14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt leiðrétting, af því að ég tel að hv. þm. hafi misskilið það sem ég sagði áðan um þá skýrslu sem var gerð um verksmiðjur á þessu svæði hér suðvestanlands.

Það er alls ekki eingöngu um mengunarmálin að ræða. Ég nefndi það aðeins að verksmiðjur hér ættu í erfiðleikum af ýmsum ástæðum, m. a. vegna mengunarmála. En þetta er ítarleg vinna og fullkomin kostnaðaráætlun um sameiningu þessara verksmiðja í eina verksmiðju og þannig að jarðvarmi verði notaður í sambandi við vinnsluna í ríkum mæli. Þarna er um mjög athyglisverða nýjung að ræða sem er í meðferð núna hjá aðilum á svæðinu því að sjálfsögðu verður slík verksmiðja ekki byggð nema þessir aðilar vilji það. Ríkið færi ekki að byggja slíka verksmiðju. En ég vil leyfa mér að fullyrða að ef samstaða næst um þetta og þessir aðilar sjálfir telja að hér sé um markverða nýjung að ræða, þá muni ekki skorta lánsfé til að hrinda þessu í framkvæmd.

Ég get tekið undir það, og reyndar gerði ég það í minni upphaflegu ræðu, að það þarf meira en skuldbreytingu, það þarf eiginfjáraukningu. Ég skýrði frá því hverju væri mjög ábótavant. Ég teldi t. d. að það væri mjög verðugt verkefni fyrir Byggðasjóð, sem er með tiltölulega hagkvæmt fjármagn, að veita eigendum lán til eiginfjáraukningar. Ég held að það væri mjög athugandi þannig að þeir, sem geti tekið slíkt og lagt það inn, geri það. Ég veit að það kunna að vera vandkvæði á því, en það er eigið fé sem þarf að lagfæra.

Ég skil orð hv. þm. svo, að hann sé mér sammála í því, að grynnka þurfi á þessum skuldum. Ég get sagt það, að þar eru vissir þættir núna í athugun sem ég vona að ég geti fljótlega skýrt frá.