06.05.1982
Neðri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4778 í B-deild Alþingistíðinda. (4580)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er raunverulega illt að þurfa að standa að minnihlutaáliti eins og við höfum gert í minni hl. landbn. vegna þess frv. sem nú er til umr. Ástæðan fyrir því, að við höfum lagt til að frv. verði vísað til ríkisstj., er fyrst og fremst sú, að við teljum frv. um margt ærið götótt og gallað. Hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur nú gert grein fyrir nokkrum þeim atriðum sem við höfum staldrað við í nefndinni, og það gerði raunar líka hv. þm. Steinþór Gestsson.

Það, sem við Alþfl.-menn höfum haft við þetta frv. að athuga, er að hér er raunverulega verið að gefa út óútfyllta ávísun til handa ríkisstj. eða þeim ráðh. sem með þetta mál fer, þar sem frv. liggur nú þannig fyrir að ekkert er tekið fram um hámark á eignarhlut ríkisins í væntanlegum fóðurverksmiðjum né um fjölda þeirra verksmiðja sem þessi lög ná til. Það er af þeim sökum sem við höfum flutt það nál. sem hér liggur fyrir. Ég sagði áðan að það væri raunverulega illt að þurfa að vísa svo gagnmerku máli til ríkisstj. eins og það er að efla smíði fóðurverksmiðja hér á landi. Þetta er geysilega veigamikið og mikilvægt mál, ekki eingöngu fyrir bændur, eins og hér hefur komið fram, heldur fyrir þjóðina alla. Það er eytt óhemjulegum fjármunum og dýrmætum gjaldeyri til fóðurkaupa erlendis frá, og úr þeim kostnaðarlið þarf nauðsynlega að draga. Það kemur hins vegar á móti, að í fóðurverksmiðjum hér á landi, sem fyrir eru, er í sumum notað mikið af olíu sem auðvitað kostar gjaldeyri líka og kemur þar á móti. Það kemur fram í athugun, sem fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur gert, að innlenda fóðurvaran er heldur dýrari en sú erlenda þannig að þar þarf auðvitað að athuga frá tæknilegu sjónarmiði hvort hægt sé að gera þessa framleiðslu ódýrari en nú er og það væri unnt með notkun jarðhita.

En veigamesta atriðið í sambandi við það, að við framleiðum grasköggla eða fóðurvörur almennt fyrir búfé, er e. t. v. það, að þannig verðum við óháðir öðrum þjóðum í sambandi við innflutning á þessum varningi. Það þarf ekki stórslys í viðskiptalöndum okkar, þeim sem við flytjum fóðurvöruna frá, til þess að við fáum ekki þennan nauðsynlega varning til landsins. Ég vil bara nefna sem dæmi það sem nú hefur gerst í Danmörku, þar sem komið hefur upp gin- og klaufaveiki. Síðan hún kom upp hefur ekki verið heimilt að flytja fóðurvörur hingað til lands frá Danmörku. Það er m. a. af þessari ástæðu að ég tel feikilega nauðsynlegt fyrir okkur að verða sjálfum okkur nógir með það fóður sem við þurfum að nota í landbúnaðinum.

Ég heyrði hér yfirlýsingu hæstv. landbrh. og þótti vænt um hana. Ég hefði gjarnan kosið að hún hefði komið öllu fyrr, hún hefði komið áður en við fjölluðum um þetta mál í hv. landbn. Mér fannst þessi yfirlýsing hans mjög afdráttarlaus. Þar kemur fram viðurkenning á því, að það þurfi að endurskoða þessi lög. Ég vil segja fyrir mig persónulega, að eftir þessa yfirlýsingu hans gæti ég hugsað mér að íhuga málið nokkru betur ef tími gæfist til þess. Við erum hins vegar orðnir mjög tímanaumir hér með afgreiðslu allra mála, og ég vil þá beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh., hvort hann sé tilbúinn að gefa þá yfirlýsingu hér í sambandi við þetta frv., að þessari endurskoðun, sem hann talaði um og hét að færi fram á þessum lögum og fóðurverksmiðjumálunum í heild, yrði lokið fyrir næstu áramót. Ég tel mjög nauðsynlegt að sú yfirlýsing liggi fyrir, ef menn ætla á annað borð að endurskoða afstöðu sína til þessa máls.

Eins og ég sagði upphaflega liggur frv. núna þannig fyrir að það er vart sómasamlegt að afgreiða það án þess að einhverjar slíkar yfirlýsingar komi fram í málinu sem séu bindandi fyrir hæstv. ráðh. og hans rn., því að frv. og einkum og sér í lagi 1. gr. þess er þannig úr garði gerð frá höfundum frv. að þar er allt opið í alla enda og allar áttir og raunverulega, eins og ég sagði upphaflega, verið að gefa hæstv. ráðh. og ríkisstj. óútfyllta ávísun sem húnsíðan getur fyllt út eftir hendinni.

Ég verð líka að segja það, að ég saknaði þess talsvert í umfjöllun hv. Ed. á þessu máli, að þar skyldi ekki leitað umsagna tæknifróðra manna. Ég tel að þarna sé á ferðinni svo mikið tæknilegt mál að þingið eigi nokkurn rétt á því að fá að vita hvaða afstöðu tæknifróðir menn hafa til þess, hvernig verksmiðjur eigi að reisa, hvað eigi að hafa sérstaklega í huga þegar þær eru undirbúnar o. s. frv. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að það var gefið út nál., mér er ekki kunnugt um dagsetningu þess, en það mun hafa verið fyrir árið 1973, álit samstarfsnefndar Búnaðarfélags Íslands og Landnáms ríkisins um grænfóðurverksmiðjur, og þar finnst mér gæta ótrúlegrar þversagnar í áliti nefndarmanna á þessum verksmiðjusmíðum. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Nefndin telur, að flest bendi til þess, að þessar rekstrareiningar séu ekki hagkvæmar, og vill í því sambandi vísa til greinargerðar“ o. s. frv., en hér er verið að tala um rekstur verksmiðjanna í Gunnarsholti og annarra svipaðra. Síðan segir, með leyfi forseta: „Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til, að þegar verði gerð áætlun um endurbyggingu verksmiðjunnar í Gunnarsholti þannig að eimingargeta hennar verði a. m. k. 10 tonn á klukkustund, sem svarar til ca. 4000 tonna framleiðslu, og stefnt að því, að sú breyting geti orðið sem allra fyrst.“

Nú hefur þessi breyting orðið. Hins vegar segir í þessu nál. síðar, með leyfi forseta: „Verði byrjað með litla verksmiðju má benda á að í Lauftúni eru byggingar þar sem mætti koma fyrir sambærilegri vélasamstæðu og þeirri, sem nú er í Gunnarsholti. Þar þyrfti aðeins að byggja geymsluhús og gera breytingar á öðrum byggingum. Sá möguleiki gæti skapast að flytja tæki verksmiðjunnar í Gunnarsholti og setja þau upp á þessum stað yrðu fengin ný og stærri tæki í verksmiðjuna í Gunnarsholti.“

Ég held að hver maður, sem þetta les, hljóti að hnjóta um þetta orðalag, þar sem á einni bls. er sagt, að Gunnarsholtsverksmiðjan sé óhagkvæm vegna þeirrar stærðar sem hún er í, en síðar í álitinu er lagt til að reisa verksmiðju á öðrum stað af sömu stærð og jafnvel að nota vélar verksmiðjunnar í Gunnarsholti. Ég vona nú og treysti að þetta sé ekki sá andi sem að baki býr þegar menn eru að undirbúa smíði fóðurverksmiðja.

Ég skal ekki lengja þessa umr., herra forseti. Ég vil draga saman í örfá atriði það sem ég hef nú sagt: Ég tel frv. í eðli sínu og í grundvallaratriðum mjög mikilvægt og tel mjög nauðsynlegt að frv. af þessu tagi fái framgang hér á hinu háa Alþingi. Þetta frv. er hins vegar meingallað, eins og hér hefur komið fram og ég tók fram við umr. um þetta frv. í landbn. En það er nú svo mikill hraði á afgreiðslu allra mála hér á hinu háa Alþingi, að það reyndist ekki unnt að reka þá varnagla, sem nauðsynlegt hefði verið, í þetta frv. til þess að setja hámarkstölu um hlutafjáreign ríkisins og fjölda þeirra verksmiðja sem frv. ætti að ná til. Ég harma raunverulega að nefndin skyldi ekki sjá sér fært að leysa málið á þennan hátt. Það hefði verið einföld og þægileg lausn og málið ekki þvælst fyrir þinginu á nokkurn hátt að ég tel. En landbrh. hefur gefið hér mjög veigamikla yfirlýsingu sem ég álykta að þm. hljóti að líta til þegar þeir taka afstöðu til þessa máls.