05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4771 í B-deild Alþingistíðinda. (4572)

28. mál, almannatryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Nd. gerði nokkrar breytingar á því frv. sem hér er til umr., frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971 með síðari breytingum.

Fyrsti flm. þessa frv. var hv. þm. Kjartan Jóhannsson. Frv. fjallaði um óhjákvæmilegan ferðakostnað samlagslæknis og óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks manns í sjúkrahús o. s. frv., eins og þar stendur. Eins og hv. Ed. afgreiddi þetta mál frá sér var gert ráð fyrir að óhjákvæmilegur ferðakostnaður samlagslæknis væri alfarið greiddur þegar ekið væri lengra en 10 km. Í Nd. var gerð sú breyting á þessu, að samlagsmaður skyldi ávallt greiða 20 krónur. Að því er varðar óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks manns í sjúkrahús var gerð sú breyting í Nd., að Tryggingastofnun skyldi greiða 7/8 hluta, þó greiði samlagssjúklingur aldrei meira en 500 kr. Að því er varðar fylgd hins sjúka, þá er átt við fylgdarmann, verði 7/8 hlutar af þeim kostnaði greiddir jafnvel þótt þótt um áætlunarferð sé að ræða.

Herra forseti. Ég hef ekki séð ástæðu til að kalla heilbr.- og trn. saman út af þessu máli. Á því hefur verið þreifað við hv. nm., hvernig þeim falli í geð þessar breytingar sem þeim voru kynntar lauslega meðan málið var til umfjöllunar í Nd. Ég hygg ég mæli þar fyrir munn nm. að það er fallist á þessar breytingar og þetta handbragð Nd.-manna á frv. Legg ég því til að frv. verði samþykkt.