06.05.1982
Neðri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4784 í B-deild Alþingistíðinda. (4584)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í umr. hér fyrri nótt, þegar þessi hv. deild hafði lokið við að afgreiða frv. sem flutt hafði sá ágæti dm., skrifari þessarar deildar, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, lét hæstv. fjmrh. þess getið í umr. um annað mál, að þarna hefði deildin orðið sammála um að afgreiða vitlausasta mál sem til hennar hefði komið. Slíkt mat hefur nú ekki farið fram í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar á þeim málum sem til deildarinnar hafa verið lögð. En ég er sannfærður um það, að ef slíkt mat væri látið fara fram í hv. fjh.- og viðskn. Nd. á þeim málum sem hún hefur fjallað um, þá mundu atkv. allra nm., án tillits til þess í hvaða flokki þeir sitja, falla á frv. um skattskyldu innlánsstofnana sem hér er til meðferðar. Það mál held ég að fjh.- og viðskn. mundi verða sammála um að kjósa vitlausasta mál sem hún hefði fjallað um á þessu þingi. Ég er nokkuð sannfærður um að hv. skrifari þessarar deildar, Ólafur Þ. Þórðarson, mundi verða sammála nefndinni væri hann spurður.

Það er út af fyrir sig ekkert nýtt mál að það komi í hug núv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst Alþb., að e. t. v. væri unnt að sækja fé í ríkissjóð með þeim hætti að skattleggja bankastofnanir, Seðlabanka Íslands eða innlánsstofnanir. Það hefur lengi verið staðföst trú Alþb., sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson lýsti hér oft úr ræðustól á Alþingi, að það, sem síst vantaði í okkar þjóðfélag, væru peningar, það væri til nóg af peningum á Íslandi til þess að sækja í hvaða viðfangsefni sem Alþb. og ríkissjóður hefðu hug á. Það virðist hins vegar hafa vafist nokkuð fyrir hæstv. fjmrh. að gera tillögur um, eftir að hann fékk nú að ráða hvert þessir peningar yrðu sóttir, hvar ætti að bera niður til að sækja þá peninga þar sem ekki hefði verið borið niður áður. Og ég verð að segja eins og er, að ég hef ekki orðið var við það, að hæstv. fjmrh. og flokki hans, Alþb., hafi hugkvæmst nokkuð nýtt í þessu sambandi. A. m. k. hafa einu úrræðin hjá Alþb. og núv. hæstv. ríkisstj., þegar hún hefur þurft á auknum peningum að halda, verið fólgin í því að sækja þá í sömu vasa og áður hafa greitt útgjöld ríkisins, þ. e. í vasa almenns launafólks. Ég verð ekki var við að nein stefnubreyting hafi orðið í fjáröflun ríkisins með tilkomu Alþb. eða öllu heldur þingmanns Alþb. í stól fjmrh., síður en svo. Nú virðist það vera helsta mál, sem Alþb.-menn hrósa sér af, að þeir sem stjórnendur ríkisfjármála séu íhaldssamari og afturhaldssamari í þeim efnum heldur en jafnvel nokkur sá maður sem valist hefur til sama starfs úr Sjálfstfl. Það virðist vera að blað Alþb., Þjóðviljinn, telji það Alþb. til sérstaks hróss, að það orð skuli liggja á hæstv. fjmrh. með réttu, að hann sé með íhaldssömustu mönnum sem í fjmrn. hafi komið. Það, sem áður fyrr voru skammaryrði í munni þessara hv. Alþb.-manna, eru nú orðin hrósyrði. Það, sem þeir helst hrósa sér af nú um stundir, er að hæstv. fjmrh. sé meiri Matthías í rn. heldur en Matthías Á. Mathiesen var í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, að hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds sé meiri og betri Matthías Á. Mathiesen en Matthías Á. Mathiesen var sjálfur. Þannig hefur nú farið fyrir endurhæfingu Alþb. í þessari ríkisstj.

Vissulega ber að fagna þeirri endurhæfingu í ríkisfjármálum sem orðið hefur á Alþb. í núv. ríkisstj. En fyrr má nú rota en dauðrota. Það virðist vera hjá þeim Alþb. mönnum ýmist í ökkla eða eyra. En fyrr má nú vera en að endurhæfingin nái svo langt að þeir telji sér helst til gildis að vera afturhaldssamari en afturhaldið í stjórn ríkisfjármálanna. Það er að sjálfsögðu mál sem þeir verða að eiga við sína kjósendur, eins og stendur nú fyrir dyrum. Nú fara þeir væntanlega, hv. Alþb.-menn, senn hvað líður að uppskera það sem þeir hafa til sáð, og ekki verðum við andstæðingar þeirra varir við annað heldur en eftirtekjan og uppskeran sé í fullu samræmi við sáningarstarfið.

Eins og ég sagði áðan er það engin ný hugmynd hjá Alþb., að það hljóti að vera til peningar í bönkunum sem hægt sé að nota til hinna ýmsu þarfa. Það er ekki langt síðan menn skemmtu sér yfir því, bæði hér á Alþingi og annars staðar, þegar þeim datt það í hug, Alþb: mönnum, að það mætti skattleggja og nota sem skattstofn þann ágóða sem þeir töldu að Seðlabankinn yrði fyrir þegar eign Seðlabankans í erlendum gjaldeyri væri uppfærð til nýs verðs í íslenskum krónum við gengisfall krónunnar. Það stóð lengi til og var oft ítrekað gerð um það till. af þeim Alþb. mönnum, bæði í ríkisstj. og í Þjóðviljanum, að sá mikli hagur, sem Seðlabankinn hefði af því að gjaldeyriseign hans hækkaði í íslenskum krónum við hverja gengisfellingu, sá ágóði Seðlabankans yrði skattskyldur í ríkissjóð. Þetta þótti mörgum vera harla einkennilegur máli að skilgreina ágóða Seðlabankans þar eð þetta mundi þýða að þeim mun meiri og þeim mun oftar sem gengisfellingar yrðu, þeim mun meira ætti Seðlabanki Íslands að hafa grætt og þeim mun meiri möguleika ætti ríkissjóður að hafa á að hafa hagnað af þessum ágóða Seðlabanka Íslands. Í margar vikur, jafnvel marga mánuði stóðu yfir deilur við Alþb. um þessi mál. En það virðist vera að endurhæfingin hjá Alþb. í fjmrn. hafi nú náð til Seðlabankans líka, því að nú halda þeir því ekki lengur fram, Alþb.-menn, að það sé stór ávinningur að því fyrir Seðlabanka Íslands að eiga fé í erlendum gjaldeyri í gjaldeyrishirslum sínum sem síðan hækki í íslenskum krónum í hvert skipti sem gengisbreyting er gerð til lækkunar á verðgildi íslensku myntarinnar og þannig skapist m. ö. o. stórkostlegur ágóði hjá Seðlabankanum vegna þess að krónutölurnar hækka, sem sýna gjaldeyrisinneign hans, og þessi ágóði eigi að renna í ríkissjóð. Þessar hugmyndir Alþb. manna að hafa þannig stórkostlegan fjárhagslegan ávinning fyrir ríkissjóð af hverri gengisfellingu með því að skattleggja gjaldeyriseign Seðlabankans hafa ekki heyrst nefndar nú í marga mánuði, og er það til vitnis um að endurhæfingin heldur áfram. Nú er hins vegar hugkvæmdin sú að hætta við áætlanirnar um að skattleggja gjaldeyriseign Seðlabankans og verðuppfærslu hennar í íslenskum krónum e. t. v. ekki hvað síst vegna þess að á síðasta aðalfundi Seðlabankans var frá því greint að viðstöddum öllum ráðherrum ríkisstj., að ágóði af rekstri Seðlabankans á s. l. ári hefði ekkí aldeilis verið jafnmikill og Alþb. hélt að mundi verða, heldur var Seðlabankinn þvert á móti rekinn á s. l. ári með tapi. Endurhæfing Alþb. í fjmrn. hefur þó borið þann árangur, að a. m. k. opinberlega telja þeir ekki líklegt til árangurs í tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð að skattleggja töpin. M. ö. o.: menn í Alþb. hafa nú lagt Seðlabankann til hliðar, a. m. k. um stundir, en hefur hugkvæmst í staðinn að skattleggja annan hluta bankageirans, þ. e. viðskiptabanka og sparisjóði.

Eftir þeim upplýsingum, sem við höfum fengið í fjh.- og viðskn., sem fjallað höfum um þessar hugmyndir hæstv. fjmrh. og ríkisstj., mun ákvörðunin um að framkvæma þessa skattlagningu fyrst hafa verið tekin í lok janúarmánaðar á s. l. ári. Þá eins og oft áður komst hæstv. ríkisstj. að niðurstöðu um svokallaðar efnahagsaðgerðir sem hún hygðist gera til þess að bjarga ekki bara heiðri og sóma Alþingis, eins og gert var þegar hæstv. forsrh. myndaði ríkisstj. sína, heldur ekki síður heiðri og sóma þjóðarinnar. Menn komust að þeirri niðurstöðu eins og oft áður, að til þess að hægt væri að velta öllum hlutum áfram um nokkurra vikna skeið til viðbótar, þá vantaði í ríkissjóð öllu meira fé en þar var fyrir. Þá var nærtækast að leita að því, hvaðan þá fjármuni mætti fá, og mönnum hugkvæmdist það, að þó nú væri ekki hægt að fá þá hjá Seðlabankanum með því að skattleggja rekstrartöp hans á s. l. ári, þá væri e. t. v. möguleiki að bera niður í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Í lok janúarmánaðar s. l. var þannig tekin ákvörðun um það í ríkisstj., að þetta skyldi gert, viðskiptabankar og sparisjóðir skyldu skattlagðir um ákveðna fjárhæð. Síðan, þegar sú ákvörðun hafði verið tekin, var embættismönnum í fjmrn. falið að semja frv. um það, hvernig þessa skattheimtu ætti að framkvæma. Það gerðu þessir ágætu embættismenn í fjmrn. Það liggur þó fyrir og hefur ekki verið mótmælt, þrátt fyrir það að í fjmrn. starfi hinir mætustu menn, m. a. ýmsir þeir menn sem mesta og besta þekkingu hafa á skattamálum á voru landi, þá er þar enginn maður starfandi sem hefur sérþekkingu á skattlagningarmálum innlánsstofnana. Þessar stofnanir hafa ekki verið skattlagðar til tekjuskatts á Íslandi. Það er hins vegar gert í ýmsum nálægum löndum, en fjmrn. hefur ekki yfir að búa neinni sérþekkingu um þau mál þó svo þar séu margir mætir og góðir menn sem séu vel heima í öðrum þáttum skattamála. Einnig var því lýst yfir á fundum fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, að sú sérþekking um skattamál innlánsstofnana, sem ekki er fyrir hendi í fjmrn., væri ekki heldur í öðrum stofnunum ríkisins. T. d. kom sú yfirlýsing frá bankastjórum Seðlabanka Íslands, að í starfsliði bankans væri næsta lítil þekking á þessum málum og næsta lítið hægt að leiðbeina fjmrn. eða Alþingi um hvernig best væri hagað skattlagningu á innlánsstofnanir. Mönnum bar saman um það, bæði seðlabankamönnum og höfundum frv. í fjmrn., að samningu frv. um skattskyldu innlánsstofnana hefðu menn þurft að vinna með miklum flýti og e. t. v. óeðlilega miklum hraða, a. m. k. óæskilega miklum hraða og án þess að hafa getað aflað sér nægilega haldgóðra upplýsinga um sambærileg mál í nálægum löndum til þess að styðjast við sem fyrirmyndir.

Hv. formaður fjh.- og viðskn, þessarar deildar, Halldór Ásgrímsson, hefur endurvakið þann gamla og góða sið að birta í nál. öll skrifleg gögn sem fjh.- og viðskn. hefur fengið þegar hún hefur fjallað um tiltekin mál. Þetta mun hafa verið almennur siður í nefndarstarfi hér fyrr meir, að þegar nefndir skiluðu af sér tillögum sínum og afstöðu til tiltekinna málefna létu þær prenta í fskj. allar umsagnir sem til þeirra höfðu borist þannig að alþm. og almenningur, sem ekki eiga þess kost að sitja fundi þingnefnda, gætu fengið að sjá svart á hvítu hvert hefði verið framlag ýmissa hagsmunaaðila til þess máls sem á dagskrá hefði verið hverju sinni. Allar þær upplýsingar, sem fjh.- og viðskn. Nd. fékk um frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana, eru þannig prentaðar sem fskj. í nál. á þskj. 892. Þessi vinnubrögð fjh.- og viðskn. og formanns þeirrar nefndar eru að sjálfsögðu mjög lofsverð. Þessi vinnubrögð gera mönnum m. a. fært, almennum þm. og öllum almenningi, að skoða umsagnir og ábendingar sem nefndir þingsins hafa fengið um tiltekið málefni, og spara því eða ættu að geta sparað umr. hér á þingi.

Ég vil í sambandi við tæknileg atriði þess máls, sem hér liggur fyrir, frv. um skattskyldu innlánsstofnana, sem ég hef lýst hér í örfáum orðum, vitna aðeins í og biðja menn að skoða fskj. sem eru með nál. á þskj. 892, til þess að menn geti sjálfir gengið úr skugga um hversu erfiðlega og hversu lítinn tíma öllu heldur menn í fjmrn. höfðu til þess að semja lög um skattskyldu innlánsstofnana í kjölfar ákvörðunar hæstv. ríkisstj. um að innlánsstofnanir og bankar og sparisjóðir skyldu greiða tiltekinn skatt til ríkisins. Það er t. d. mjög athyglisvert, að fjh.- og viðskn. berast í hendur mjög ítarlegar grg., fyrst frá Sambandi viðskiptabanka og Sambandi sparisjóða og í öðru lagi frá Seðlabanka Íslands, sem m. a. fela í sér ýmsar veigamiklar ábendingar um tæknilega útfærslu frv. sem m. a. stangast mjög á við gildandi reglur í skattamálum, ekki bara hérlendis, heldur stangast einnig mjög verulega á við þær reglur sem gilda um skattameðferð innlánsstofnana í öllum nálægum löndum.

Í fjh.- og viðskn. Nd. gáfum við fjmrn. kost á að svara þessum ítarlegu ábendingum bankanna og Seðlabanka Íslands, og svar fjmrn. er prentað sem fskj. IV á bls. 14 í nál. Þar kemur í ljós, eins og við mátti búast, að embættismönnunum í fjmrn., sem hafa enga sérstaka sérþekkingu á málefnum innlánsstofnana og skattamálum þeirra, vefst tunga um tönn þegar þeir þurfa að svara ýmsum ábendingum sem fram hafa komið frá bönkum og Seðlabanka Íslands, og sumum aths. geta þessir aðilar hreinlega ekki svarað vegna þess að í fyrsta lagi eru aths. réttmætar og í öðru lagi skortir þá aðila, sem frv. höfðu samið, í senn sérþekkingu, jafnvel þá þekkingu sem bankarnir, Seðlabanki og viðskiptabankar, hafa yfir að búa á þessum málum, og einnig allar upplýsingar um hvernig sambærilegri skattheimtu er fyrir komið í nálægum löndum.

Ég vil vekja sérstaka athygli hv. dm. á þessu svari fjmrn. við athugasemdum og ábendingum bankanna og Seðlabankans og hins vegar svari við því svari, sem Samband ísl. viðskiptabanka gaf og er dagsett 4. maí s. l., þar sem er m. a. bent á það, að í veigamiklum atriðum sé umsögn fjmrn. um aths. bankanna ekki neitt annað en fyrirsögnin ein um það sem um er spurt, en hv. rn. treystir sér að öðru leyti ekki til þess að gefa neitt svar við ábendingum viðskiptabanka og sparisjóða. Það er því samdóma álit, ekki bara viðskiptabankanna og sparisjóðanna og Seðlabanka Íslands, heldur einnig þeirra annars vegar og fjmrn. hins vegar, að smíði frv. sé öll meira og minna í skötulíki, í fyrsta lagi vegna þess, hversu stuttur tími gafst til samningar þessa frv., í öðru lagi vegna þess, að hér er lagt út á nýja braut sem engin sérþekking er fyrirfinnanleg á í fjmrn., og í þriðja lagi vegna þess, að enginn tími gafst til þess að hafa samráð að nokkru marki við viðskiptabankana og Seðlabankann né að skoða sambærilega skattheimtu í nálægum löndum.

Niðurstaða fjh.- og viðskn. hefur verið sú að staðfesta þetta álit. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur orðið sammála um að þetta álit viðskiptabankanna og Seðlabankans, sem fjmrn. treystir sér ekki til þess að mótmæla, sé rétt. Þess vegna hefur stjórnarmeirihl. í fjh.- og viðskn. gripið til þess óyndisúrræðis að samþykkja með hangandi hendi að afgreiða frv., fyrst og fremst vegna mjög afdráttarlausrar kröfu frá hæstv. ríkisstj. að það sé gert, meira að því er virðist til að bjarga andliti hæstv. ríkisstj. heldur en vegna þess að hún telji að afgreiðslan sé bráðnauðsynleg út af fyrir sig. En stuðningsmenn ríkisstj. í fjh.- og viðskn. Nd. gera þá breytingu að mæla svo fyrir í ákvæði með frv. að endurskoðun frv. skuli raunar hefjast sama dag og frv. taki lagagildi héðan frá Alþingi, og viðurkenna með því, að frv., eins og það er úr garði gert og eins og Alþingi á að afgreiða það, sé raunar hvorki hrátt né soðið. Þessi tæknilegu atriði í sambandi við gerð frv., sem aths. komu fram hjá bönkunum, hafa í raun verið viðurkennd af Alþingi þó svo að stuðningsmenn ríkisstj. hafi ekki viljað fylgja þeirri viðurkenningu eftir með því að fallast á þá till. okkar stjórnarandstæðinga, að réttasta meðferð þessa máls væri að sjálfsögðu að vísa frv. til ríkisstj., ekki vegna þess að við stjórnarandstæðingar séum andvígir því að framkvæma skattlagningu hjá bönkum og öðrum innlánsstofnunum, heldur vegna þess að komið hefur fram við meðferð málsins að ákvæðin um það, hvernig þetta skuli gert, eru allsendis óviðunandi vegna þess, hvað þau eru illa úr garði gerð.

T. d., þó að það sé ástæðulaust að fara mjög ítrekað út í þá sálma vegna þess að þetta kemur mjög rækilega fram í fskj. með nál., þá vil ég aðeins benda mönnum á að það er gert ráð fyrir að innlánsstofnanir, bankar og sparisjóðir, verði einu stofnanirnar í landinu sem greiði staðgreiðsluskatt, greiði tekjuskatt í formi staðgreiðsluskatts í staðinn fyrir eftiráskatts. Það hefur alltaf verið við það miðað, þegar rætt hefur verið um staðgreiðslukerfi skatta, að það sé alveg ljóst að þá skattaprósentu, sem menn greiða af tekjum fyrra árs, sérstaklega í verðbólguþjóðfélagi eins og okkar, sé ekki hægt að yfirfæra óbreytta yfir í staðgreiðslukerfi, því að það hefði í för með sér stórkostlega þyngingu skattbyrða. Það er að sjálfsögðu mikill munur varðandi skattbyrði á því, hvort menn greiða t. d. helming tekna sinna, eins og þær voru í fyrra, í sköttum í ár eða hvort menn eru látnir greiða helming tekna sinna í skatta jafnóðum og þeirra tekna er aflað. Þegar horfið er frá eftirágreiðslukerfi yfir í staðgreiðslukerfi verður því að sjálfsögðu jafnframt að lækka skattprósentuna svo að skattbyrðin aukist ekki. Þegar ákvörðun er tekin um það af hæstv. ríkisstj., m. a. í þeim breytingum sem gerðar voru í Ed. Alþingis á frv. um skattskyldu innlánsstofnana, að setja þar á tímabundið staðgreiðslukerfi fyrsta ár gildistíma laganna, þá var engin hliðsjón höfð af því, að það þyrfti þá að samræma skattprósentuna staðgreiðslukerfinu. Þetta þýðir að það er ekki aðeins að bankar og innlánsstofnanir séu einu aðilarnir í þjóðfélaginu sem komnir eru á staðgreiðslukerfi skatta samkv. þessari breytingu, heldur eru þeir jafnframt látnir borga, verði þetta samþykkt, mun hærri prósentu af sínum tekjum í tekjuskatta heldur en aðrar stofnanir í þessu þjóðfélagi.

Ég held að ekki sé raunverulegur tilgangur ríkisstj. að hafa einhverjar aðrar reglur um banka og innlánsstofnanir í þessu sambandi heldur en aðrar stofnanir. Þetta stafar eingöngu af því, að frv., eins og það var í heldur Alþingis búið, er hvorki hrátt né soðið, er allt í skötulíki og menn eru að reyna að bjarga afgreiðslunni í horn með einhverju móti, með alls konar bráðabirgðaákvæðum og endurskoðunarákvæðum sem þýða raunverulega ekki annað en það, að stjórnarmeirihl. er að lýsa yfir að frv. í núverandi mynd sé raunar ekki nothæft, en vill ekki viðurkenna það í afgreiðslu sinni á málinu vegna þess að það kynni að geta haft einhver áhrif til ills á álit og hróður hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Því hefur haldið fram óbeint í þessari umr., að málið snerist um það, hvort bankar og aðrar innlánsstofnanir ættu að greiða skatt til ríkisins eða ekki. Það eru fjölmargir aðilar í okkar þjóðfélagi sem eru undanþegnir tekjuskattsgreiðslum til ríkissjóðs. Þessir aðilar eru að sjálfsögðu ríkissjóður sjálfur, ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki sem ríkissjóður rekur og ber ótakmarkaða ábyrgð á, enn fremur sýslu- og sveitarfélög svo og fyrirtæki og stofnanir sem sveitarfélög og sýslufélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á, auk þess félög, sjóðir, stofnanir og fleiri aðilar sem um ræðir í 2. gr. tekju- og eignarskattstaganna frá 1981, ef þessir aðilar verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkv. samþykktum sínum. M. ö. o. eru fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu aðrir en bankarnir og sparisjóðirnir sem greiða ekki tekjuskatt og eignarskatt til ríkisins.

Út af fyrir sig getur það verið réttmæt ákvörðun hjá hæstv. ríkisstj. að komast að þeirri niðurstöðu, að lögum verði breytt þannig að einhverjir þessara aðila, einn eða allir, viðskiptabankar og sparisjóðir alveg eins og einhverjir aðrir aðilar sem hér hafa verið taldir, verði sviptir þessum undanþágum frá tekjuskatti og taki til við að greiða tekjuskatta eins og önnur fyrirtæki í landinu án tillits til þess, hvernig um eignaraðild eða hlutverk sé farið. En hitt er mesti misskilningur, að halda því fram að viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir séu alfarið undanþegnir sköttum og gjöldum til hins opinbera. Á árinu 1980 greiddu þessir aðilar samtals bæði skatta og gjöld að upphæð 16 millj. 292 þús. nýkr., þar að auki gjaldeyrisskatt, sem gjaldeyrisbankarnir tveir greiddu, sem nam á því ári 20 millj. 708 þús. nýkr., eða samtals um 36 millj. 990 þús. kr. í heild. Þessi gjöld, sem aðilarnir greiða til hins opinbera, eru í fyrsta lagi landsútsvar, sem kemur í stað aðstöðugjalds, í öðru lagi fasteignaskattur til sveitarfélaga, í þriðja lagi sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, í fjórða lagi launaskattur, í fimmta lagi lífeyristrygginga-, slysatrygginga- og atvinnuleysistryggingaiðgjöld og svo, eins og ég nefndi áðan, í síðasta lagi gjaldeyrisskattur. Það er því ekki réttur skilningur þegar látið er í veðri vaka að bankar og innlánsstofnanir greiði ekkert til sameiginlegra þarfa — þvert á móti. Þeir gera það, þessir aðilar, þó svo þeir séu í hópi þeirra fjölmörgu opinberu aðila, ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, sem til þessa hafa verið undanþegnir tekjuskatti.

Ég hef þegar bent á það og ætla ekki að ítreka það né endurtaka, að eins og frv. er úr garði gert hefur ekki verið höfð hliðsjón af fyrirkomulagi tekjuskattsheimtu eins og hún er af innlánsstofnunum í nálægum löndum. Tekjuskattsheimtan af íslenskum bönkum og sparisjóðum, eins og ríkisstj. gerir ráð fyrir að henni sé fyrir komið, er á allt annan veg en fyrirkomulagið sem gildandi er í þessum málum í öllum nálægum löndum. Þetta kemur fram í umsögnum Sambanda banka og sparisjóða sem eru birtar sem fskj. með áliti fjh.- og viðskn. Nd., og er þarflaust fyrir mig að fara fleiri orðum þar um. Menn geta séð það með því að fletta upp í þeim fskj. Þá hef ég einnig bent á það, sem einnig kemur fram í þessum fskj., að það er gerður mjög mikill munur á bönkum og sparisjóðum annars vegar samkv. þessu frv. og hins vegar öllum öðrum fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi hvað tekjuskattsinnheimtu varðar, þannig að bönkunum og innlánsstofnunum öllum er gert að lúta allt öðrum reglum og strangari í sambandi við tekjuskattsgreiðslu sína heldur en öðrum stofnunum í þjóðfélaginu.

Ég tek það fram, að mér finnst síður en svo neitt óeðlilegt við, að innlánsstofnanir greiði tekjuskatta eins og aðrar stofnanir og þær séu í hópi þeirra sem látnar séu greiða tekjuskatta eins og ýmis önnur fyrirtæki á okkar landi. Ég er einnig á þeirri skoðun, að það séu fleiri fyrirtæki, fleiri opinberir aðilar, sem nú eru undanþegnir tekjuskattsheimtu, sem eðlilegt væri að greiddu tekjuskatt einnig. En ég vil ekki að svo sé kastað höndum til ákvæða um hvernig skuli framkvæma slíka skattheimtu, að í fyrsta lagi sé ekkert tillit tekið til sérstöðu viðkomandi aðila, eins og gert er t. d. í öllum nálægum löndum þar sem þessar stofnanir eru skattskyldar, og ég er einnig andvígur því, að það sé verið að setja mjög frábrugðnar reglur um skattlagningu þessara stofnana miðað við þær reglur sem eru í íslenskum lögum um fyrirtæki almennt. Það nær t. d. ekki nokkurri átt, að hluti tekjuskattsgreiðenda í landinu sé látinn greiða staðgreiðslutekjuskatt á sama tíma og hluti tekjuskattsgreiðenda í þessu landi sé á eftirágreiðslufyrirkomulagi. Sama regla á að sjálfsögðu að gilda um alla. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að þegar nýr aðili, sem áður hefur verið undanþeginn tekjuskattsheimtu, er tekinn inn í þetta kerfi og engin sérþekking er fyrirfinnanleg í landinu um skattlagningu slíkra stofnana í nálægum löndum, þá verða menn að leggja nokkuð að sér og vanda sig því lengi býr að fyrstu gerð. Reynsla okkar er sú hér á landi. Það getur verið mjög erfitt að koma fram jafnvel sjálfsögðum breytingum til þess að leiðrétta mistök sem stafað hafa af því, að í upphafi hafa menn ekki gert sér nægilega mikið far um að vanda verk sín. Við höfum allt of mikla og illa reynslu af slíku til þess að menn reyni ekki a. m. k. að vanda það sem varðar tekjuskattsálögur og breytingu á tekjuskattslögum, þegar á að taka nýja aðila til tekjuskattslagningar, ekki síst þegar um er að ræða aðila sem skipta allan almenning jafnmiklu máli og þær stofnanir sem hér er um að ræða.

Herra forseti. Það er ákaflega ríkur misskilningur sem gætir oft í almennri umræðu á Íslandi um efnahagsmál. Fólk heldur oft að það hljóti að vera til einhverjir fjármunir í okkar landi hjá einhverjum. Venjulega er það alveg óskilgreint hvar þá fjármuni sé að finna sem sé hægt að meðhöndla eins og einhvers konar strandgóss, þ. e. fjármuni sem reki á fjörur manna án þess raunverulega að það þurfi nokkur að skapa þetta fé eða það komi við nokkurn þó af þessu fé sé tekið. Lengi vel var lítið á innlánsfé innlánsstofnana sem slíkt strandgóss. Það var eiginlega litið á sparifé fólks í bönkum sem það væri til frjálsrar ráðstöfunar fyrir alla þá aðila, sem á því þyrftu að halda, menn þyrftu ekki að gera sér neina rellu út af því, þó svo þeir, sem tækju þetta fé að láni, greiddu ekki nema hluta af raunverulegu andvirði þess til baka. Það var lengi vel í allri umræðu um bankamál og efnahagsmál í voru landi, litið á sparifé gamla fólksins og unga fólksins og barnanna, sem myndar meginhluta af innlánsfé í bönkum, sem slíkt strandgóss, það væri raunverulega enginn sem ætti þetta, heldur hefði það rekið einhvers staðar á fjörur og þeir, sem á þessum peningum þyrftu að halda, hvort sem það voru menn af minni kynslóð, sem voru að byggja þak yfir höfuð sér, eða þá menn í atvinnulífinu, sem þyrftu á rekstrarfé að halda fyrir fyrirtæki sín, — þeir ættu að geta gengið í þetta strandgóss eins og þeir kærðu sig um og ekki skilað til baka til sparifjáreigendanna nema hluta af þessu verðmæti og enginn ætti að leyfa sér að segja neitt. Með þessum hætti var efnahagslífinu í þessu landi lengi haldið uppi, með því að umgangast sparifé almennings eins og slíkt strandgóss. Það má með réttu halda því fram, eins og hefur verið gert, að sú kynslóð, sem nú er í blóma í þessu landi, hafi lifað lengi vel á því að stela aftur fyrir sig, haldið sér uppi á peningum sem kynslóðin, sem á undan gekk, hafði sparað sér saman og lagt fyrir til elliáranna. Menn byggðu atvinnufyrirtæki sín á þessu, menn byggðu húsin sín á þessu, að umgangast sparifé gamla fólksins, sem það hafði önglað sér saman með vinnu sinni og ætlað að geyma til elliáranna, eins og strandgóss af þessu tagi. Auðvitað hlaut þetta strandgóss að ganga upp, því að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr verða menn að viðurkenna það, að peninga rekur yfirleitt ekki á fjörur heillar þjóðar án þess að hún þurfi neitt fyrir þeim að hafa. Og auðvitað komu þeir tímar þar sem strandgóssið í bönkunum, eins og það var kallað, gekk upp. Það eyðist sem af er tekið. Sparifé gamla fólksins hvarf, það brann upp á verðbólgubálinu, og fyrir þetta sparifé byggði mín kynslóð og aðrar þær kynslóðir, sem nú eru í blóma í þessu landi, sér þak yfir höfuðið og skilar ekki nema broti af þessu fé til baka. Og hvað var síðan gert þegar ekki var lengur hægt að ganga í þennan sjóð? Þá sneri þessi kynslóð, sem nú er í blóma í þessu landi, sér að því, þegar hún gat ekki lengur stolið aftur fyrir sig, af gamla fólkinu, — þá sneri hún sér að því að stela fram fyrir sig með því að lifa á lánum í erlendum bönkum sem börnunum okkar er ætlað að borga. Þannig hefur núlifandi kynslóð í rauninni haldið uppi lífskjörum sínum á því fyrst að ganga í sparifé gamla fólksins eins og strandgóss. Þegar það var ekki lengur hægt var snúið sér að útlendum bönkum. Þar eru slegin lán og börnunum okkar er ætlað að borga þau.

Þau lán, sem hæstv. fjmrh. er nú að taka, koma ekki til greiðslu, fyrstu afborganirnar af þeim, fyrr en árið 2019 — og þá er allt í lagi. Þá er þess að vænta, að þeir, sem nú lifa eins og blóm í eggi í þessu landi, séu ekki lengur til. Hver á þá að borga lánin? Jú, það eru börnin okkar. Þurfum við að hafa áhyggjur af því?

Þetta er útúrdúr, en meginatriði málsins er það, að fjármuni rekur ekki áfjörur fólks. Menn geta ekki haldið úti heilu þjóðfélagi á því að umgangast fjármuni eins og eitthvert strandagóss sem enginn á og enginn finnur þótt af verði tekið. Stofnanir eru dauðir hlutir. Byggingar eru dauðir hlutir. Stofnanir skapa engin verðmæti. Það er fólkið, hið lifandi fólk í landinu, sem skapar þessi verðmæti. Stofnanir borga enga skatta vegna þess að skattar eru greiddir af verðmætum sem skapast. Það er ekki hægt að skattleggja stofnanir frekar en það sé hægt að skattleggja styttuna hérna úti að baki mér eða myndastytturnar hér í Reykjavíkurborg. Þær skapa ekki verðmæti frekar, hvaða nafni sem þessar stofnanir nefnast.

Verðmætin, sem skapast, verðmætin, sem verið er að tala um að skattleggja, það er lifandi fólk sem skapar þessi verðmæti, og þó að menn séu að reyna að nefna stofnanir sem einhverja milliliði til þess að greiða skatta, þá er það raunverulega fólk sem borgar skattana. Stofnanirnar eru bara milliliðir til þess hafðar að færa fjármuni frá einum til annars. Stofnanirnar skapa aldrei nein verðmæti. Stofnanirnar borga aldrei skatta. Það er fólk sem stendur á bak við verðmætasköpunina, og það er fólk sem greiðir skattana.

Þegar menn tala um að stofnanir eins og viðskiptabankar og sparisjóðir eigi að greiða skatta, þá er það einfaldlega rangt, því að þær greiða ekki skattana. Þessar stofnanir eru dauðir hlutir sem ekkert skapa. Þeir, sem skattana greiða, er fólkið sem þessar stofnanir eru starfræktar fyrir. Það hafa Alþb.-menn hins vegar aldrei skilið. Þeir halda að það hljóti að vera til í samfélaginu eitthvað strandgóss, einhvers staðar hljóti einhverjir peningar að vera til sem hægt sé að ganga í og taka af eins og hverjum og einum þóknast án þess að komi við kaun nokkurs manns, vegna þess að þessir peningar séu strandgóss sem enginn skapar. Og þegar þeir tala um að skattleggja í þessu tilviki banka og innlánsstofnanir, þá segja þeir: það er ekki skattlagning á fólk, það er bara skattlagning á stofnanir. Við erum ekki að skattleggja fólk, við erum að skattleggja stofnun eins og Landsbanka Íslands, nánast húsið, — nánast eins og þeir héldu fram: Við erum ekki að skattleggja almenning í Reykjavík, við erum bara að skattleggja myndastytturnar á götum og á steinum og torgum. — En auðvitað verða menn að gera sér það ljóst, að það eru ekki stofnanir né dauðir hlutir sem borga skatta, sem skapa verðmæti, heldur fólk. Og þegar menn eru að tala um að skattleggja innlánsstofnanir og sparisjóði, þá er verið að tala um að skattleggja einhverja aðila, einhverja lifandi aðila sem á bak við þessar stofnanir standa. Hvaða aðilar geta það verið? Jú, það geta verið þeir sem eiga stofnanirnar sem menn eru að skattleggja, alveg eins og þegar menn skattleggja t. d. fasteign, íbúðarhús, þá eru menn í rauninni aðskattleggja þann sem á íbúðarhúsið, en ekki húsið sjálft, því að ekki skapar húsið nein verðmæti, ekki greiðir húsið nein gjöld, heldur sá einstaklingur sem er talinn eiga viðkomandi fasteign. Við getum m. ö. o. í raun, þegar menn tala um skattlagningu á innlánsstofnanir, verið að skattleggja eignaraðilana, þá sem eiga viðkomandi stofnanir. Menn geta verið að skattleggja ágóðann sem verður af starfsemi viðkomandi stofnana, en gengur ekki til eigendanna, heldur verður til þess að byggja upp fé viðkomandi stofnana eða fyrirtækja. Menn geta verið að skattleggja starfsfólkið sem vinnur hjá viðkomandi stofnunum, m. ö. o. að skattlagningin þýði það, að laun þeirra, sem við viðkomandi starfrækslu og atvinnurekstur vinna, lækki. Í síðasta lagi geta menn verið að skattleggja þá aðila sem eiga viðskipti við viðkomandi stofnanir, aðra aðila en ég hef hér talið upp.

Allt eru þetta lifandi aðilar sem ég hef hér talið upp.

Aðra aðila er ekki hægt að skattleggja heldur en einhvern af þessum. Og ef við lítum á hvaða aðilar af þessum það eru sem raunverulega eiga að greiða það gjald sem hér er til umr., þá hefur því verið haldið fram, að hér sé verið að skattleggja þann ágóða sem hefur safnast upp hjá innlánsstofnunum, viðskiptabönkum og sparisjóðum og mynda eigin fé þessara aðila, m. ö. o. að ekki sé verið að skattleggja eignaraðilana né heldur viðskiptaaðilana, heldur sé verið að skattleggja stofnanirnar og sá skattur verði borgaður af eigin fé þeirra, því fjármagni sem hefur safnast upp í viðkomandi stofnunum vegna starfrækslu þeirra.

Er líklegt að eiginfjárstaða banka og lánastofnana sé þannig að líkur séu á því, að hægt sé fyrir þessar stofnanir að greiða umrædd gjöld af eigin fé. Það kemur mjög greinilega fram í þeim upplýsingum, sem við í fjh.- og viðskn. höfum fengið, að það var einkennandi fyrir sjöunda áratuginn og upphaf þess áttunda og framan af honum, að eiginfjárstaða allra innlánsstofnana, banka og sparisjóða versnaði mjög á þessum árum. Það var ákaflega eðlilegt. Á þessum árum var mjög mikil verðbólga á Íslandi, en útlán og innlán ekki verðtryggð. Afleiðingarnar hlutu að verða þær fyrir þær stofnanir, eins og banka og sparisjóði, sem sýsluðu með fé, að eigið fé þeirra minnkaði mjög ört, með sama hætti og raunverulegir fjármunir sparifjáreigenda, sem áttu inni í þessum stofnunum, minnkuðu mjög ört á þessu tímabili. Eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða lækkaði mjög ört allan sjöunda áratuginn og fram yfir miðjan áttunda áratuginn. Síðan gerðist það sem hæstv. núv. ríkisstj. er ekki enn búinn að gera upp við sig hvort var illt eða gott, — síðan gerðist það, að fallist var á tillögur okkar Alþfl.-manna um verðtryggingu inn- og útlána, um að verðtryggja sparifé gamla fólksins í bönkum og tryggja að þeir, sem tækju lán, endurgreiddu lánin í sömu verðmætum.

Stundum segja ráðherrar í hæstv. ríkisstj., eins og hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl., sagði í sjónvarpsviðræðum fyrir einu og hálfu ári, að hann hefði sjaldan séð eftir öðru eins og því að hafa látið Alþfl. plata sig til þess að samþykkja verðtryggingarstefnuna, m. ö. o. hefði hann sjaldan séð eins mikið eftir öðru en því að hafa látið glepjast til þess að fallast á þær tillögur Alþfl., að gamla fólkið og aðrir þeir, sem eiga sparifé í bönkum, fengju verðtryggingu á sparifé sínu. (Gripið fram í). Jú, þetta er sennilega í eina skiptið sem aðrir en flokksmenn hæstv. ráðh. hafa getað platað hann. En hingað til, í öll þau skipti sem hæstv. ráðh. hefur verið plataður, hefur það verið þannig vaxið að það hafa verið flokksmenn hæstv. ráðh. sem hafa átt hlut að máli. En það var ekki í þetta skiptið. Í hinu orðinu segir þessi sama ríkisstj. að það sé helst hrósvert við hennar störf, að á hennar starfstímabili hafi staða banka og annarra innlánsstofnana snarbatnað vegna verðtryggingarstefnunnar sem hæstv. ríkisstj. hafi framfylgt á þeim árum. M. ö. o.: eins og vani er hjá hæstv. sjútvrh. segir hann, þegar hann ræðir einn daginn um sama mál, að málið sé harla gott, og hrósar sér af því og notar það sem rós í sínu hnappagati, en segir svo hinn daginn að þetta sé versta mál sem hann hafi glapist á að samþykkja og sjaldan séð eftir öðru eins.

Þessi breyting, sem varð á verðtryggingarmálunum, hefur orðið til þess, að frá miðjum áttunda áratugnum og fram til þessa dags hefur eiginfjárstaða viðskiptabanka og lánastofnana verið að styrkjast þannig að þeir eru betur í stakk búnir núna til þess að greiða skatta og gjöld til ríkisins heldur en fyrir fjórum árum. En þá vaknar þessi spurning: Hverjir eru það sem hafa verið að styrkja eiginfjárstöðu bankanna? Það er fólkið, sem á sparifé í þessum bönkum, sem hefur orðið til þess, m. a. með því að leggja sparifé sitt inn í auknum mæli, að bankastofnanirnar hafa verið að styrkjast. Og hverjir eiga þá að njóta þess, ef svo er, að bankastofnanirnar hafa verið að styrkjast vegna þess að fólkið vill frekar ávaxta fé sitt í bönkunum nú heldur en áður? Það er þetta fólk. Það á að fá að njóta þess, en ekki hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen og ríkisstj.

Það væri a. m. k. harla einkennilegt öfugmæli ef maðurinn, sem kemur í sjónvarp og segir að það sé sú ákvörðun, sem hann sjái mest eftir, að hafa fallist á að verðtryggja innlánin, ef það er svo hann og hans ríkisstj. sem á að njóta þess ávaxtar sem af þeirri stefnu hefur hlotnast. Ef sanngirni ætti að gilda í þessum málum ættu þeir að njóta ávaxtanna af verðtryggingarstefnunni sem hafa borið uppi útlán bankanna og lánastofnananna, fólkið sem hefur viljað vista sparifé sitt í þessum stofnunum. Hvaða fólk er það? Það er ekki ríkissjóður. Ríkissjóður hefur engin önnur viðskipti haft við þessar stofnanir heldur en að skylda stofnanirnar til þess að veita sér lán. Það eru ekki heldur atvinnurekendurnir í landinu. Þeir eiga ekki spariféð sem stendur inni á viðskiptamannabókum sparisjóða og innlánsstofnana. Nei, það er ósköp venjulegt alþýðufólk, fólkið á götunni, sem á þessa peninga, — fólkið sem hefur með innlánsfé sínu styrkt bankastofnanirnar. Og það er það sem á að fá að njóta ávaxtanna.

Við Alþfl.-menn höfum m. a. gert till. um það hér á Alþingi, hvernig eigi að hjálpa þessu fólki að fá að njóta þessara ávaxta af batnandi stöðu banka og innlánsstofnana. Við höfum flutt till. um að bankar og innlánsstofnanir, vegna þess að staða þeirra er orðin sterkari, taki að sér að styðja það fólk sem er að reyna að koma þaki yfir höfuðið á sér með sultarlánum hæstv. félmrh. og sultarlaunum sem flokkur hans hefur samið um fyrir þetta fólk, það fái að njóta ávaxtanna af öllu öflugra bankakerfi með fyrirgreiðslu í viðskiptabönkunum, lögboðinni fyrirgreiðslu til þess að koma húsnæði yfir höfuð sér. Það er sú stefna sem við Alþfl.-menn viljum fylgja um hvernig nýta skuli stöðu bankanna sem hefur verið að styrkjast undanfarin ár. Það á ekki að nýta þá stöðu fyrir ríkishítina eins og gert hefur verið og gerð er till. um að ítreka enn. Það á að nýta þá öflugu stöðu til þess að styðja fólkið í þessu landi sem á það sparifé sem hefur lagt grundvöllinn að því, að staða innlánsstofnananna hefur verið að styrkjast.

Það er rétt og ég viðurkenni það fyllilega, að það eru meiri möguleikar á því að sækja einhverja fjármuni til bankanna með einum eða öðrum hætti núna en var fyrir 5 árum. Okkur greinir á um það, m. a. mig, minn flokk og hæstv. félmrh., að við viljum að fólkið í landinu fái að njóta þessarar styrku stöðu, þar sem hann vill að ríkissjóður fái að njóta hennar, — ríkissjóður sem enga aðild á að því að hafa skapað batnandi árferði í rekstri innlánsstofnana í okkar landi. En þá kemur líka að því að meta þá stöðu. Þrátt fyrir það að eiginfjárstaða bankanna hafi styrkst nokkuð að undanförnu, er hún þá orðin svo styrk að það sé ástæða til þess að ætla að hún þoli skattlagningu af því tagi sem hér er um að ræða? Það kemur í ljós, m. a. í upplýsingum frá bönkunum, sem við höfum hér fengið og ekki hafa verið dregnar í efa af fjmrn. né af þeim stjórnarsinnum, að eigið fé viðskiptabankanna sem hlutfall af heildarskuldbindingum nemur á árinu 1981 6.8%. Hefðu þá verið í gildi þau lög sem nú á að setja hefði eigið fé viðskiptabankanna sem hlutfall af heildarskuldbindingum aðeins numið 5.2%. Það er hlutfall sem er lægra en almennt er miðað við sem lágmark svo að segja megi að rekstur innlánsstofnana, banka og sparisjóða, sé hættulaus.

Ríkisstj. hefur nýlega lagt fram hér á Alþingi frv. til l. um sparisjóði. Þar er gert ráð fyrir að ríkisstj. veiti ekki sparisjóðum starfsleyfi nema eigið fé þeirra sé a. m. k. 10% af væntanlegum skuldbindingum, undir það hlutfall megi eigið fé ekki fara. Verði frv. þetta að lögum mun eiginfjárhlutfall fimm stærstu sparisjóðanna í landinu vera um 9% af heildarskuldbindingum þeirra, rétt undir því. M. ö. o.: ef ætti að uppfylla skilyrðin, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að verði samþykkt sem lög frá Alþingi, svo að óhætt sé að treysta því að sparisjóður geti fengið starfsleyfi, — ef ætti að uppfylla þau skilyrði mundi enginn af fimm stærstu sparisjóðum í landinu fá starfsleyfi hjá hæstv. ríkisstj. verði þessi lög samþykkt. Þessi staða bankanna og sparisjóðanna þýðir það, að ríkisstj. sjálf telur að sparifjáreigendum sé ekki óhætt vegna áhættusams rekstrar innlánsstofnana að eiga viðskipti við fimm stærstu sparisjóði landsins vegna þess að eiginfjárhlutfall þeirra sé lægra en óhætt sé áhættunnar vegna.

Þetta segir að sjálfsögðu sína sögu um það, hvert er álit hæstv. ríkisstj. um þau skilyrði sem verði að setja sparisjóðunum fyrir starfrækslu. Hvernig getur það þá farið saman, að hæstv. ríkisstj. skuli leggja til aðgerð sem lækkar þetta eiginfjárhlutfall sparisjóðanna undir hættumörk, á sama tíma og hún leggur fram á Alþingi tillögur um að engin starfsleyfi verði veitt fyrir sparisjóðarekstri verði undir þessi hættumörk farið?

Frv. um sparisjóði þýðir það, að ríkisstj. er að tilkynna viðskiptamönnum sparisjóðanna, að bankastarfsemi sé áhættusamur rekstur. Þeir, sem eiga fé sitt inni hjá bönkum og sparisjóðum, geta tapað þess fé sínu ef bankarnir fara á hausinn eða sparisjóðirnir hætta starfrækslu. Ríkisstj. telur að það sé ekki óhætt að veita slíkum stofnunum starfsleyfi ef eigið fé þeirra sé undir 10% af skuldbindingum. En jafnframt og hún segir þetta og lýsir þessu yfir leggur hún fram frv. sem mundi hafa í för með sér að eiginfjárhlutfall fimm stærstu sparisjóða landsmanna yrði undir þessum hættumörkum, sem að hennar áliti þýðir að það er áhættusamt fyrir fólk í landinu að eiga fjármuni sína á þessum sparisjóðum. Þetta sýnir eitt út af fyrir sig mat hæstv. ríkisstj. á því, hvort ætla megi að umræddir sparisjóðir og innlánsstofnanir geti greitt skatt þann, sem hér um ræðir, af eigin fé.

Þá er út af fyrir sig næsta spurning: Ef ekki er ætlunin að innlánsstofnanirnar greiði skatt sinn af eigin fé sínu, hver er það þá sem á að greiða hann? Það gætu verið eignaraðilarnir. Hverjir eiga innlánsstofnanir í þessu landi? Allar stærstu innlánsstofnanir eru ríkisbankar. Ríkið á þær sjálft. Ef eignaraðilarnir eiga að greiða þennan skatt, þá þýðir það m. ö. o. að ríkissjóður er að leggja skatt á sjálfan sig, ríkissjóður er að leggja til að tekjur hans verði auknar með því að hann greiði skatt. Hvernig kemur það heim og saman við almenna skynsemi, svo að maður fari nú ekki lengra, almenna heilbrigða skynsemi, að það geti verið úrræði í tekjuvanda ríkissjóðs að leggja til að hann sem eignaraðili allra helstu lánastofnana í okkar þjóðfélagi taki að sér að greiða til sjálfs sín skatt í þeirra nafni? Ég held að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta atriði til þess að sýna mönnum fram á hversu heimskulegt það er, ef það er ætlun hæstv. ríkisstj. að fyrst ekki sé ástæða til þess að ætla að bankarnir geti greitt þennan skatt af eigin fé sínu, þá verði það eignaraðilar bankanna sem skattinn greiða.

Þá getur það einnig komið til greina í þriðja lagi eins og ég lýsti áðan, að það séu almennar rekstrartekjur sparisjóða og viðskiptabanka sem standi undir skattgreiðslu þessari, þ. e. þær almennu rekstrartekjur sem verða frá degi til dags, safnast ekki fyrir í formi eigin fjár, heldur eru til ráðstöfunar. Í okkar þjóðfélagi er það Seðlabanki Íslands sem á að annast eftirlit með viðskiptabönkum og öllum lánastofnunum og fylgjast nákvæmlega með stöðu þessara aðila og gera síðan tillögur um ákvarðanir vaxta og vaxtamismunar þannig að hag þessara stofnana sé borgið. Auðvitað verður hag þessara stofnana að vera borgið, því að ella er hætta á að þeir sem byggja þessar stofnanir upp, þeir sem eiga sparifé inni hjá bönkum og sparisjóðum, tapi sínu. Ef banki eða sparisjóður getur ekki staðið undir rekstri sínum, þá er það ekki einhver stofnun í þjóðfélaginu sem tapar peningunum, heldur allir þeir aðilar sem eiga fjármuni inni á viðskiptareikningum við viðkomandi stofnanir.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands, sem er eftirlitsaðili með bankakerfinu, kom á fund fjh.- og viðskn. Nd. Hún sagði um afkomu bankanna á s. l. ári að sú afkoma væri nokkuð misjöfn, sumar innlánsstofnanirnar hefðu gengið nokkuð vel á því ári, en aðrar miður. Alvarlegasta ástandið, sagði seðlabankastjórnin, að væri þó hjá hinum minni innlánsstofnunum í hinum dreifðu byggðum landsins, hjá litlu sparisjóðunum. Þeir gáfu okkur þær upplýsingar, að þessir litlu sparisjóðir hefðu ákaflega lítil rekstrarútgjöld, vegna þess að mikill hluti af þeirri starfsemi, sem þar færi fram, væri unninn af áhugaaðilum í sjálfboðavinnu sem aldrei kæmu laun fyrir. Þetta væru stofnanir sem starfræktar væru e. t. v. fyrir næsta nágrenni, lítil kauptún, lítið byggðarlag eða sveit, væru opnar kannske 1–2 tíma á degi hverjum og gæsla þeirra í höndum aðila sem gerðu frekar af þegnskap heldur en áhuga á endurgjaldi að starfrækja þessar stofnanir, þannig að mjög verulegur hluti af þeirri vinnu, sem þarna færi fram, væri vinna sem aldrei væri greitt neitt fyrir, heldur væri unnin í sjálfboðavinnu.

Jóhannes Nordal seðlabankastjóri gaf okkur þær upplýsingar, að hjá öllum minni og meðalstórum sparisjóðum væru mjög alvarleg vandamál að koma í ljós. Hann sagðist hafa greint fjh- og viðskn. Ed. frá þessu á fundi hennar þegar Ed. fjallaði um það frv. sem hér er á ferðinni. En seðlabankastjóri tók fram að frá því að þær upplýsingar hafi verið gefnar fyrir nokkrum dögum og þangað til hann kom á fund fjh.- og viðskn. Nd. hefði Seðlabankinn aflað sér enn frekari gagna um raunverulega rekstrarafkomu banka og sparisjóða á s. l. ári og þær viðbótarupplýsingar hefðu því miður bent til þess, að vandamál sérstaklega litlu og meðalstóru sparisjóðanna væru miklu alvarlegri en þá í Seðlabankanum hefði órað fyrir áður. Ég skrifaði orðrétt eftir seðlabankastjóranum hvað hann sagði. Hann sagði: „Jafnvel án þeirrar skattlagningar, sem hér um ræðir, er staða margra þessara innlánsstofnana, minni og meðalstórra sparisjóða, mjög tvísýn þannig að líkur eru á að til sérstakra aðgerða þurfi að grípa til þess að koma í veg fyrir mjög alvarlega erfiðleika í rekstri þessara sparisjóða.“ Hvað er seðlabankastjóri að segja með þessum orðum? Hann er að vara við því, að staða margra þessara litlu sparisjóða úti um land sé orðin svo varasöm að það geti verið að þessir sjóðir séu í hættu ef ekkert sé að gert. Hann bætti við orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Að mínu áliti er mjög varhugavert að auka nú þennan vanda með skattlagningaráformum.“

Þegar seðlabankastjórinn var spurður að því, að hve miklu leyti mætti mæta þeirri skattheimtu, sem hér um ræðir, með hugsanlegri jákvæðri rekstrarafkomu þessara stofnana á s. l. ári, þá sagði hann að þegar hann ræddi um þau miklu vandamál sem væru að skapast hjá mörgum þessara innlánsstofnana af minni gerðinni, þá gæfi auðvitað auga leið að þar með væri hann að lýsa yfir að ekki væri þess að vænta að þeir gætu staðið undir þessum skattlagningum. Og hvað varðaði sparnað í rekstri þessara stofnana lagði hann mjög einfalda spurningu fyrir okkur í fjh.- og viðskn. Það fer auðvitað eftir því, sagði hann, hversu fúsir forráðamenn þessara stofnana eru að auka ógreidda vinnu sína í þeirra þágu. Ef starfsmenn þessara sparisjóða úti um land eru tilbúnir til þess að gefa laun sín, þau litlu laun sem þeir hafa fyrir það að starfrækja þessar stofnanir, þá má vel vera að þessar stofnanir geti risið undir þessum kostnaði, öðruvísi ekki.

Sjálfsagt má ýmislegt spara í starfrækslu bankanna eins og við þekkjum þá hér á Reykjavíkursvæðinu. En það er alveg ástæðulaust að láta þessi viðvörunarorð seðlabankastjórans um afkomu hinna minni útlánastofnana úti um land fram hjá sér fara. Hann fullyrti í viðræðum við okkur í fjh.- og viðskn., að samþykkt þessa frv. væri ákaflega varhugaverð með hagsmuni þessara stofnana fyrir augum, með hagsmuni þeirra fyrir augum sem hafa ákveðið að varðveita sparifé sitt í þessum litlu innlánsstofnunum. Og hann bætti því við, seðlabankastjóri, að með sama hætti og hann hefði fengið frekari upplýsingar um rekstrarafkomu bankanna frá því að hann gekk á fund fjh.- og viðskn. Ed. þar til hann gekk á okkar fund, þá hefði hann einnig orðið sér úti um frekari upplýsingar um líklega afkomu þessara lánastofnana á yfirstandandi ári og því næsta, og hann sagði einnig orðrétt að horfur fyrir yfirstandandi ár væru ískyggilegar.

Ég vænti þess, að engum hugkvæmist svo mikið sem að leggja eyrun að því, að það sé tilætlun hæstv. ríkisstj. að innlánsstofnanirnar eigi að greiða þennan skatt með því að lækka launin við starfsfólk sitt þannig að það sé starfsfólkið sem í rauninni greiði skattinn. Það var aðeins möguleiki sem nefndur var, einn af mörgum sem á var bent af seðlabankastjórn og bankastjórum viðskiptabankanna að gæti komið til mála þegar leitað væri að þeim sem skattinn ættu að greiða. En auðvitað kemur engum til hugar að það eigi að mæta áhrifum þessa frv. með því að lækka laun fólksins í bönkunum, enda eru bankarnir skuldbundnir til þess að greiða starfsfólki sínu þau laun sem samið var um í frjálsum kjarasamningum milli aðila. Og þá er bara einn aðili eftir sem getur komið til greina að láta greiða þann skatt sem hér um ræðir. Hvaða aðili er það? Það eru viðskiptamenn bankanna. Hvernig yrði það gert? Jú, það yrði gert annaðhvort með því að hækka útlánsvexti, þ. e. hækka vextina sem lántakendur eru látnir greiða, eða þá með því að halda útlánsvöxtum óbreyttum, en lækka innlánsvextina og afnema verðtryggingu á sparifé.

Þetta er sú leið sem seðlabankastjórinn lýsti yfir á fundi fjh.- og viðskn. Nd. að væri nánast óhjákvæmileg. Hann lýsti yfir að í kjölfar samþykktar þessa frv. væri nánast óhjákvæmilegt að reikna með því, að í kjölfar frv. mundi fylgja annaðhvort hækkun útlánsvaxta eða lækkun innlánsvaxta, m. ö. o. að bilið milli útlánsvaxta og innlánsvaxta mundi aukið. Um hversu mikið? Um 0.7–0.9%. Þetta er m. ö. o. niðurstaða bankaeftirlitsins ef kalla má Seðlabankann þá stofnun. Seðlabankinn er sú stofnun sem á að tryggja að hagsmunir fólksins, sem á sparifé sitt inni í lánastofnunum, séu tryggðir þannig að fólk þurfi aldrei að óttast um að sparifjárinnistæður þess verði að engu vegna þess að lánastofnanir standi ekki undir skuldbindingum sínum. Hlutverk Seðlabankans er að tryggja þetta. Þessi aðili, Seðlabankinn, á því að gera tillögur um vaxtaákvarðanir til ríkisstj. sem séu þannig að fólkið í landinu, sem á sparifé í bönkum, megi treysta því, að það sé örugglega varðveitt.

Þessi eftirlitsaðili, Seðlabankinn, tillöguaðilinn um vaxtamál, fór yfir öll þau atriði, sem ég hef hér farið yfir, um hvaða aðili gæti hugsanlega greitt þennan skatt sem látið er í veðri vaka að bankar og lánastofnanir eigi að greiða, og niðurstaða hans varð þessi. Það er ekki um annað að ræða, eins og mál horfa við, en að gera ráð fyrir að skatturinn sé greiddur með því að auka mismun innlánsvaxta og útlánsvaxta, að skatturinn sé greiddur annaðhvort af fólkinu, sem á sparifé sitt í bönkum, með því að verðtrygging sparifjárins verði rýrð að sama skapi, eða af því fólki, sem tekur lán í bönkum, með þeim hætti að útlánsvextir verði hækkaðir að sama skapi. M. ö. o.: Seðlabankinn lýsir yfir að hann muni í framhaldi af afgreiðslu þessa máls gera till. um hækkaða vexti.

Niðurstaðan er sú sem ég hóf mál mitt á, að það er ekki hægt að skattleggja dauða hluti, það er ekki hægt að skattleggja stofnanir eða byggingar. Það er fólk sem greiðir þessa skatta. Og eins og málin horfa við núna þegar búið er að leita að öllum þeim aðilum sem hugsanlega geta greitt þann reikning sem hér er verið að búa til, þegar búið er að leita að öllum þeim aðilum, þá er það ekki nema einn sem eftir stendur. Það eru viðskiptamenn bankanna. Það er fólkið í landinu, sem á sparifé sitt inni í bönkunum, eða fólkið í landinu, sem þarf að njóta fyrirgreiðslu þessara lánastofnana. Skatturinn leggst á það. Á þetta vildi ég aðeins benda og enn ítreka þær ábendingar til þess að reyna enn einu sinni að koma mönnum í skilning um að það eru engin verðmæti til í okkar samfélagi sem hægt er að líta á sem einhvers konar strandgóss, sem hefur rekið á okkar fjörur, og hægt er að ganga í án þess að það komi við einn eða neinn. Slíkt fjármagn er ekki til. Slíkur aðili er ekki til. Allir þeir skattar og öll þau gjöld, sem á eru lögð í okkar samfélagi, sama hvað þau eru kölluð, sama hver er látinn í veðri vaka að eigi að greiða það, — allt þetta eru skattar og gjöld sem lifandi fólk borgar, fólkið í landinu, sama hvað viðkomandi frv. eða tillaga heitir.

Herra forseti. Menn hafa veitt því athygli undanfarnar vikur, að það hafa verið mikil átök í ríkisstj. Átökin hafa verið á milli Alþb. annars vegar og Framsfl, hins vegar, og margt annað, sem gerst hefur hér í þingi, hefur horfið í skugga þeirra átaka. En það eru þrír aðilar í þessari hæstv. ríkisstj. Hluti Sjálfstfl. er í forsæti þessarar ríkisstj., hæstv. forsrh. og fylgisveinar hans sem í ríkisstj. sitja. En eins og jafnan þegar átök verða í stjórnarherbúðunum er þessi þriðji aðili, þetta þriðja hjól undir vagni, aldrei nefndur. Sá þriðji aðili er aldrei til í þessari ríkisstj. þegar ósamkomulag verður. Hann hefur aldrei neina skoðun, þessi þriðji aðili. Hann er aldrei nefndur til málsins. Það heyrist aldrei í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi að hann sé á fundum. Það eru þingflokksfundir hjá Framsfl. Þar er rætt við formann þingflokks eða formann flokks að fundi loknum. Menn bíða með óþreyju og spenningi eftir að fá að vita hvaða ákvarðanir þar eru teknar eða hvaða niðurstaða verður þar. Sama máli gegnir um Alþb. Þar bíða menn í ofvæni eftir þingflokksfundum, eftir viðræðufundum í þeim herbúðum, og menn tala þar við formann flokks, formann þingflokks, ráðh. o. s. frv. En það hefur enginn lengur áhuga á því einu sinni að spyrja um þriðja aðilann: Hvar er Gunnar? Hvað vill Gunnar? Af hverju eru Gunnar og Pálmi ekki á fundi? Hvar er Friðjón? Hvað segja þeir? Hvað vilja þeir? Hvert er framlag þeirra til málsins. Menn eru gersamlega hættir að spyrja um þetta. Þeir hafa aðeins einu hlutverki að gegna í þessari ríkisstj. Það hlutverk er að bíða eftir að hinir komi sér saman. Og þeir hafa aðeins eina tillögu í þessari ríkisstj., og það er að þessir aðilar tveir, Framsókn og Alþb., verði að koma sér saman því að samkomulag verði menn að gera. Að forsrh. hafi einhverja till. um það, hvert eigi að vera efni slíks samkomulags, nei, hann hefur enga skoðun á því. Hann hefur bara eina skoðun: að það verði að vera samkomulag. Samkomulagið getur byggst á till. Alþb. Samkomulagið getur byggst á till. Framsfl. Samkomulag getur byggst á till. sem er soðin upp úr meiningum þessara tveggja flokka. En að forsrh. hafi skoðun á málinu, að þeir. ræðist við, sjálfstæðismennirnir í ríkisstj., nei, það er alveg af og frá. Þeir hafa enga aðra skoðun en þá, að það verður að gera samkomulag. (Gripið fram í: Hvað sagði Jón Prímus við því?) Hvað sagði Jón Prímus? Ja, það er von að menn spyrji. Það vill nefnilega svo til að í þeirri ágætu bók, Kristnihaldi undir Jökli, eftir Halldór Laxness, er skýrt frá lífsskoðun sem mætti halda að væri letruð á vegg í forsrn., hjá hæstv. forsrh. Það mætti segja, að Jón Prímus væri guðfaðir þessarar ríkisstj., a. m. k. lifir hæstv. forsrh. í anda kenninga Jóns Prímusar, því að hvað segir Jón Prímus og hvað kemur það málinu við sem hann segir varðandi það sem ég hef verið hér að drepa á.

Í Kristnihaldi undir Jökli, 41. kafla, er fjallað um viðgerð hraðfrystihúsanna, og það mætti lesa sem viðgerð atvinnulífsins eða viðgerð efnahagsmálanna, ef menn vildu vera láta. Það segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta orðrétt, þar sem ræðast við séra Jón Prímus og umboðsmaður biskups. Séra Jón segir:

„Ef ekki á að gera alla upp fyrir skuldum undireins, þá verður að koma sér saman um eitthvað, sama hvað það kostar, sama hvaða bölvuð vitleysa það er: samkomulag verður að vera. Menn verða til að mynda að koma sér saman um að peningar hljóti að vera einhvers staðar — hjá þeim ríku ef ekki vill betur, í bönkunum ....

Umbi: Ég hefði þó haldið að fyrsta skrefið væri að koma sér saman um að eitthvað sé satt og reyna síðan að lifa eftir því í félagi.

Séra Jón (les: hæstv. forsrh.): Það er gaman að hlusta á fuglana kvaka. En það væri annað en gaman ef fuglarnir væru einlægt að kvaka satt ....

Umbi: Á þá bara að hafa skáldlegt hugarflug í staðinn fyrir réttlæti.

Séra Jón (les: hæstv. forsrh.): Samkomulag er það sem skiptir máli. Annars verða allir drepnir.

Umbi: Samkomulag um hvað?

Séra Jón (les: forsrh.): Sama um hvað?“

Herra forseti. Ég held að ég hafi þessi orð mín ekki öllu fleiri. Ég held að ég sé búinn að komast að raun um það, eftir hvaða lífsreglum hæstv. forsrh. starfar. Hæstv. forsrh. er Jón Prímus íslenskra stjórnmála.