06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4821 í B-deild Alþingistíðinda. (4618)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að leggja orð í belg þegar þetta mál er hér til umr. vegna þeirrar blaðafregnar sem birt var fyrir nokkrum dögum um viðskipti hæstv. iðnrh. og forráðamanna Íslenska álfélagsins. Þetta mál varðar Hafnfirðinga kannske örlítið meira en ýmsa aðra, sérstaklega vegna staðsetningar þessa fyrirtækis svo og vegna viðskipta bæjarfélagsins við stjórnvöld sem vikið var að fyrir nokkru.

Það er ekki undarlegt að þar syðra sé sérstaklega fylgst með viðræðum eins og þeim sem nú fara á milli ráðh. og stjórnar Íslenska álfélagsins. Það verður hins vegar að segjast eins og er, að ummæli hæstv. iðnrh. áður og í upphafi þessa máls hafi verið þess eðlis, að sá stóri hópur Hafnfirðinga og annarra, sem haft hefur atvinnu við þetta fyrirtæki, varð undrandi. Það undraði þetta fólk að sjálfsögðu þegar hæstv. iðnrh. lét þau orð falla, að að hans dómi væri skynsamlegast að loka þessu fyrirtæki, ég tala nú ekki um þegar hann orðaði það svo, að það væri skynsamlegra að þetta fólk fengi sér þjóðhollari störf heldur en að starfa hjá þessu fyrirtæki.

Í raun og veru þurftu Hafnfirðingar ekki að vera hissa á þessum ummælum. Þau voru í samræmi við stefnu þess flokks sem hæstv. iðnrh. fyllir, og Hafnfirðingar þekktu afstöðu flokksbræðra hæstv. iðnrh. hér á Alþingi þegar þetta mál var til umr. á frumstigi og enn fremur þegar það kom til lokaafgreiðslu hér á Alþingi. Hafnfirðingar þekktu líka vel til afstöðu Alþb.-manna í Hafnarfirði þegar við Hafnfirðinga var rætt á sínum tíma hvort það fyrirtæki fengi þá aðstöðu sem þyrfti til þess að það yrði þar staðsett. Og Hafnfirðingar muna afstöðu fulltrúa Alþb. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þeim tíma. Þegar svo hæstv. iðnrh. hóf þá herferð, sem hér hefur verið vikið að, gegn þessu fyrirtæki, Íslenska álfélaginu, þá gerðu menn sér grein fyrir að hæstv. iðnrh. virtist ætla að halda stefnu Alþb. og þá rifjuðu menn upp þá afstöðu sem ég gat um áðan.

Það er engum blöðum um það að fletta, að staðsetning þessa fyrirtækis þar syðra hefur mjög bætt atvinnu manna þar og skapað atvinnuöryggi þess fólks sem byggir þetta svæði. Það eru að sjálfsögðu ekki eingöngu Hafnfirðingar því að um það bil helmingur þess starfsfólks, sem þar vinnur, er þar búandi, hinir búa í byggðarlögunum í kring. En jafnframt því hlaut staðsetning þessa fyrirtækis að verða töluvert mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið í heild. Það er öllum þessum aðilum sammerkt, að þeir vilja ná fram sem hagkvæmustum samningum um raforkuverð á hverjum tíma og að fyrirtækið greiði þau gjöld, sem því beri að greiða, undanbragðalaust og um leið sé atvinnuöryggi þessa fólks tryggt. Hver eignaraðildin sé er ekki aðalatriðið í augum þessa fólks, heldur hitt, að eignaraðildinni sé þannig fyrir komið að rekstraröryggi sé fyrir hendi, að sem flestir, sem vilja sinna slíkum störfum; geti fengið þar störf.

En af því að ég vék að eignaraðildinni og því, að menn halda gjarnan fram að eitt sé nauðsynlegt í því máli fremur en annað, það sé nauðsynlegt að um sé að ræða aðild okkar Íslendinga, — það er að vísu mismunandi mikil aðild sem menn þá tala um, sumir um meirihlutaaðild, sumir um að fyrirtækið sé alfarið í eigu Íslendinga, — þá er ekki úr vegi að það sé rifjað hér upp sem kom fram á þingi fyrir nokkru um samskipti Hafnfirðinga við ríkisvaldið, þ. e. við íslensku ríkisstj., og hvernig Hafnfirðingum hefur tekist að ná fram rétti sínum gagnvart íslensku ríkisstj.

Hafnarfjarðarbær hefur reist kröfu sína á samningum frá 1976 og óskaði endurskoðunar seint á árinu 1978. Það hefur ekki fengist niðurstaða í þeim efnum. En mönnum var ljóst, menn voru sammála um það, með hvaða hætti bæri að endurskoða hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldi því sem Íslenska álfélagið greiðir. Engu að síður hefur ekki enn, eftir nærri fjögurra ára bið, fengist lausn á því máli. En það vill svo til að einmitt hæstv. núv. iðnrh. hefur lengst þennan tíma gegnt því embætti og hefði því haft besta og mesta möguleika á því að koma þar fram leiðréttingu og nú síðustu tvö árin haft í fjmrh.-embættinu flokksbróður sinn. Því var auðvelt að koma fram réttum sjónarmiðum og sanngjörnum þannig að Hafnarfjarðarbær hefði átt að fá það sem honum bar. En það er dálítið annar tónn í bréfi sem hæstv. iðnrh. skrifar 29. apríl til Hafnarfjarðarbæjar, þar sem hann víkur að þessu atriði og svarar þá bréfi. Það var að vísu komið dálítið á annan mánuð frá því að bréfið var sent frá Hafnarfirði, en eins og er stundum orðað hefur það kannske farið Krýsuvíkurleiðina til hæstv. iðnrh. Það þýðir að það tekur lengri tíma en venjulega með pósti á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Í þessu bréfi ítrekar bæjarstjórn Hafnarfjarðar kröfur sínar vegna samnings sem gerður var á milli bæjarstjórnar og iðnrn. í maí 1976. Hæstv. iðnrh. svarar þessu bréfi og hann svarar því þannig að mér finnst ekki óeðlilegt að það sé lesið upp þegar við ræðum um samninga ríkisstj. við Íslenska álfélagið. Með leyfi forseta, í bréfinu segir:

„Í tilefni bréfs yðar, dags. 17. mars 1982, leyfir iðnrn. sér hér með að tjá yður, að þegar er svarað af hálfu fjmrn. óskum yðar um endurskoðun á hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldstekjum af rekstri álversins í Straumsvík og er engu við það að bæta öðru en að unnið er að því að afla lagaheimildar um skiptingu framleiðslugjaldstekna milli tiltekinna aðila, þ. á m. Hafnarfjarðarbæjar.“— En í bréfi Hafnarfjarðarbæjar er jafnframt bent á að eðlilegt sé í sambandi við þær viðræður, sem nú fara fram, að Hafnarfjarðarbær hafi fulltrúa sinn þar.

Ráðh. heldur áfram og segir í bréfinu: „Eins og yður er kunnugt óskaði ríkisstj. eftir því hinn 9. des. 1980 að upp yrðu teknar viðræður við Alusuisse um endurskoðun gildandi samninga um rekstur álversins. Í 16 mánuði hefur Alusuisse ekki léð máls á endurskoðun þessara samninga, en það er þó von rn., að sú afstaða Alusuisse muni breytast innan tíðar. Þegar það er tímabært“ — og nú talar sá sem valdið hefur — „og Alusuisse er reiðubúið til samningaviðræðna mun rn. strax efna til samráðs við Hafnarfjarðarbæ varðandi framleiðslugjaldið og skiptingu þess svo og önnur atriði sem snerta Hafnarfjörð sérstaklega.“ Undir þetta bréf ritaði iðnrh.

Mér fannst rétt og eðlilegt að þetta kæmi fram við þessar umr. Ég vildi ekki láta hjá líða að kynna það sjónarmið, sem ég kom hér fram með, vegna þess stóra hóps sem vinnur þar syðra og á atvinnuöryggi sitt undir því, hversu tekst í þeim samningaviðræðum sem nú fara fram.

Ég skal ekki tefja tímann hér með því að endurtaka skoðun okkar sjálfstæðismanna á vinnubrögðum hæstv. iðnrh. Það gerði formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv., og ég get í öllu og einu undirstrikað það og ítrekað þær spurningar sem hann lagði fram til forsrh., iðnrh. og samgrh. varðandi það miðlunartilboð sem hæstv. iðnrh. hefur vikið að. Ég legg áherslu á að af hálfu iðnrn., af hálfu iðnrh. verði allri tortryggni í þessu máli eytt. Það er grundvallarskilyrðið til þess, að hægt sé að ná fram þeim samningum sem við viljum. Ég legg áherslu á að það séu hagsmunir Íslendinga, sem verði hafðir að leiðarljósi, en vikið burt öllum pólitískum hagsmunum. Þá er von til þess að árangur náist.