06.05.1982
Efri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4802 í B-deild Alþingistíðinda. (4590)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um 286. mál, þ, e. frv. til l. um jöfnun hitunarkostnaðar. Eins og hv. dm. er vafalaust kunnugt eru flm. þessa frv. Þorv. Garðar Kristjánsson, Eiður Guðnason og Egill Jónsson.

Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og orðið sammála um afgreiðslu þess. Ég vil leyfa mér að lesa upp nál., en það er svohljóðandi með leyfi forseta:

„Nefndin hefur tekið frv. til meðferðar og samþykkir að leggja eftirfarandi til:

Með skírskotun til yfirlýsingar ríkisstj. í Ed. í gær og í trausti þess, að þær aðgerðir til jöfnunar hitunarkostnaðar sem lofað hefur verið fyrir 1. ágúst n. k., verði ákveðnar með sérstöku tilliti til efnisþátta frv., samþykkir deildin að leggja til að vísa frv. til ríkisstj.

Ég vildi með leyfi forseta og vegna hv. þdm., sem voru e. t. v. fjarverandi þær umr. sem áttu sér stað hér í deildinni í gær, lesa upp þá yfirlýsingu sem vitnað er til í nál., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. telur óhjákvæmilegt, að dregið verði úr mismun á upphitunarkostnaði húsnæðis í landinu. Hefur ríkisstj. ákveðið með hliðsjón af áliti nefndar, sem nýverið hefur lokið störfum og skipuð var fulltrúum frá öllum þingflokkum, að beita sér fyrir úrbótum í þessu efni. Er að því stefnt, að upphitunarkostnaður sambærilegs íbúðarhúsnæðis verði yfirleitt ekki meiri en gerist hjá nýjum og hagkvæmum hitaveitum, sbr. Hitaveitu Akureyrar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Verður á næstunni gerð áætlun um hvernig ná megi slíku markmiði í áföngum, m. a. með endurskoðun á gjaldskrá veitufyrirtækja á næstu 12 mánuðum.

Verulegur ójöfnuður og hár upphitunarkostnaður stafar sumpart af bágu ástandi íbúðarhúsnæðis. Því er brýnt að hvetja til orkusparandi endurbóta á húsnæði og mun ríkisstj. beita sér fyrir aðgerðum í þessu skyni á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins.“

Vegna þess, sem stendur í nál., og vegna dagsetningar 1. ágúst vil ég ítreka það, að sú dagsetning er til komin vegna yfirlýsingar hæstv. iðnrh. í umr. utan dagskrár hér í deildinni í gærkvöld. Undir nál. sem ég þykist hafa gert grein fyrir, rita allir viðstaddir nm.