05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4771 í B-deild Alþingistíðinda. (4573)

28. mál, almannatryggingar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þessi breyting hv. Nd. á frv. er auðvitað frekar spjöll á því. Það er langtum betra og mun skynsamlegra eins og það var flutt í upphaflegri mynd. Ég féllst á nokkrar breytingar, sem voru gerðar í hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar, og taldi að frv. héldi gildi sínu að mestu leyti þrátt fyrir það. En heldur hefur sigið undan í meðferð hv. Nd., þar sem þau kerfissjónarmið hafa orðið ofan á að gera ævinlega og ætíð ráð fyrir því, að þeir, sem sjúkir eru, eigi þá ósk heitasta og virðist helst vera að hugsa um það að plata almannatryggingakerfið. Þessi viðhorf setja að mínum dómi allt of rík mörk á þá löggjöf sem í gildi er varðandi almannatryggingar, í stað þess að það á að mótast af því viðhorfi að hér sé um samhjálp að ræða. Engu að síður verður að viðurkenna að hér er um að ræða spor í rétta átt, miðað við þá mynd sem frv. er í núna, og því einsýnt og eingefið að mæla með því, að það verði samþykkt í þeirri mynd eins og á stendur nú.