06.05.1982
Neðri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4775 í B-deild Alþingistíðinda. (4578)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er þetta frv., eins og það nú er, aðeins um hluta þess máls sem hér er um að tefla. Ljóst er að það þarf að setja víðtækari löggjöf um fóðuriðnað heldur en hér kemur fram, enda var gert ráð fyrir því þegar frv, var upphaflega lagt fram. Hluti af frv. hefur verið dreginn til baka, m. a. í samræmi við ábendingar Búnaðarþings og ábendingar úr þingnefnd sem um málið hefur fjallað.

Því hefur verið yfirlýst af minni hálfu, að ég muni láta athuga þetta mál frekar á þessu sumri, þannig að gera má ráð fyrir að unnt verði að leggja málið að nýju og þá í víðtækara formi fyrir næsta Alþingi. Ég vil gefa þá yfirlýsingu hér, að ég mun um val manna í nefnd til þess að fjalla um þetta mál hafa samráð við þingflokkana til þess að greiða fyrir því, að þetta mál verði þannig undirbúið, þegar það kemur aftur til kasta Alþingis, að meiri líkur séu til að það hljóti samþykki hv. Alþingis í heild, eins og auðvitað er þörf á að gert verði. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um það frekar hér, en ég vænti þess, að þessi yfirlýsing megi duga til þess að greiðara verði að koma fram þeim ákvæðum sem frv. hefur nú að geyma og eru í mínum augum mjög mikilvæg.

Ég vil svo aðeins bæta því við vegna þess, sem síðast kom fram í máli hv. 2. þm. Suðurl., að varðandi yfirlýsingu okkar hæstv. fjmrh. varðandi framlög til rafstrengs, sem frægt er orðið, þá er ónotað fé frá fjárlögum 1981, 900 þús. kr., sem unnt er að nota í þessu skyni. Þessi rafleiðsla ásamt spenni er talin kosta 300–400 þús. kr., og mörg fordæmi eru fyrir því, að slíkar raflagnir séu kostaðar af ríki utan hlutafjárframlaga. Þetta vildi ég að kæmi hér fram þó að það hafi áður verið skýrt.

Ég vænti þess, að orð mín megi verða til þess að greiða fyrir því, að frv. verði afgreitt eins og það liggur nú fyrir og tekin verði fyrir að nýju til athugunar ýmis önnur ákvæði um þetta efni sem nauðsynlegt er að lögfesta.