði, og eins þeir aðilar sem unnu að ýmsum þáttum athugunar á hennar vegum.

Varðandi gagnrýni hans á að iðnaðarnefndir þingsins hafi ekki unnið saman að þessu máli vil ég ekki svara fyrir hv. iðnn. Nd. Ég óskaði eftir því í framsögu þar í deild, að athuguð yrði hvort iðnaðarnefndir þingsins gætu ekki lagt saman í athugun málsins, en það mun ekki hafa orðið að ráði. Þó vænti ég að hv. þdm. hér í iðnn. hafi fengið gögn málsins nokkurn veginn um svipað leyti og iðnn. menn í Nd. En ég hvatti fremur til þess, að samstarf yrði milli nefndanna um þetta, og harma út af fyrir sig að ekki skuli hafa tekist samvinna milli þeirra um athugun málsins.

Þá er það að endingu það sem hv. 5. þm. Vesturl. vék hér að varðandi umhverfismál og umhverfisathuganir. Hann gerði nokkuð úr því, að það hefði ekki verið hugað sem skyldi að forathugunum varðandi umhverfismál þessa fyrirtækis. Nú er það svo, að almennt séð er ekki talin mikil mengunarhætta frá kísilmálmverksmiðju sem þessari miðað við þau dæmi sem slæm mega teljast í orkufrekum iðnaði. Þetta virðist vera tiltölulega auðvelt viðfangs miðað við þá tækni, sem við ráðum yfir í dag, og þá reynslu, sem við höfum af svipuðum rekstri á Grundartanga. Það er alveg rétt, sem hv. þm. vék að, að þegar járnblendiverksmiðjan á Grundartanga var í undirbúningi var mengunarhættan af því fyrirtæki mikið til umræðu hjá þeim sem næmast auga höfðu á þeim þætti. Þeir eiga sannarlega lof skilið sem hafa opin augu fyrir því og vilja leggja bæði fram fjármuni og fyrirhöfn til þess að koma í veg fyrir mengun íslenskrar náttúru sem frekast má verða og velja fyrirtæki sem ekki eru mengunarvaldandi. Sama gildir um hið innra umhverfi á vinnustað sem huga þarf að í þessu sambandi.

En þegar undirbúningur stóð yfir varðandi járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga höfðu menn fyrir augum þau fyrirtæki sem starfrækt hafa verið um áratugi í Noregi í málmblendiiðnaði, í kísiljárnsframleiðslu, og höfðu orðið ýmsum góðum Íslendingum, sem siglt höfðu um norska firði, heldur hvimleið á að líta, svo ekki sé meira sagt, enda vék hv. 5. þm. Vesturl. að því, að honum lítist ekki á blikuna í sínu kjördæmi þá sjaldan pokasíurnar í hreinsivirkjunum á Grundartanga væru ekki virkar. Það segir sannarlega sína sögu um hvað menn hefðu sagt ef ekki hefði verið ráðist í þær mengunarvarnir sem urðu niðurstaðan varðandi byggingu verksmiðjunnar á Grundartanga. Ég tel að það hafi verið mjög vel að staðið að því leyti, að reynt var að vanda til sem frekast var kostur, vil ég segja, tæknilega séð varðandi búnað þeirrar verksmiðju, a. m. k. varðandi ytra umhverfi og ég hygg raunar einnig varðandi innra umhverfi. Ástæðan var eflaust m. a. sú, hversu mikil og ítarleg umræða fór fram um þetta vandamál.

Ég get ekki neitað því að ég kom aðeins að þessu máli og það var löngu áður en mér datt í hug að ég ætti eftir að koma sem þm. inn á hv. Alþingi. Ég kom inn í þetta sem náttúruverndarmaður og fulltrúi í Náttúruverndarráði og átti á þeim vettvangi hvað mestan þátt í að Náttúruverndarráð veitti jákvæða umsögn varðandi möguleika á að leysa mengunarvandann á Grundartanga. Sá texti, sem ég skrifaði sem umsagnaraðili um þetta og lagði fyrir ráðið í drögum, var saminn eftir bestu vitund og á móti orðum og varnaðarorðum margra minna flokksbræðra sem ræddu málið hér á hv. Alþingi. Ég hafði farið í ferð til Noregs m. a. til að líta á árangur, sem orðið hefði af nýlegum mengunarvörnum í þessum iðnaði þar, og sannfærðist um að hægt væri að ráða við þetta vandamál með þeim búnaði sem þá var nýkominn í notkun og nokkur reynsla fengin af í einni verksmiðju í Kristiansand í Noregi. Ég tel að þetta hafi í raun tekist mjög vel varðandi kísilrykið.

Það, sem bent er á sérstaklega varðandi mengunarhættu af þessari verksmiðju við aðstæður sem ríkja kunna í Reyðarfirði stöku sinnum, þ. e. logn og hitahvörf, er mengun af völdum brennisteinstvíoxíðs eða brennisteinstvísýrings og það er full ástæða til að gefa því atriði gaum og átta sig á með hvaða hætti þar er hægt að bregðast við til að draga sem verða má úr hættu af slíkri mengun. Þar er bent á hönnunaratriði sem taka beri inn í myndina, og þar er einnig bent á að gera kröfur til hráefna, en við skulum ekki mikla þetta um of fyrir okkur. Heilbrigðiseftirlit ríkisins er auðvitað varúðarmegin og ber að vera varúðarmegin í þessum efnum og virði ég það ekki til verri vegar, síður en svo. En það magn af brennisteinstvíoxíði, sem þarna er talið á ferðinni, er mjög ofmetið í umsögn Heilbrigðiseftirlitsins, að mér er tjáð, og ég held að það hafi komið í ljós við samræður á milli aðila um þetta efni, að þarna er í rauninni um svipað magn af brennisteinstvíoxíði að ræða og kemur frá meðalstórri loðnuverksmiðju. Er ég þó ekki að segja að allt sé gott sem frá þeim kemur, það er mjög langt frá því. En menn verða ekki varir við þessa mengun, hún er lyktarlaus og hún er litlaus, en hún getur verið ertandi ef hún er í ríkum mæli í andrúmsloftinu við viss skilyrði og eins og ég gat um í framsögu minni getur hún einnig valdið sýringu í jarðvegi samfara regni þegar þannig háttar til. Hefur þetta skapað vandamál í iðnaðarhverfum í Evrópu og í sunnanverðri Skandinavíu, eins og ég gat um í inngangi mínum er ég mætti fyrir þessu máli.

Þá skal ég fara að stytta mál mitt. Ég hef þegar vikið að flestu því sem beint var til mín sem athugasemdum eða fyrirspurnum.

Hvað snertir hafnarmannvirkin held ég að engum blandist hugur um að aðstaða til hafnargerðar einmitt við Mjóeyri í Reyðarfirði er með því allra besta sem til er á landinu. Það er ekki víða sem hægt er að koma við að byggja stórskipahöfn fyrir, ef ég man rétt, tæpar 30 millj. kr. Þetta er að mati hafnamálastjórnar.

Varðandi kjördæmisviðhorf í þessu máli vil ég leyfa mér að vekja athygli hv. þdm. á því, að ég hef ekki verið að safna neinum stórkostlegum minnismerkjum, sem óeðlilegt geti talist, í sambandi við þessi efni í mínu kjördæmi, ef menn taka tillit til þess, að þar er að finna þriðjunginn af hagkvæmustu vatnsorku landsins. Samt lútum við því Austfirðingar, þm. Austurlands, að mæla með því að það verði ráðist í að beisla þann sopa sem rennur til sjávar í öðrum landshluta og er þá nærri fullvirkjað. (Gripið fram í.) Og allt í fári þar til fyrir skömmu að friðvænlegar horfir. En það er sannarlega tími til kominn að hugað sé að því að nýta þessar ríkulegu orkulindir Austurlands, því það verður auðvitað ekki gert á mjög skömmum tíma svo vel fari, og ef ætti að fara út frá því sjónarmiði ætti ekki að vera vafi á hvar fyrst ætti að hefjast handa í rauninni. Þarna er sem sagt verið að byrja með því að setja upp fyrirtæki sem allra fyrstu árin er gert ráð fyrir að fái orku sína aðflutta frá virkjunum í öðrum landshlutum eftir því línukerfi sem byggt hefur verið upp og er í uppbyggingu og síðan fái það einmitt orku frá þeirri virkjun sem verður önnur í röðinni, hinni stóru Fljótsdalsvirkjun.

Ekki vil ég hefja hér upp deilur eða upprifjanir varðandi búskapinn á kristfjárjörðum eða spurningunni um hvort það sé réttmæt ráðstöfun, sem lagt er til í þessu frv., að selja umræddar kristfjárjarðir til ríkisins. Um það hefur tekist góð samvinna milli sveitarfélaganna, sem hugsa einmitt til að nýta afraksturinn af söluandvirði í sama tilgangi og frumhugmynd með kristfjárjörðum mun hafa stefnt að. (Gripið fram í: Áttu þær ekki að vera til framfærslu þurfalinga?) Jú, en sem betur fer eru aðstæður á Austurlandi breyttar frá því sem var á þjóðveldisöld, þegar þessar jarðir voru lagðar undir Kristbónda. Heimildir eru eldri en svo að þær finnist varðandi þessa gjörð, en það er a. m. k. fyrir miðja 14. öld sem ráðið var að leggja þessar jarðir til framfærslu bágstaddra. En hugmynd sveitarfélaganna, sem hafa undirbúið samning um þetta mál, mun vera að leggja til að afrakstrinum verði varið til að hlúa að öldruðum, byggja yfir aldraða, og er það góð og verðug hugmynd.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég hef reynt að veita hv. þdm., sem um þetta mál hafa talað, nokkra úrlausn. Ég bið velvirðingar á því, að ég hef ekki haft hér svör á reiðum höndum við öllu, en ég þakka undirtektir þeirra við þetta mál og ég þakka þann hug, sem hér hefur fram komið, að reyna að koma málinu fram þó skammur tími sé til þingloka, og mun fyrir mitt leyti hlutast til um að mönnum gefist færi á að hvetja væntanlega stjórn þessa fyrirtækis til að hafa auga á því, að hv. Alþingi geti fengið að fylgjast með þessu máli og fái til meðferðar þær niðurstöður úr framhaldsathugunum sem þurfa að liggja fyrir áður en afstaða verður tekin til atriða sem þurfa að liggja fyrir samkv. 3. gr. frv. áður en ráðið verður um framkvæmdir við verksmiðjuna.